Mengunarvarnabúnaður í bifreiðar ríkisins

4. fundur
Fimmtudaginn 06. október 1994, kl. 13:55:16 (127)


[13:55]
     Flm. (Gísli S. Einarsson) :
    Frú forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um eldsneytissparnaðar- og mengunarvarnabúnað í bifreiðar ríkisins. Meðflm. minn er hv. þm. Petrína Baldursdóttir.
    Till. er svohljóðandi:
    ,,Alþingi ályktar að fela umhverfisráðherra að beita sér fyrir að allar bifreiðar í eigu ríkisins verði búnar eldsneytissparnaðar- og mengunarvarnabúnaði, svokölluðum brennsluhvata.``
    Þessi tillaga var flutt á síðasta þingi, komst því miður ekki til umfjöllunar í umhvn. Ég vona svo sannarlega að umhvn. sjái sér fært að taka þessa tillögu til umfjöllunar þar sem getur verið um að ræða sparnað sem liggur á bilinu 600--1.000 millj. í olíu- eða eldsneytiskaupum. Ég tel að það sé mikil ástæða til að gefa þessu máli gaum.
    Greinargerðin sem fylgir með ályktuninni er svohljóðandi:
    ,,Með ítarlegum prófunum hefur verið sannað að sá búnaður, sem hér er lögð fram tillaga um að

settur verði í ríkisbifreiðar, minnkar umtalsvert mengandi efni í útblæstri farartækja ásamt því að draga úr eldsneytisnotkun.
    Eldsneytissparnaður reynist mismunandi eftir vélategundum en liggur á bilinu 4--10% sem leitt getur til sparnaðar sem nemur tugum milljóna króna á ári hjá ríkinu. Minnkun skaðlegra efna og lofttegunda í útblæstri vegna betri brennslu og þar með lægri útblásturshita liggur á bilinu 15--60% eftir gastegundum.``
    Með leyfi forseta vil ég vitna í bréf sem sýnir fram á hversu lítið þarf til þess að klára þær rannsóknir sem gerðar hafa verið. Bréfið er dagsett 31. maí 1994 og er til hæstv. umhvrh. :
    ,,Við undirritaðir sem störfum í CO 2 -nefndinni, sem skipuð var með bréfi umhvrn. 14. mars sl., höfum stöðugt verið að athuga á hvern hátt megi draga úr útstreymi CO 2 við brennslu olíu í farartækjum á landi, sjó og lofti.
    Nýlega gerðum við, með þeim fyrirvara að peningar fengjust bæði hér á landi og erlendis, samkomulag við C.E.P. Filter Engineering Ltd. í Englandi um rannsóknarverkefni sem lýst er í fylgiriti. Rannsóknarverkefni þetta er fólgið í því að greina orsakir efnabreytingar á dísilolíu þegar hún streymir í gegnum svonefnt CEP sigti og hversu mikla olíu mætti spara. Sýnt hefur verið fram á það með nokkrum rökum, bæði hér og erlendis, að bruni olíunnar er betri þegar sigtið er notað og hefur komið fram um 5--7% olíusparnaður.
    Sá hluti sem við leggjum til að gerður verði við Háskóla Íslands er að greina hvaða efnabreytingar verða á olíunni með notkun sigtisins og ef mögulegt er að finna orsakir þeirra breytinga.
    Uppsetning tækja er tiltölulega ódýr og nauðsynleg mælitæki eru til staðar við Háskóla Íslands. Helsti kostnaður er launakostnaður rannsóknarmanns, áætlaður ca. sex mánuðir til að byrja með, auk rekstrarkostnaðar rannsóknartækja. Þetta gæti verið að stærðargráðu 1--1,5 millj. Ef rannsóknir þessar verða jákvæðar gæti það leitt til þess að CO 2 -nefndin tæki málið til athugunar og gerði tillögur til ráðuneytisins.
    Í framhaldi af þessu bréfi viljum við óska eftir viðtali við þig um viðbrögð ráðuneytis og til að gefa frekari upplýsingar ef óskað er.``
    Með þessu bréfi fylgir síðan svarbréf ráðuneytisins þar sem ráðuneytið telur sig ekki hafa fjármuni til þess að sinna þessu verkefni.
    Ég lít þannig á að það sé mjög alvarlegt ef svo kröpp staða er að þar sem um er að ræða rannsóknir sem geta leitt til sparnaðar sem nemur 600--1.000 millj. sé ekki hægt að veita til þess verkefnis 1 millj. kr. og jafnvel mundu 500 þús. kr. gera það sem þyrfti til þess að klára þetta mál.
    Held ég þá áfram með greinargerðina:
    ,,CO 2 -mælingar sýna að hlutfallið í útblæstri eykst lítillega en gengur til baka vegna þess að brennt er minna magni af olíu/bensíni til þess að fá sömu orku út úr vélinni. Án þess að framkvæma kostnaðarsamar breytingar geta flestir bílar með notkun ,,Powerplus`` brennt blýlausu (blýminna) bensíni og þar af leiðandi minnkar blýmengun af völdum fólksbíla um u.þ.b. 20 tonn á ári.
    Tæknideild Fiskifélags Íslands hefur ásamt Vélskóla Íslands, með styrk frá LÍÚ og umhverfisráðuneyti, gert mjög nákvæma rannsókn á vél togarans Snorra Sturlusonar þar sem niðurstöður sýna fram á að ef íslenski togara- og fiskiskipaflotinn notaði Cleanburn eða CEP Cleanburn brennsluhvatann gæti verið um að ræða 200--300 millj. kr. sparnað á ári.`` --- Aðeins hjá fiskiskipaflotanum.
    Niðurstöður tæknideildar Fiskifélags Íslands og Vélskóla Íslands staðfesta niðurstöður tæknideildar British Rail sem gert hefur ítarlega prófun á a.m.k. 8 hraðlestum síðustu 18 mánuði. Í gær fékk ég í hendur staðfestingu á því að dönsku ríkisjárnbrautirnar eru að taka upp notkun á þessum hvata vegna minnkandi mengunar eins og hér er getið um og í sparnaðarskyni. Að beiðni Vegagerðar ríkisins framkvæmdi Vélskóli Íslands mengunarmælingar á fjórum farartækjum útbúnum brennsluhvata. Eins og við fyrri mælingu á botnvörpungnum Snorra Sturlusyni kom í ljós að mengandi efni í útblæstri minnkuðu og það bendir til betri nýtingar eldsneytisins. Í kjölfar jákvæðra niðurstaðna bíladeildar Eimskipafélags Íslands var tekin ákvörðun um að setja brennsluhvata í öll stærri tæki og bíla fyrirtækisins.
    Til að nefna dæmi um sparnað: Olíukostnaður íslenska fiskiskipaflotans er nálægt 4 milljörðum á ári. Ef aðeins 4--5% sparnaður næst, hér er getið um 5--7% sparnað í bréfi sérfræðinga háskólans, þá er auðvitað um hærri upphæð að ræða, en bara 4--5% sparnaður nemur um 200 millj. kr. sem svarar til 650--1.120 þús. kr. sparnaðar á hvern togara eftir olíutegundum.
    Útvegsmenn hafa vaxandi áhuga á hvatanum og margir þeirra hafa sett þennan búnað í skip sín á grundvelli staðreynda frá þeim sem hafa notað og gert úttekt á búnaðinum undanfarin fjögur ár. Það væri eðlilegt að mínu mati að veita úr Fiskveiðasjóði sérstaka fyrirgreiðslu til að flýta fyrir uppsetningu þess búnaðar í flotann með tilliti til sparnaðar og minni mengunar. Rétt er að geta þess að í norska þinginu er í umfjöllun að leggja fram 500 millj. norskra króna til þess að taka upp þennan búnað í öllum ríkisreknum ferjum og skipum og farartækjum sem eru á þeirra.
    DEB-þjónustan á Akranesi hefur safnað miklu efni um reynslu af brennsluhvatanum frá opinberum stofnunum víða í heiminum undanfarin fimm ár. Það hafa verið teknar saman skýrslur með tæknilegum upplýsingum um niðurstöður prófana á íslenskum fiskiskipum og togurum. Þessar upplýsingar hafa m.a. verið notaðar í tæknilegar ritgerðir hjá British Rail og sem kynningarefni í Bandaríkjunum, Bretlandi og Noregi.

    Umhvrh. hefur sagt að undir vissum kringumstæðum sé mengun frá útblæstri bifreiða á ákveðnu stöðum í Reykjavík mjög mikil. Sú staðreynd að unnt er að draga svo að um munar úr þeirri mengun er óyggjandi og er ein helsta ástæðan fyrir flutningi þessarar þáltill., svo og sparnaður sem kemur ríkissjóði til góða. Opinberum stofnunum hefur verið falið að leita leiða til að minnka olíunotkun og CO2-mengun til að standa við fyrirheit varðandi Ríó-sáttmálann. Það hafa komið ýmsar hugmyndir fram í þessu sambandi, t.d. notkun vetnis- og rafmagnsvéla og aukin notkun rafmagns almennt. Sumt af þessari tækni er enn á þróunar- og tilraunastigi. Ef Íslendingar ætla sér að standa við Ríó-skuldbindingar sínar, og ég undirstrika það, ef Íslendingar ætla sér að standa við Ríó-skuldbindingar sínar er margt sem bendir til þess að brennsluhvatinn sé hagkvæmasta leiðin sem við höfum til þess.
    Það er von okkar flm. að þessi ályktun hljóti góða og skjóta afgreiðslu í þinginu.
    Frú forseti. Ég legg til að að lokinni umræðu verði þessari tillögu vísað til hv. umhvn. og ég bind svo sannarlega vonir við að sú ágæta nefnd gefi sér tíma til að taka á og ræða um málefni sem geta verið sparandi fyrir ríkið upp á 600 millj., allt að einum milljarði.