Héraðsdómur í skatta- og bókhaldsmálum

4. fundur
Fimmtudaginn 06. október 1994, kl. 12:18:36 (95)


[12:18]
     Ingi Björn Albertsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég veit ekki hvort það er hægt að tala við menn sem hlusta ekki og heyra ekki. Að sjálfsögðu taka allir, og ég segi allir þingmenn undir það að skatteftirlit á að vera sem best. Að sjálfsögðu. Og ég hef aldrei talað gegn því. Hv. þm. sagði að ég hefði talað í aðra veru mínútu áður. Hvers lags hlustun og heyrn er þetta eiginlega? Ja, ég veit ekki hvert orðin fara.
    Í öðru lagi sagði ég um tveggja þrepa kerfið að framsóknarmenn hefðu séð fram á það að skattsvik mundu stóraukast. Síðan kemur hv. þm. hér upp og segir að ég hafi sagt að það mundi draga úr skattsvikum. Hvað er að í málflutningi slíkra manna? Eru þeir ekki algjörlega röklausir, rökþrota, ef þeir koma hér upp og fara með algjörar þverstæður við það sem menn segja?