Átak við að leggja jarðstrengi í stað loftlína

4. fundur
Fimmtudaginn 06. október 1994, kl. 13:52:58 (126)


[13:52]
     Flm. (Gísli S. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka undirtektirnar við umfjöllun um þessa tillögu. Ég verð þó að hryggja félaga minn, hæstv. umhvrh., með því að játa það að háspennulínur, ekki dreifilínur, eru enn svo dýrar ef það á að leggja þær í jörðu að það munar verulega miklu hvað jarðkapall fyrir háspennu er miklu dýrari en loftlínur. Þarna er sérstaklega talað um rafdreifilínur sem eru u.þ.b. 7.000 km langar á Íslandi og það eru þær línur þar sem mest álagið er. Þar er orsakavaldurinn almennt að því að fólk býr við ljósleysi og rafmagnsleysi og ég hef ekki seilst lengra en það. En ég hygg að það komi vel til greina að á áberandi ferðamannastöðum þar sem um tiltölulega skamman veg er að ræða sé unnt að koma raflínum eða háspennulínum í jörðu til þess að koma á móti þessum sjónarmiðum.
    En ég ítreka þakkir mínar fyrir undirtektir við þessa tillögu, sérstaklega til sitjandi iðnrh. Ég tel að ég hafi fengið það góðar undirtektir við þetta mál að það ætti að geta fengið framgang en að sjálfsögðu þarf það mikinn undirbúning og athugun.