Héraðsdómur í skatta- og bókhaldsmálum

4. fundur
Fimmtudaginn 06. október 1994, kl. 11:46:22 (90)


[11:46]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Vissulega er þarft verk að hreyfa skattamálum og skatteftirliti í þingsölum og það er eðlilegt að þegar nýir vendir koma í þingsali, hvort sem ýmsir þingmenn eru að koma í fyrsta skipti eða stíga niður úr hærri sölum að þeir komi fram með málefni af þessu tagi. Nú hlýt ég að gefa mér það að hv. þm. hafi beitt sér fyrir þessum málum innan núverandi hæstv. ríkisstjórnar og ekki náð þar árangri og

kjósi nú að leita fulltingis annarra aðila á Alþingi.
    Ég mun því í upphafi míns máls bera fram þá spurningu til hv. 12. þm. Reykv. hversu oft þingmaðurinn hafi borið þetta mál formlega upp í ríkisstjórn, þ.e. hversu oft þetta mál hefur verið á dagskrá þeirrar ríkisstjórnar sem hv. þm. hefur setið að hennar frumkvæði. Ég held að það hvað við tökum þennan málatilbúnað alvarlega hljóti að verulegu leyti að mótast af því hvað hv. þm., þá sem ráðherra, hefur beitt sér fyrir þessu máli af mikilli hörku innan ríkisstjórnarinnar. Það er nú einu sinni svo að við höfum fengið á síðustu þingum langa skattabandorma frá hæstv. ríkisstjórn þar sem hefði verið í lófa lagið að bæta sumu af því sem hér kemur fram inn í ef fyrir því hefði verið vilji og fyrir því hefði verið barist.
    Virðulegi forseti. Í þessari fyrstu umræðu vil ég fyrst og fremst ræða um skattsvik almennt og viðhorf til þeirra mála og kannski út frá því hvernig hægt er að bregðast við. Mér finnst hv. þm. og flutningsmaður þessara tillagna líta þannig á að þegar talið berst að skattsvikum og skattsvikurum sé þar um að ræða til þess að gera fámennan hóp sem sé auðvelt að ráðast gegn með öflugum lögreglu- og dómsaðgerðum. Mér finnst að í þessu gæti annaðhvort misskilnings eða vanþekkingar. Ef við lítum á þá skýrslu sem hefur verið unnin á vegum fjmrn. og ég þykist sjá af málatilbúnaði hv. þm. að þingmaðurinn hafi nokkuð leitað til þá koma þar fram margir afar athyglisverðir hlutir sem út af fyrir sig koma ekki á óvart. Ég hafði lesið þessa skýrslu áður en ég las hana aftur núna. Ég staldraði aftur við sama hlut og í upphaflega lestrinum og það var varðandi skoðanakönnun á viðhorfum almennings til skattsvika. Þar kemur fram að 70% aðspurða í 1.200 manna úrtaki segjast vera tilbúnir til að taka þátt í skattsvikum. Þessi einfalda staðreynd segir mér að það er ekki hægt að ráða við eða ráðast að þessu þjóðarmeini með lögreglu- eða dómsaðgerðum. Það mundi mjög bera keim af aðgerðum í lögregluríki og slíkar aðgerðir hafa aldrei skilað árangri.
    Mér fannst bera svolítið á því hjá hv. þm. að hún vildi einskorða umræðuna við svokallaða hvítflibbaafbrotamenn og vissulega er það svo að í þeirra hópi eru stærstu afbrotin framin. Ef við hins vegar skoðum það og reynum að átta okkur á því hvar er meiri hluti upphæðarinnar, þessara 11 milljarða sem ríkissjóður tapar, þá hygg ég að hann liggi ekki þar. Hann liggur hjá þessum 70%, hluta þeirra, sem eins og mórallinn er í þjóðfélaginu í dag, telja eðlilegan hlut í lífsbaráttu sinni til að létta framfærslu sína að taka þátt í skattsvikum því að það er bara ríkið sem verið er að svíkja. Í augum allt of margra er ríkið bæði stórt og vont og sjálfsagt að pretta það ef nokkur kostur er.
    Ég held að við þurfum í þessari umræðu að líta nokkuð í eigin barm. Ég geri ekki þá kröfu til þingmanna að þeir skrifti hér og vitni hvort þeir hafi tekið þátt í skattsvikum. En ég vil biðja þann þingmann að gefa sig fram, sem ekki hefur fengið á síðustu árum í tengslum við sín almennu viðskipti, sitt heimilishald, hvort sem það er viðhald á bíl, húsi, þeir hafi haldið veislu, eða hvað sem það er, sem á síðustu árum hefur ekki fengið tilboð um að taka þátt í skattsvikum. ( Gripið fram í: Hefur þú fengið það?) Ég hef fengið það, hv. þm., já. ( Gripið fram í: Hvað gerði þingmaðurinn?) Ég get alveg vitnað um það hér að ég hafnaði því tilboði. En staðreyndin er sú að í nánast flestum tilfellum skipta verksali og verkkaupi með sér hagnaðinum og eru þar með báðir aðilar orðnir samsekir.
    Enginn má skilja þessa ræðu mína þannig að ég sé með henni að réttlæta skattsvik og segja að við eigum ekki að berjast á móti þeim, þvert á móti. Ég held að við verðum með öllum ráðum að vinna á móti skattsvikum. En ég er hins vegar, virðulegur forseti, að reyna að leiða rök að því að ekki verður brugðist við þessum málum með viðhlítandi árangri á þann hátt sem hv. þm. er hér að leggja til, þ.e. með lagabreytingum og ætla sér að beita lögreglu og dómstólum. Eðli málsins er einfaldlega þannig að það gengur ekki upp.
    Varðandi það sem hv. þm. hefur sagt um það að refsiákvæðum sé ekki beitt af fullum þunga þá hygg ég að það sé rétt. Ég hygg hins vegar að ef við berum það saman við dóma í öðrum málaflokkum þá kæmumst við að því að hin almenna regla í íslenska dómskerfinu er sú að beita ekki refsiákvæðum á þyngsta hátt nema brot séu mjög alvarleg. Ég held að við verðum að skoða þetta í því ljósi.
    Hvaða forsendur þurfa þá að vera til staðar til þess að við náum árangri í þessum málum? Ég hef ekki tíma til að fara út í það ítarlega en þó vil ég nefna nokkur atriði sem snúa að stjórnvöldum:
    Í fyrsta lagi þurfa skattalög að vera einföld og skilvirk.
    Í öðru lagi þá verða skatthlutföll að vera innan eðlilegra marka, þ.e. þau mega ekki vera það há að þau ofbjóði greiðsluþoli og réttlætiskennd þeirra sem þurfa að greiða skattana.
    Í þriðja lagi þarf öll meðferð á opinberu fé að vera þannig að skattgreiðendur fái traust á meðferðinni og fái traust á þeim sem er trúað fyrir opinberu fé.
    Mér hefur oft fundist skorta á það hér á landi, bæði varðandi ríkisfjármál og fjármál sveitarfélaga að menn geri sér þessa ábyrgð nægjanlega ljósa.
    Varðandi fyrsta liðinn, sem ég nefndi, þá verður því miður að segjast alveg eins og er að í tíð þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr, sem hv. þm. var ráðherra í í þrjú ár, hefur verið gengið þveröfuga braut með stuðningi hv. þm. Í fyrri ríkisstjórnum, sem hv. þm. sat í, á fyrra fjögurra ára tímabili var unnið markvisst starf í þá veru að gera skattalög einfaldari, skatthlutföll einföld til að fá fram skilvirkara skattkerfi. Því miður hafa flestar aðgerðir núv. hæstv. ríkisstjórnar beinst í öfuga átt. Ég hef ekki orðið var við það að hv. þm. hafi staðið þar mikið á bremsunum.
    Virðulegur forseti. Vissulega er úrbóta þörf. Ég ætla að nefna nokkur atriði sem ég tel að okkur

stjórnmálamönnum beri að skoða.
    Ég tel í fyrsta lagi að við þurfum að skoða mjög rækilega hvort sú leið sé fær að lækka skatthlutföll en að við höldum samt sambærilegum tekjum ríkisins. Ég tel að við þurfum að skoða hvort há skatthlutföll séu farin að virka hamlandi á athafnasemi bæði einstaklinga og fyrirtækja. Hvort það geti verið að það mundi gerast á þessum vettvangi eins og gerðist til að mynda í tíð ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar og frumkvæði formanns Alþýðuflokksins að tollar af algengum heimilistækjum voru lækkaðir og samræmdir. Ég er sannfærður um það að í dag þá skila þessir lægri tollar jafnmiklum tekjum til ríkissjóðs og þeir gerðu fyrir breytinguna. Það dró mjög úr hvatanum til að flytja þessar vörur inn fram hjá kerfinu. Þetta tel ég eitt af þeim atriðum sem okkur stjórnmálamönnum beri skylda til að skoða.
    Í öðru lagi verði aftur að hverfa á braut einfaldari skattlagningar og reyna með því að ná fram breiðari skattstofnum en þó lægri skattprósentu. Inn í þessa umræðu vil ég taka tekjur af fjármagni. Það gengur ekki lengur og það ofbýður algjörlega réttlætiskennd hins almenna skattgreiðanda að bæði fjármagnseign og fjármagnstekjur séu að mestu leyti skattfrjálsar.
    Í þriðja lagi, og í þá vinnu getum við fyrst ráðist eftir að hafa tekið til, við stjórnmálamenn í okkar ranni, verði unnið að þjóðarsátt í skattamálum og við reynum að snúa 70/30% hlutföllunum við því að fyrr náum við ekki árangri. Ef við með vinnu okkar í löggjöf og framkvæmd skattamála gætum komið því til leiðar að hlutfallið snerist við, 70% almennings væru ekki tilbúin til þess að taka þátt í skattsvikum, værum við komin með stöðu til þess að ná þarna marktækum árangri.
    Ég geri mér grein fyrir því að hér er ekki um að ræða einfalt mál og það kann að taka langan tíma að breyta þessu og snúa þessu við. Við þurfum ekki annað en að líta til ýmissa nágrannaþjóða okkar. Ég tala nú ekki um þeirra þar sem hlutfall undanskota er svipað. Ég tala nú ekki um ef við förum að líta til Suður-Evrópuþjóðanna þar sem menn tala um að tugir prósentna af efnahagslífinu séu í neðanjarðarhagkerfinu að það þarf mikið átak til þess að snúa þessu við. Það þarf miklu meira átak en kemur fram í þeim þingmálum sem hér eru lögð fram, auk þess sem, eins og ég hef fært rök að, þá tel ég að þarna sé að nokkru leyti verið að byrja á öfugum enda. Það snúi að okkur stjórnmálamönnum sjálfum að stíga fyrstu skrefin með okkar vinnu varðandi skattlagningu og meðferð opinbers fjár.
    Vissulega hefur þar margt breyst til batnaðar og við skulum vona að sú þróun haldi áfram á næstu árum.
    Virðulegur forseti. Ég vil að lokum taka undir þá athugasemd sem hér hefur komið fram um 9. málið, um sérstakan héraðsdóm í skatta- og bókhaldsmálum, þá er ég sammála hv. 3. þm. Reykv. um þá skoðun að þetta mál eigi að fara til allshn. Hér er um að ræða breytingu á dómskerfinu og samkvæmt þingsköpum þá heyrir það mál undir þá nefnd.