Héraðsdómur í skatta- og bókhaldsmálum

4. fundur
Fimmtudaginn 06. október 1994, kl. 13:08:11 (114)


[13:08]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :

    Virðulegur forseti. Ég skal ekki lengja þessa umræðu mikið, en taldi mig þó knúinn til þess að taka aftur til máls í framhaldi af ræðu hv. 12. þm. Reykv. Það mátti skilja hv. þm. svo að hún túlkaði mína ræðu þannig að ég vildi draga úr aðgerðum gegn skattsvikum. Það er alrangt. Kjarninn í minni ræðu var sá að við hlytum að vinna gegn skattsvikum með öllum ráðum en ég hefði ákveðnar efasemdir um þá forgangsröð verkefna í málinu sem kom fram hjá hv. þm.
    Það er alveg rétt sem hv. þm. vitnaði til í skattsvikaskýrslunni að þar er lagt til að það verði skoðað að herða viðurlög og vissulega er það eitt sem við þurfum að horfa til. En ég benti á það í minni ræðu að það sem við stjórnmálamenn þyrftum að gera fyrst væri að laga til á þeim vígstöðvum þar sem við hefðum tækifæri til og gera skattkerfið og alla meðferð opinbers fjár það trúverðuga að við ykjum traust og trúnað við hinn almenna skattgreiðanda. Það er að mínu mati grunnurinn og hinn eini grunnur sem við getum byggt raunverulegan árangur á.
    Varðandi hins vegar það að núv. ríkisstjórn hefði lagt til að fjölga í skattrannsóknum og skatteftirliti er rétt að það hefur nokkuð verið unnið í því. Hins vegar vil ég benda á annað sem kemur fram í skýrslunni og það er að vinnu starfsfólks skattstofanna sé ekki hagað á þann hátt að vænlegt sé til árangurs gagnvart skattsvikum. Nú er ég ekki að segja, og má enginn skilja mín orð þannig, að starfsfólk skattstofanna skili ekki góðu starfi. Það gerir það starfsfólk vissulega, en því miður er það svo að allt of hátt hlutfall vinnunnar fer í formsatriðin, fer í vinnu sem skilar litlum árangri gagnvart skatteftirlitinu. Í skýrslunni er bent á að mjög vænleg leið til árangurs væri að einfalda alla meðferð framtala og það á að vera tæknilega framkvæmanlegt í dag að koma því þannig við að hinn almenni launþegi þurfi ekki að standa í gerð skattaframtala, hann eigi að geta fengið útskrift frá skattinum sem hann þurfi ekki annað en gera athugasemdir við ef honum líkar ekki það sem þar kemur fram. Á það er bent að með breytingum á þessu sviði sé hægt að losa um fjármagn og um leið vinnuafl til þess að sinna skatteftirlitinu. Ástæðan fyrir því að menn óttast skattsvik minna núna en fyrir nokkrum árum hygg ég að sé ekki síst sú að menn vita að það eru svo litlar líkur til þess að þeirra framtal verði dregið út úr og tekið til skoðunar vegna þess að starfsliðið er nánast allt saman upptekið við að bera saman launamiða, framtöl og hvers kyns formsatriði sem ætti að vera hægt með nútímatækni að sinna á vélrænan hátt. Hérna er atriði sem menn eiga að taka á og taka á strax.
    Ég vil að lokum nefna að það hefur verið rætt hér um ný bókhaldslög og það hefur ekki staðið á Alþingi með afgreiðslu á þeim. Frv. um þau kom einfaldlega svo seint fram á síðasta þingi að það voru engin tök á að vinna það nokkuð. Efh.- og viðskn. fór yfir drög að frv. að þessum lögum í sumar með það fyrir augum að flýta fyrir vinnunni þegar þing kæmi saman núna í haust. Ég hafði gert mér vonir um að frv. að nýjum bókhaldslögum og nýjum lögum um uppgjör fyrirtækja lægju fyrir strax í upphafi þings þannig að efh.- og viðskn. hefði getað farið í það strax á fyrstu vikum þingsins meðan beðið er á hefðbundinn hátt eftir að skattalögin komi fram, en því miður bólar ekkert á þessum frumvörpum. En ég tel mig geta sagt það hér og fullyrt fyrir hönd nefndarinnar að það muni ekki stranda á henni þegar kemur til slíkrar vinnu og í raun tel ég að ýmsum af þeim atriðum sem hv. þm. leggur til væri hægt að koma til framkvæmda í þeirri vinnu, þegar við förum í breytingar á þeirri löggjöf.