Héraðsdómur í skatta- og bókhaldsmálum

4. fundur
Fimmtudaginn 06. október 1994, kl. 11:36:08 (87)


[11:36]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Þau þingmál sem hv. 12. þm. Reykv. hefur mælt fyrir í einu lagi eru allmörg og viðamikil og ég tek undir það með henni að það er vissulega nauðsyn aðhalds og eftirlits í öllum þessum skattamálum sem hún kemur hér inn á. Það fer ekki hjá því að 12. þm. Reykv. hlýtur að hafa sem fyrrv. ráðherra góða yfirsýn yfir þessi mál. Ég vil einnig í framhaldi af því nefna það, sem mér fannst reyndar ekki koma fram í hennar ræðu, að í fjárlagafrv. síðasta árs, þ.e. fjárlögum yfirstandandi árs, eru einnig tugir millj. kr. ætlaðir til herts skatteftirlits. Samkvæmt því sem upplýst hefur verið um stöðu fjárlaga nú þá hefur þetta skatteftirlit skilað sér allvel því tekjur ríkisins einmitt í sköttum eru miklu mun meiri en fjárlögin á þessu ári höfðu gert ráð fyrir. Trúlega hafa því þær milljónir sem voru lagðar til herts skatteftirlits skilað sér nokkuð vel. Enda held ég að allir nefndarmenn í fjárln. hafi verið sammála um að það þyrfti að leggja aukið fé í það.
    Hv. þm. nefndi áðan í 13. máli um viðmiðunarreglur um reiknað endurgjald að það þyrfti að endurskoða lög um reiknað endurgjald eða breyta viðmiðunarreglum. Hún nefndi þar að þessar viðmiðunarreglur gerðu ráð fyrir því að viðmiðunargjald væri á bilinu frá 90 þús. til 256 þús. kr. og að það væri yfirleitt of lágt. Ég get tekið undir það með henni að í sumum tilfellum er það vissulega of lágt. Ég þekki dæmi um ýmsar greinar atvinnurekstrar þar sem ég tel að þetta sé of lágt. Hins vegar held ég að þetta þurfi jafnframt að skoða, og það er ábending, hjá þeim sem eru að hefja atvinnurekstur. Þá erum við einnig að tala um það að við viljum gjarnan efla atvinnulífið og að sem flestir fari út í atvinnurekstur sem telja sig hafa möguleika til þess. En reglurnar eru þannig að um leið og fólk byrjar atvinnurekstur verður það að fara að greiða þetta reiknaða endurgjald. Í sumum tilfellum, og ég þekki dæmi um það, er fólk að hefja atvinnurekstur og er kannski nýkomið úr námi. Ég hef nú í huga ákveðið dæmi um landslagsarkitekt sem er nýkominn úr námi með margra ára námslán á bakinu sem þarf að fara að borga af og er að byrja að

taka að sér verkefni og þarf á sama tíma og hún er að byrja með eigin atvinnurekstur að greiða allt að 250 þús. kr. á mánuði í reiknað endurgjald. Það þarf þá jafnframt að skoða hvort ekki þurfi að vera einhverjar öðruvísi reglur þegar fólk er að byrja á atvinnurekstri.
    Í 12. máli, sem er um breytingu á staðgreiðslu opinberra gjalda, nefnir hv. þm. í athugasemd að það sé lagt til að sektir vegna skattsvika skuli aldrei nema lægri fjárhæð en þrefaldri þeirri upphæð. Samt er einnig nefnt hér að heimildir skattalaga kveði á um að þær geti numið allt að tífaldri þeirri fjárhæð sem undan er dregin þannig að heimildir eru í skattalögum fyrir þessu ákvæði. Ég sé því ekki alveg tilganginn með þessari breytingu.
    Hvað varðar frv. til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt þá kom hv. flm. inn á að það væri eðlilegt að leggja fram bankaábyrgð eða veðsetningu fyrir því þegar innskattur væri greiddur út og væri hærri en útskattur. Ég þekki ýmis dæmi um að þar sem svo háttar til, og það er oft svo með sjávarútvegsfyrirtæki einmitt sem fá meiri innskatt en útskattur er á ákveðnu tímabili, er alltaf beðið um bókhaldsgögn eða ég veit ekki annað. Þannig að innskattur sem er einhver veruleg upphæð á ekki að vera greiddur út nema því aðeins að bókhaldsgögn séu skoðuð áður af viðkomandi skattstofu og hún fari yfir það að þessi innskattur sé raunverulegur og fyrirtækið eigi rétt á því að fá hann greiddan.
    Að öðru leyti tel ég gott að þessi mál komi fram og veki umræðu. Ég vil einnig minna á það að við kvennalistakonur höfum lagt fram ýmsar fyrirspurnir um skattamál á undanförnum þingum og spurt um framgang skýrslu Ríkisendurskoðunar, sem hefur bent á ýmislegt sem aflaga fer, og hvort farið sé eftir hennar ábendingum. Við höfum lagt fram tillögur um að rannsaka útlánatöp. Við höfum einnig lagt fram tillögur um að endurskoða lög um tekju- og eignarskatt og spurst fyrir um hvað líði endurskoðun laga um bókhald. Þetta eru því mál sem alltaf þarf að ýta við á Alþingi og mjög þarft að komi fram.
    Ég vil svo að lokum láta það álit í ljós að ég er ekki viss um hvort hv. 12. þm. Reykv. hefur meiri möguleika á að koma þessum málum fram með stuðningi stjórnarandstöðunnar. Það mun tíminn leiða í ljós en eins og ég sagði er umræðan vissulega tímabær og ef það leiðir til meiri skilvirkni í skatteftirliti en núv. ríkisstjórn hefur komið í framkvæmd þá er það af hinu góða.