Héraðsdómur í skatta- og bókhaldsmálum

4. fundur
Fimmtudaginn 06. október 1994, kl. 12:36:28 (101)


[12:36]
     Árni M. Mathiesen (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég vil taka undir þá andúð á skattsvikum sem fram hefur komið hjá hv. ræðumönnum í þessari umræðu en mig langar að staldra við orð hv. síðasta ræðumanns, Guðna Ágústssonar. Ég velti því fyrir mér hvort hann geti gert hv. þingheimi grein fyrir því hvort skattsvik séu meiri í tíð núverandi ríkisstjórnar heldur en var í tíð fyrri ríkisstjórnar eða á því tímabili sem Framsfl. sat í ríkisstjórn. Mér þætti einnig áhugavert að heyra hjá hv. þm. hvernig hann ætlar að fara að því að lækka skatthlutfallið án þess að hækka aðra skatta þar á móti eða að skera niður útgjöld ríkisins.