Notkun steinsteypu til slitlagsgerðar

4. fundur
Fimmtudaginn 06. október 1994, kl. 13:17:13 (116)

[13:17]
     Flm. (Gísli S. Einarsson) :
    Ég mæli fyrir till. til þál. um notkun steinsteypu til slitlagsgerðar. Ályktunin er þannig:
    ,,Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að beita sér fyrir aukinni notkun steinsteypu til slitlagsgerðar þar sem álagsumferð er meiri en 5 þúsund bílar á dag, jafnframt til brúargerðar og á vegi við þéttbýli þar sem umferð er 5 þúsund bílar á sólarhring og meira. Vegagerð ríkisins hafi að markmiði við nýlagningu og endurnýjun slitlags að nota steinsteypu þar sem umferðarþungi og álag er mikið.``
    Frú forseti. Þegar þessi tillaga var flutt á síðasta þingi var lagt fram sem fylgigagn myndband sem heitir ,,Steyptar götur í 30 ár``. Ég geri ráð fyrir því að það sé til staðar en ef svo er ekki en talin er þörf á því þá hef ég slíkt band undir höndum og til afnota fyrir samgn.
    Ég vil einnig geta þess að iðnn. fékk þessa tillögu til umfjöllunar á síðasta þingi og skilaði frá sér álitsgerð. Ég lít svo á að álitið sé til staðar og ekki þörf á að vísa tillögunni aftur til nefndarinnar, þar sem iðnn. er skipuð sömu aðilum og sátu í henni á sl. ári.
    Að öðru leyti er greinargerð með tillögunni eftirfarandi:
    ,,Mjög ítarlegar og markvissar rannsóknir hafa verið unnar á síðustu tveimur áratugum á notkun steinsteypu til vega- og gatnagerðar. Fyrir liggur að mun hagkvæmara er að nota steypu þar sem umferð og álag af völdum veðurfars og þungaflutninga er mikið. Í þessari greinargerð er vísað til meðfylgjandi gagna um rannsóknir sem unnar hafa verið og kynntar af Íslendingum. Notkun íslenskra efna til vegagerðar er kappsmál þar sem saman fara atvinnuskapandi og gjaldeyrissparandi þættir, auk meiri gæða.
    Kostir frá umhverfissjónarmiði eru ótvíræðir. Í stað olíuefna, sem gufa upp og menga jarðveg og andrúmsloft eða er komið fyrir í náttúrunni þegar gömul olíuslitlög eru fjarlægð, kemur umhverfisvænt efni, alíslenskt, sem er steinsteypa.
    Góða sönnun fyrir hagkvæmni steinsteypu sem bundins slitlags má finna á Akranesi. Allt frá fyrstu tíð, þ.e. frá árinu 1960, hafa steyptu slitlögin reynst þar eins og best verður á kosið. Engum fjármunum hefur verið varið til viðhalds steyptra gatna á Akranesi þau 33 ár sem þau hafa verið í notkun. Tæknimenn Akranesbæjar reikna með að steypt gata endist a.m.k. þrisvar sinnum lengur en malbikuð og er það byggt á framansögðu. Við mat á hagkvæmni slitlags kemur það enn frekar í ljós. Tilboð í 5 sm þykkt malbik á síðasta ári var ekki nema 40% ódýrara en 12 sm þykk steypa. Verðtilboð í steypu var á Akranesi á árinu 1993 1.891 kr. á fermetra miðað við 12 sm þykkt, en verðtilboð í malbik á sama tíma var 1.150 kr. á fermetra miðað við 5 sm þykkt.
    Rétt er að geta þess að sementsverð er það sama á öllu landinu vegna verðjöfnunar. Á malbiki er engin verðjöfnun sem gerir það þeim mun dýrara sem flutningsleið þess er lengri frá löndunarhöfn. Enn fremur ber að hafa í huga að til lagningar malbiks þarf sérhæfð tæki og mannskap. Nær alls staðar á Íslandi er til verkþekking til gatna- og vegagerðar með steinsteypu. Eftirfarandi atriði mæla sérstaklega með steinsteypu til gatna- og vegagerðar:
    Meiri ending og minna viðhald, ekki síst við álag nagladekkja.
    Minni erlendur kostnaður, en kostnaður er óháður olíuverði sem er u.þ.b. 11% af stofnkostnaði malbiks.
    Fleiri störf hérlendis, steypustöðvar, efnisvinnsla, sementsverksmiðja.
    Minni eldsneytisnotkun (10--20%) einkum vegna harðara yfirborðs steypu og minna vatns í hjólförum.
    Minni efnamengun vegna slitryks.``
    Það er rétt að geta þess að í svari frá hæstv. umhvrh. kom fram á síðasta þingi að hundruð tonna af tjöruryki fara út í umhverfið vegna slits á olíubornum vegum á Íslandi.
    ,,Að jafnaði grynnri hjólför og þar af leiðandi minna um slys.
    Minni kostnaður við lýsingu þar sem steypa er ljós en malbik dökkt.
    Á allt of mörgum sviðum hefur hagkvæmum og atvinnuskapandi möguleikum, þar sem um hefur verið að ræða íslensk efni, verið hafnað. Erlend efni hafa verið tekin fram yfir vegna auglýsinga og áróðurs í krafti fjármagns þeirra sem hlut eiga að máli. Oft eru ákvarðanir teknar með skammtímasjónarmið í huga og án þess reikna hagkvæmnidæmið til enda og þegar haft er í huga að eingöngu opinberir aðilar standa að slitlagagerð gefur það vissulega tilefni til sérstakrar rannsóknar og úttektar.``
    Ég get upplýst það hér að nú er í gangi hjá Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins sérstök úttekt og það sem komið er bendir til þess að það sem er getið um í þessari tillögu stenst allt og meira til því að það eru allar líkur á að hagkvæmni notkunar steinsteypu sé verulega meiri en hér er um getið.
    ,,Hliðstæð dæmi má nefna þar sem íslensk byggingarefni, sambærileg að verði og gæðum, hafa lotið í lægra haldi fyrir innfluttum byggingarvörum sem oft eru niðurgreiddar eða ríkisstyrktar. Þetta á t.d. við um eldhúsinnréttingar, fjölmarga innanstokksmuni, gipseiningar og margs konar loft- og veggplötuklæðningar. Annað dæmi, sem rétt er að nefna, er íslenskur skipasmíðaiðnaður sem er nánast rjúkandi rústir sökum samkeppni við ríkis- og atvinnubótastyrktan sambærilegan iðnað í nágrannalöndum okkar, svo sem Noregi, Danmörku, Svíþjóð og fleiri vestrænum ríkjum.``
    Það er þó rétt að geta þess sem vel er gert. Á síðasta ári og á þessu ári var tekið á þessu máli af hálfu ríkisstjórnar með jöfnunarframlögum sem vert er að þakka.
    Ég vil nota þetta tækifæri til að vekja athygli á því að það er brýn nauðsyn að það verði gerð grein fyrir því á hvern hátt og til hvaða verkefna ríkið hefur lagt fram fjármuni til jöfnunaraðgerða vegna skipasmíðaverkefna. Ég tel að það sé full ástæða til að skora á ríkisstjórn að kanna enn frekar til hvaða aðgerða er unnt að grípa til þess að halda viðgerðarverkefnum og nýsmíðum innan lands í skipasmíðaiðnaðinum og þeim virðisauka sem þannig verður til. Ég vil taka það fram sem áhersluauka að núna á þessum dögum eru að fara skipasmíðaverkefni fyrir 8 millj. kr., það er ekki hærri upphæð en 8--9 millj., þau skip eru að fara til Póllands til viðgerða. Það kostar á bilinu 3--5 millj. að fara með skip til Póllands til viðgerða með því sem þar þar fylgir. Getur það verið að þar sé eðlilega að máli staðið? Er það ekki klárt mál að það verður að grípa í taumana í þessum efnum?
    Ég vil beina þessari áskorun, sem ég gat um áðan, til ríkisstjórnar Íslands í nafni allra atvinnulausra járniðnaðarmanna og iðnaðarmanna sem nú vinna í störfum ófaglærðra og einnig þeirra fyrirtækja sem eru ákaflega illa stödd, fyrirtæki sem eru að sinna þeim viðgerðum sem við fáum hér innan lands. Ég tel að íslensk yfirvöld verði að stemma stigu við því að verkþekking og atvinnutækifæri glatist sökum andvaraleysis þegar vegið er að starfsgreinum í atvinnulífi landsmanna.
    Frú forseti. Ég hef flutt greinargerð með þessari tillögu og mælist til að tillögunni verði vísað til samgn.