Notkun steinsteypu til slitlagsgerðar

4. fundur
Fimmtudaginn 06. október 1994, kl. 13:34:34 (118)



[13:34]
     Ragnar Elbergsson :
    Virðulegi forseti. Sú tillaga sem hér er lögð fram um notkun steinsteypu til slitlagsgerðar er athyglisverð og tímabær og ber að þakka hv. flm., Gísla S. Einarssyni, frumkvæðið að því að flytja þetta mál hér.
    Eins og fram kemur í greinargerð með tillögunni eru kostir við þessa tilhögun margir. Athuganir hafa sýnt að mun hagkvæmara er að nota steypu þar sem umferð er mikil og jafnframt álag af völdum veðurfars og þungaflutninga. Sú reynsla og verkþekking sem við búum að í steypuframkvæmdum hér á landi rökstyður það að þessi leið sé farin.
    Notkun íslenskra efna til vegagerðar og að byggt sé á reynslu og þekkingu innlendra aðila er þáttur í því að auka hér atvinnu og jafnframt er rennt styrkari stoðum undir innlendan iðnað. Við höfum í allt of miklum mæli þurft að horfa upp á að valin séu erlend efni þrátt fyrir að innlend framleiðsla sé fyllilega samkeppnishæf. Eins og fram kemur í greinargerðinni eru erlend efni tekin fram yfir þar sem auglýsingar og áróður í krafti fjármagnsins er leiðandi í ákvarðanatökunni.
    Í greinargerðinni með tillögunni eru tekin nokkur dæmi um stöðu innlends iðnaðar, m.a. stöðu skipasmíðaiðnaðarins. Þar er einmitt lýsandi dæmi um stöðu iðngreinar sem farið hefur halloka í samkeppni við ríkisstyrktan erlendan iðnað. Greinargerðin tekur á fleiri þáttum um hliðstæð efni sem hér eru í framleiðslu en fara síðan halloka vegna þess að innflutningur er það ör á þeim. Það er hægt að taka dæmi, eins og kemur fram í greinargerðinni, um eldhúsinnréttingar, fjölmarga innanstokksmuni, gipseiningar og margs konar loft- og veggplötuklæðningar.
    Síðan er þetta spurning um umhverfisáhrif. Ég fagna því að hæstv. umhvrh. skuli vera hér. Þetta er eitt af því sem þarf að vega og meta við gerð slitlags á þjóðvegina okkar og ég tala ekki síður um í þéttbýli. Jafnframt á þeim svæðum víða um land sem eru ferðamannasvæði og útivistarsvæði varðandi slitlagsgerð og fleira í þeim dúr. Ég fagna því sem sagt að þessi tillaga er komin fram og ég tel að þetta sé einn þátturinn í þeirri aðgerð að efla íslenskan iðnað. Ég vona að tillagan fái jákvæða umfjöllun á hv. Alþingi og að við séum öll sammála um að nauðsynlegt sé að hlúa sem best að því sem innlent er.