Réttur til launa í veikindaforföllum

4. fundur
Fimmtudaginn 06. október 1994, kl. 10:52:42 (79)


[10:52]
     Guðmundur Hallvarðsson :
    Virðulegi forseti. Hér er athyglisvert frv. til laga um launakjör verkafólks eða launþega í veikindaforföllum. Um langan tíma hefur réttarstaða almenns launamanns verið nokkuð óviss hvað varðar laun í veikindaforföllum. Eru dæmi um að menn sem aldrei hafa stundað önnur störf en sjómennsku og komnir eru á aldurinn milli fimmtugs og sextugs hafa lent í því að veikjast eða slasast og staðið þá jafnvel frammi fyrir því að vera útskrifaðir heilbrigðir þó ekki sé að fullu og öllu. En á læknisvottorði hefur þá staðið eitthvað á þá vegu að þeir væru nú ekki sjúkir lengur en hæfir til að gegna skrifstofustörfum en ekki hæfir til að gegna störfum sem sjómenn. Það segir nokkuð til um hve vandinn er víðfeðmur í þessu. Kannski ekki eingöngu það sem snýr að vinnuveitandanum heldur líka hvað snýr að læknastéttinni og starfsstétt viðkomandi. Vissulega getur verið mjög erfitt að meta til hvaða verka maðurinn er hæfur, einkum og sér í lagi finnst mér ekki óeðlilegt að það sé litið til þeirrar vinnu sem hefur verið aðalstarf mannsins um langan tíma.
    Hér er eitt atriði líka sem mér finnst rétt að geta um. Flutningsmaður Hjörleifur Guttormsson leggur til að frv. sé vísað til félmn. Hins vegar eru þarna ákvæði sem falla undir sjómannalögin og það er að öllu jöfnu samgn. sem um þau lög fjallar. Því er ekki óeðlilegt að samgn. taki þetta mál til skoðunar jafnhliða félmn.
    Bara eitt að lokum. Þetta er hið athyglisverðasta mál og ég tel afar brýnt fyrir launþega að fá um það óyggjandi staðfestingu löggjafans hver sé réttarstaða þeirra í veikindum og ég vona að löggjafanum takist með þessu frv. ásamt ígrundun nefnda Alþingis að afgreiða þetta mál svo viðunandi sé fyrir launþega og fyrir vinnuveitandann svo það fari ekkert á milli mála hverjar séu skyldur atvinnurekandans og hver sé réttur launþegans í slysa- og veikindatilfellum.