Héraðsdómur í skatta- og bókhaldsmálum

4. fundur
Fimmtudaginn 06. október 1994, kl. 12:39:50 (103)


[12:39]
     Árni M. Mathiesen (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Þegar stórt er spurt þá verður oft lítið um svör. Ég get því út af fyrir sig skilið að hv. þm. Guðni Ágústsson geti ekki svarað á mjög greinilegan eða skýran hátt seinni spurningu minni frá því í fyrra andsvari. En varðandi fyrri spurninguna um það hvenær skattsvik hafi verið mest á Íslandi þá er kannski líka erfitt fyrir hann að svara því. Hann tilgreinir nokkrar skattkerfisbreytingar sem hann telur vera orsök fyrir auknum skattsvikum en þá man ég ekki betur en að Framsfl., sá flokkur sem hann situr á þingi fyrir, beri fulla ábyrgð á þessum skattkerfisbreytingum eins og reyndar aðrir flokkar hér í þinginu og því er það ekki stórmannlegt að ásaka núverandi stjórn eða aðra flokka um að hafa valdið þessum auknu skattsvikum sem hann vill kalla svo að ásaka þá fyrir það þegar hans eigin flokkur og hann sjálfur ber þá fullt eins mikla ábyrgð á því ef um aukin skattsvik er að ræða.