Héraðsdómur í skatta- og bókhaldsmálum

4. fundur
Fimmtudaginn 06. október 1994, kl. 12:55:54 (107)


[12:55]
     Finnur Ingólfsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir þær ágætu útskýringar sem komu fram áðan um hvernig að þessu hefði verið staðið af hennar hálfu í samstarfi við aðra flokka í ríkisstjórnum fram til þessa. Ég dreg alls ekkert í efa að hv. þm. hefur lagt talsvert fram í þessum efnum og lagt sig fram um að takast á við skattsvik og vill vel. Það sem mér fannst hins vegar merkilegt við ræðu hv. þm. hér áðan var það að þegar hv. þm. sagði að hún hefði ítrekað reynt það í tíð núv. ríkisstjórnar að það væri tekið á skattsvikamálum. Því spyr ég hv. þm.: Getur maður skilið þetta sem svo að eins og ríkisstjórnin er nú skipuð hafi einstakir hæstv. ráðherrar í þeirri ríkisstjórn barist gegn því? Það væri fróðlegt að vita hvort hæstv. umhvrh. væri í þeim hópi, ráðherra í ríkisstjórninni, sem berðust gegn því að tekið væri á skattsvikum. Fróðlegt væri að fá svar hjá hv. þm. um þetta atriði.