Héraðsdómur í skatta- og bókhaldsmálum

4. fundur
Fimmtudaginn 06. október 1994, kl. 12:37:37 (102)


[12:37]

     Guðni Ágústsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég ætla auðvitað ekkert að fullyrða um hvenær mest hafi verið skattsvik á Íslandi. En ég hygg að það sé öllum almenningi ljóst að skattsvik hafa verið að aukast og eins og ég gat um í ræðu minni hefur nýtt kerfi sem tekið var upp, staðgreiðsla og virðisaukaskattur, ekki skilað þeim árangri sem menn væntu. En ég er sannfærður um, eins og hér hefur komið fram í umræðunni, að ein ástæða ræður töluverðu um þann vilja almennings að taka þátt í skattsvikum, vera annar aðilinn í þeim, og það er sú skattastefna sem ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hefur rekið --- að færa allar álögur af stórgróðafyrirtækjum á Íslandi yfir á launafólkið með ýmsum hætti þannig að eins og hér hefur komið fram eru jaðarskattar orðnir með þeim hæstu í heiminum, komnir upp í hátt í 70%. Ég hygg því að það ráði mjög um þann vilja almennings að reyna að bjarga sér með því að vera ginnkeyptir fyrir slíkum tilfellum. Hins vegar vil ég taka það fram að ég sagði hér í ræðu minni að það sé afar brýnt verkefni þessa þings að fara á ný yfir skattamálin með það í huga að gera skattkerfið réttlátara og skilvirkara. Ég gat um það að í þessum efnum væru hér tvær þjóðir og það getur ekki orðið þjóðarsátt nema Alþingi sýni þann vilja að það ætli sér að ná sátt um tekjustofna ríkisvaldsins.