Héraðsdómur í skatta- og bókhaldsmálum

4. fundur
Fimmtudaginn 06. október 1994, kl. 12:25:07 (100)

[12:25]
     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Þetta er vissulega tímamótadagur hér á Alþingi í dag þegar einn af fyrrv. ráðherrum ríkisstjórnarinnar hefur sest á bekkinn með stjórnarandstöðunni og lagt hér fram mörg mál. Ég sem stjórnarandstæðingur og andstæðingur ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar hlýt að bjóða Jóhönnu Sigurðardóttur velkomna í okkar hóp og fagna því að hún skyldi taka þá ákvörðun að yfirgefa þessa mislukkuðu ríkisstjórn sem hún hefur starfað í um svo langa hríð.
    En auðvitað er það svo að það vakna hjá manni margar spurningar. Þegar hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir er komin í okkar hóp og farin að berjast í málum sem við höfum barist í síðustu þrjú ár við þessa ríkisstjórn, er allt í einu orðin þátttakandi með okkur í liðinu, þá hljótum við auðvitað að spyrja spurninga eins og hér hafa komið fram: Hverjar voru tillögurnar? Okkur vantaði undirtektirnar í málunum um skattsvikin. Við framsóknarmenn höfum á þessu kjörtímabili margítrekað í þessum sal rætt um skattsvikin og aðgerðir gegn þeim við dræmar undirtektir ríkisstjórnarinnar og þingliðs stjórnarinnar. Við höfum líka margítrekað rætt hér stöðu heimilanna. Auðvitað er það svo, hæstv. forseti, að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur verið innanbúðarmaður í þeirri ríkisstjórn sem enn starfar. Hún hefur verið innanbúðarmaður í þeirri spillingu sem hún nú lýsir yfir að sé í landinu. Hún hefur verið innanbúðarmaður í þeirri misskiptingu tekna sem er í þessu landi og það er eðlilegt að spurt sé: Hvar hefur hv. þm. þær tillögur eða hvað lagði hún til í ríkisstjórninni? Þetta eru auðvitað spurningar sem hv. þm. hlýtur að svara. Ráðherraferill að baki í sjö ár, það er langur tími þannig að það er af mörgu að taka.
    Ég er sannfærður um það að hér þarf að taka á í þeim málum sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur mælt fyrir í morgun. Skattsvik með þessum hætti ganga ekki upp. Það er auðvitað deilt um það hvort það séu 11 eða 15 milljarðar í neðanjarðarhagkerfi. Nú geri ég mér grein fyrir því að hv. þm. hefur setið það tímabil í ríkisstjórn þar sem mestar skattkerfisbreytingar hafa átt sér stað. Ég minnist þess að á árunum 1987--1988 stóð hér hæstv. utanrrh. Jón Baldvin Hannibalsson, sem þá var fjmrh., og barðist fyrir því að taka upp staðgreiðslu, barðist fyrir því að taka upp virðisaukaskatt í staðinn fyrir söluskattinn. Og hann taldi hér á fingrum sér og sagði að þessar kerfisbreytingar mundu leiða það af sér að skattsvik heyrðu sögunni til. Þetta hefur ekki gerst. Auðvitað eru það vonbrigði fyrir hann og vonbrigði fyrir alla hv. þm. að ég hygg. Mér finnst það því mjög mikilvægt að við reynum að finna sanngjarna leið sem skilar því að þjóðin öll sitji við sama borð og að undanskot tilheyri fortíðinni. Ég veit að það er flókið en ég tel þetta aðalverkefni þess þings sem nú situr. Ella verð ég að segja það að ef menn ná ekki árangri gegn skattsvikunum þá er auðvitað komið að því að menn geta ekki haldið uppi tekjuskattinum eins og hann er. Þá verða menn að falla frá tekjuskatti á launamenn og finna upp nýtt tekjuöflunarkerfi fyrir ríkið því þetta er slíkt ranglæti að við það verður ekki unað.
    Ég hef skoðað þau mál sem hv. þm. hefur hér lagt fram og er þó ekki sannfærður um að þau öll muni leysa þann vanda sem hv. þm. auðvitað væntir með því að leggja þau fram. Ég get tekið hér undir með hv. þm. að það er mikilvægt að skattkerfið sé einfalt og að menn hafi þar ekki of háa prósentu. Þannig að ég er ekki sannfærður um að þessi mál leysi --- fyrir utan hitt að ég tek undir það hér með hv. þm. Birni Bjarnasyni að sérdómstóll sé úrelt leið.
    Hvað fleira varðar þá er auðvitað athyglisvert að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, sem nú er komin í okkar hóp, stjórnarandstöðunnar, og farin að tala með okkur í ýmsum málum, hefur yfirgefið ráðuneyti sitt, stendur upp frá borði þegar það hefur gerst í tíð ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar að meðalskuldir heimilanna hjá fjögurra manna fjölskyldu hafa aukist um 43%. Það er Alþýðublaðið sem upplýsir það í morgun að meðalskuldir hverrar fjögurra manna fjölskyldu hafi í ríkisstjórnartíð Davíðs Oddssonar aukist úr 3 millj. kr. upp í 4,3 millj. ( JóhS: Það er ekki alltaf að marka Alþýðublaðið.) Það er ekki að marka Alþýðublaðið, segir hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir. ( JóhS: Ekki alltaf að marka Alþýðublaðið.) En ég hygg nú að þessar staðreyndir séu í samræmi við það sem hér kom fram í umræðu um skuldastöðu heimilanna á vordögum. Það er auðvitað athyglisvert að þegar við ræðum skattamál þá hafa álögurnar á þessu tímabili ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar verið færðar af fyrirtækjunum yfir á fólkið í landinu.
    Eins og hér kom fram býr fjöldi fólks orðið við jaðarskatt upp á 70% af tekjum sínum. Þetta gengur auðvitað ekki upp. En það kemur líka fram hér í Alþýðublaðinu í morgun að skuldir fyrirtækjanna hafa á þessu tímabili verið að lækka og það er gott. En þarna hefur orðið óásættanleg misskipting vegna rangra skattareglna.
    Ég ætla ekki að lengja ræðu mína í þetta sinn. En auðvitað getur það ekki gengið upp að ráðherra sem setið hefur í ríkisstjórn á Íslandi afgreiði fortíð sína með tveimur setningum. Ábyrgðin er mikil og hefði hv. þm. beitt sér af fullum þunga eins og hún gerði oft í mörgum málum þá hlyti hún að hafa getað náð meiri árangri til að berjast gegn skattsvikum og standa að hagsmunum fjölskyldunnar á Íslandi. Ég minnist þess oft að þegar þessi hv. þm. var ráðherra þá skellti hún stundum hurðum og hótaði afsögn til að ná árangri. Og mér fannst stundum að hún segði að hún hefði náð því fram sem hún vildi. Ég hélt því að það væri sterkasti vettvangur sem stjórnmálamaður stæði á að sitja í ríkisstjórninni sjálfri til að berjast fyrir málum sínum. Hins vegar skil ég jafnaðarmanninn Jóhönnu Sigurðardóttur, að hún skuli ekki lengur geta starfað í Alþýðufl. sem mér sýnist að sé últra-hægriflokkur í íslenskum stjórnmálum, löngu horfinn frá hugsjónum sínum og baráttumálum og starfi nú með þeim flokki sem hann á samleið, frjálshyggjuliði Sjálfstfl. En við stjórnarandstæðingar munum að sjálfsögðu starfa að góðum málum með Jóhönnu Sigurðardóttur og ég óska henni alls hins besta á nýjum vettvangi.