Staða ríkisstjórnarinnar

5. fundur
Mánudaginn 10. október 1994, kl. 14:58:46 (136)


[14:58]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Ef stjórnarandstaða telur sig hafa ástæðu til að ætla að sitjandi ríkisstjórn eða stjórnarmeirihluti hafi af einhverjum ástæðum tapað meiri hluta sínum, þá er sá kostur fyrir hendi að láta á þetta reyna með því að bera fram vantraust. Áður en gengið var til þings mátti heyra yfirlýsingar, misjafnlega skilmerkilegar, af hálfu forustumanna stjórnarandstöðunnar um að hún þráði þá heitast að þing kæmi sem fyrst saman til þess að unnt væri að koma fram vantrausti. Nú er ég farinn að halda eftir að hafa hlustað grannt á þessar umræður að það sé eiginlega ekki nokkur leið að fá stjórnarandstöðuna til að bera fram þetta vantraust og það þurfi jafnvel að láta enn frekar á það reyna en orðið er hvort stjórnarandstaðan er fáanleg til þess, sérstaklega þegar hv. þm., varaformaður Alþb., missti það út úr sér að það yrði sennilega til þess eins að þétta raðir stjórnarsinna. Og ef stjórnarandstaðan er ófáanleg til þess að bera fram vantraust þá tekur hún þann kost að ræða stöðu ríkisstjórnarinnar.
    Nú vill svo til að þeirri umræðu er lokið. Hún fór fram um stefnuræðu forsrh. og þá var að sjálfsögðu rætt um stöðu ríkisstjórnarinnar ( Gripið fram í: Stefnu.) Stefnu og stöðu. Því miður er það svo að ég var að skyldustörfum og gat ekki tekið þátt í þeirri umræðu en hef heyrt af skilvísum mönnum að stjórnarandstaðan hafi ekki riðið feitum hesti frá þeirri umræðu. ( SvG: Hver sagði þér það?) Kannski er þá tilgangurinn sá með þessari umræðu að rétta hlut stjórnarandstöðunnar eða freista þess?
    Hæstv. forsrh. hefur út af fyrir sig þegar svarað þeim málsatvikum sem fram komu í ræðu framsögumanns og varðaði grunsemdir um gagnkvæman trúnað einstaklinga í ríkisstjórnarsamstarfinu og ég hef út af fyrir sig engu við það að bæta. Það er sérstaklega ástæða til þess að spyrja: Eru líkur á því að stjórnarflokkarnir hafi tapað meiri hluta sínum vegna þeirrar staðreyndar að hv. þm., fyrrv. félmrh., hefur vikið úr ríkisstjórninni? Forsrh. svaraði því skilmerkilega fyrir sitt leyti. Og ég get svarað því fyrir mitt leyti að ég sé ekki ástæðu til þess að ætla að þingmeirihlutinn sé brostinn af þeim sökum og tel reyndar ekki hafa orðið mikla breytingu á afstöðu hv. þm., þ.e. þess gætti stundum áður í stjórn að hún lýsti ýmsum sjónarmiðum sem hún átti sameiginleg með stjórnarandstöðunni. Ekki geta menn verið að byggja þetta tal

á skoðanakönnunum, jafnvel ekki þeir sem telja ævidaga sína í pólitík eftir slíkum vinsældakönnunum vegna þess að nú bregður svo við að þessar blessaðar skoðanakannanir sýna það helst ef eitthvert mark er á þeim takandi þessa stundina að nú undir lok kjörtímabilsins er það svo með forustuflokk stjórnarandstöðunnar, Framsfl., að hann hefur lengst af kjörtímabilsins staðið mun betur í skoðanakönnunum. Sama á við um Kvennalistann. Að því er varðar Alþb. þá eru skilaboðin nokkuð misvísandi þessi dægrin. Ein skoðanakönnunin leiddi í ljós að Alþb. væri býsna óvarið fyrir stuðningsmönnum hæstv. fyrrv. félmrh. en könnun sem núna var nýlega virtist leiða í ljós að Alþb. væri ögn að hressast, en það var tekið fram að hún væri ómarktæk vegna þess að það væri helmingur sem vildi ekki svara. Það eru því vandfundin haldgóð rök fyrir því hvers vegna verið er í þessum umræðum að forðast að tala um vantraust en tala heldur um daginn og veginn, um stöðu ríkisstjórnarinnar.
    Ég minnist þess frá fyrri dögum, árið 1988--1989, þá fór svipuð umræða fram. Þá var Sjálfstfl. í stjórnarandstöðu og var eitthvað að spyrjast fyrir um hvort ekki væri eitthvað á huldu um það hvort stjórnarmeirihlutinn væri fyrir hendi á þingi og þá stóð upp mjög virtur stjórnmálamaður, fyrrv. framsóknarmaður Stefán Valgeirsson og sagði: Jú, það væri kannski á huldu en það væru huldumenn hér á þingi sem mundu greiða þáverandi stjórn atkvæði og verja hana falli og það var bara látið gott heita, að þáv. ríkisstjórn sæti í krafti þess að henni bærist stuðningur að handan og menn voru ekkert að gera sér rellu út af því. Sú ríkisstjórn hélt sínu striki og reyndi þó ekki á að huldumenn gæfu sig fram ( Gripið fram í: Jú, jú.) fyrr en þar að kom og reyndust þá vera þessa heims.
    En það verður að reyna að taka þetta alvarlega og það er verið að spyrja um stöðu ríkisstjórnarinnar. ( ÓRG: Aðallega verið að spyrja um stöðu þína.) Sannleikurinn er sá að ef við lítum yfir feril og verk þessarar ríkisstjórnar og spyrjum hvernig hún skilar af sér verkum sínum og hvernig búi hún skilar í samanburði við það ástand sem hún tók við, þá held ég að flestum beri saman um það að staða ríkisstjórnarinnar er sterk.
    Nú fer það ekkert á milli mála og á bæði við þessa ríkisstjórn og forvera hennar að þessar ríkisstjórnir hafa stjórnað á einhverju langdregnasta samdráttarskeiði sem yfir þessa þjóð hefur gengið. Sjö ár eru langur tími í samfelldu samdráttarskeiði. Nú er það að vísu sögulegt álitamál hvort erfiðara er að stjórna í góðæri eða harðæri, en það fer þó ekki á milli mála að það reynir á þegar svo háttar til að þjóðartekjur og þjóðarframleiðsla og verðmætasköpun dregst saman yfir heilt tímabil með mjög alvarlegum hætti. Ég held að það sé best að gera grein fyrir því með því að vísa til þess að ef hagvöxtur á Íslandi hefði verið sá hinn sami á árunum 1987--1994 og hann reyndist að meðaltali í OECD-löndunum þá væri þjóðarframleiðsla okkar 100 milljörðum kr. meiri heldur en hún í reynd er. Hagvöxtur OECD-ríkjanna að meðaltali varð ekkert mjög mikill en samdrátturinn hér leiðir þó í ljós að það vantar til þess að halda í við þessar þjóðir um 100 milljarða kr. á þessu tímabili á verðlagi ársins 1994. Ef við metum þetta á hvern einasta mann, þá er niðurstaðan sú að það vantar um 400 þús. kr. í buddu hvers einstaklings á Íslandi vegna þess sem við höfum tapað í þjóðarframleiðslu á þessu langa samdráttarskeiði. Tökum annað dæmi til þess að sýna hið sama. Ef við hefðum haldið áfram hagvexti í sama takti og 10 árin næst á undan 1987 þá hefðu ráðstöfunartekjur á mann á Íslandi núna verið um 20% hærri en þær eru. Ég læt þessi dæmi nægja til þess að sýna hvers konar erfiðleika hefur verið við að fást.
    En ég nefni annað til sögunnar og það er þetta: Við höfum á tímabili lýðveldisins oft lent í því og oftar en aðrar þjóðir vegna þess hve efnahagslíf okkar er einhæft og sveiflugjarnt að það hafa orðið samdráttarskeið, ellefu slík tímabil á sl. hálfri öld. Það hafa yfirleitt verið þau tímabil þegar allt hefur farið úr böndunum á Íslandi vegna þess að þá hefur hinn pólitíski þrýstingur vaxið um allan helming um það að reyna að halda sér gangandi með svikinni mynt og aukinni verðbólgu, það hefur verð gripið til gengisfellingar og við höfum endað í kollsteypum, víxlhækkanaverðbólgu og yfirleitt þjóðfélagið allt saman að meira og minna leyti farið úr skorðum. Það er einmitt í lok slíkra erfiðleikatíma vegna þess að menn hafa ekki haft þrek til þess að halda út sem allt hefur farið á hvolf og að mínu mati, til þess að segja það hreint út, þá er það hið pólitíska afrek þessarar ríkisstjórnar, sem auðvitað er ekki hafin yfir gagnrýni og alls ekki verður um hana sagt að hún hafi ekki gert sín mistök, að hafa haldið út á erfiðum tíma og skilað nú af sér, þrátt fyrir þetta samdráttarskeið, þjóðfélagi sem hægt er að lýsa með eftirfarandi orðum:
    Það rengir það enginn að það er ríkjandi festa og stöðugleiki í íslenskum þjóðarbúskap. Það rengir það enginn að raungengi íslenska gjaldmiðilsins, sama á hvaða kvarða það er mælt, er traust og þar af leiðir að samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs er með því besta sem þekkst hefur um áratuga skeið. Og það er staðfest sérstaklega með því að útflutnings- og samkeppnisgreinar, að sjálfsögðu einnig á grundvelli þessa ákvæðis sem EES-samningurinn færði þeim, eru betur staddar núna en verið hafa um mjög langt skeið. Verðbólga á Íslandi er með því lægsta sem þekkist meðal grannlanda okkar og það er pólitískt afrek og það er einhver mesta kjarabót sem unnt er að tryggja fólki og einhver besta og traustasta forsendan fyrir því að unnt sé að vinna bug á atvinnuleysi. Það er forsendan fyrir því að vextir hafi farið lækkandi og ef við berum saman vaxtastigið nú og fyrir um það bil ári síðan þá skilar það fyrirtækjum og heimilum í landinu um það bil 8.000 millj. kr. ávinningi á ársgrundvelli á ári hverju, það er besta kjarabót sem hægt hefur verið að færa þessari þjóð. En það ber að taka það fram að þetta er ekki bara afrek ríkisstjórnarinnar. Þetta er ávinningurinn af annars vegar sparnaðar- og aðhaldsaðgerðum ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum og trausti aðila vinnumarkaðarins á þá stefnu og skynsamlegum kjarasamningum sem hafa tryggt vinnufrið á þessum forsendum. En þetta er engu að síður þessum aðilum að þakka og besta kjarabótin sem fólki hefur verið færð hér á landi.
    Það er þess vegna sem afkoma fyrirtækja fer nú batnandi. Meira að segja afkoma bankakerfisins eftir að hafa orðið fyrir ómældum skaða í formi tapaðra útlána vegna fortíðarvanda. Það er þess vegna sem útflutnings- og samkeppnisgreinar hafa nú reynst þess umkomnar að skapa ný störf þannig að atvinnustigið á Íslandi er ekki versnandi eins og víðast hvar í kringum okkur heldur þvert á móti hefur tekist að taka við fjölguninni á vinnumarkaðinum. Allt byggist þetta á því að ríkisstjórnin, þrátt fyrir mjög harða og ósanngjarna gagnrýni stjórnarandstöðunnar, sveigði ekki af leið varðandi það sem er pólitískt erfiðast yfirleitt og það er að grípa til spanaðaraðgerða í ríkisfjármálum. Með öðrum orðum, þessi ríkisstjórn, ef menn spyrja um það, er að skila af sér góðu búi, er að leggja í hendur þeirra sem taka við, hverjir sem það eru, forsendur fyrir nýrri framfarasókn og skapa ný sóknarfæri á traustum grundvelli. Ég er ekki í nokkrum vafa um það að það er leitun á því að ríkisstjórn hafi skilað af sér jafn vel. ( SvG: Ætlarðu þá ekki að halda áfram með Davíð?) Þetta er byggt á staðreyndum sem ég hygg að séu svona nokkurn veginn óumdeildar. ( SvG: Ætlarðu þá ekki bara að halda áfram?) Hvernig sem það nú fer, nú get ég ekki svarað spurningum hv. þm., þá getur hann ekki undan því kvartað að þannig hefur verið staðið að verkum að taki hann við, þá getur hann ekki skellt skuldinni á forvera sína og það er þá betur lagt upp í hendurnar á honum það sem hann á að fara með heldur en það sem við tókum við. ( SvG: Það er auðveldara að taka við af Ólafi Einarssyni en mér, áttu við það?)
    Stjórnarandstaða sem boðar vantraust en þorir ekki að leggja það fram er auðvitað í dálitlum vanda. En ég skil það hins vegar ákaflega vel vegna þess að það er í sjálfu sér hjákátlegt að ætla að byrja seinasta þing kjörtímabilsins með því að bera fram vantraust á ríkisstjórn sem skilaði af sér þannig verkum. Hvernig ætlar stjórnarandstaðan að rökstyðja það? Eigum við að hafa eitthvert sérstakt traust á því að þeir stjórnarandstöðuflokkar sem hér sitja hafi áunnið sér traust á þessu kjörtímabili af sínum verkum? Ég nefni tvennt sem er bara dæmi um það að stjórnarandstaðan fær nú væntanlega ekki undir því risið. Þegar þessi ríkisstjórn lagði hvað mest á sig og harðast var að henni sótt vegna sparnaðaraðgerða í heilbrrn. þá ætlaði hér allt um koll að keyra vegna hástemmdra yfirlýsinga um að hér væri verið að leggja velferðarkerfið á Íslandi í rúst. Nú er sú gerningahríð að baki og staðreyndirnar eru þekktar. Það tókst á árunum 1992--1993 að ná fram raunsparnaði í útgjöldum heilbrrn. upp á 4 milljarða. Það mun takast að mati Ríkisendurskoðunar ef forsendur fjárlagafrv. reynast traustar að ná fram 10% sparnaði að raungildi í þessum útgjaldaflokkum. Það er ekki rétt að þessum sparnaði hafi verið náð með því að velta gjöldunum á einstaklinga í landinu vegna þess að það er staðreynd að sameiginleg útgjöld hins opinbera og einstaklinga, viðskiptavina heilbrigðiskerfisins, hafa lækkað á kjörtímabilinu sem svarar um 8.000 kr. á mann. Með öðrum orðum, stjórnarandstaðan reyndist vera ósanngjörn og ómálefnaleg í þessari gagnrýni. Þetta var nauðsynlegur sparnaður til þess að ná þessum árangri en stjórnarandstaðan afflutti málið og vann sér ekki truast með þessum málflutningi. Hitt dæmið er auðvitað EES-samningurinn. EES-samningurinn er eitthvert stærsta mál sem þessi ríkisstjórn hefur komið fram. Hann er mikil lyftistöng fyrir atvinnulíf í landinu. Og nú vill svo til að það eru ekki bara stjórnarflokkarnir heldur málsvarar stjórnarandstöðunnar sem leggja öll mál upp á þann veg að meginmálið sé að halda þeim ávinningi sem EES-samningurinn hefur tryggt okkur og festa hann í sessi með því að gera hann að formi til að tvíhliða samningi. Það er stefna þessarar ríkisstjórnar og að því erum við að vinna eins og forsrh. vék að. En ég spyr, ef menn eru að spyrja um traust: Munið þið hvað leiðtogar stjórnarandstöðunnar sögðu um þennan samning á sinni tíð? Munið þið gerningaveðrið sem stóð hér yfir í mörg ár? Munið þið röksemdirnar um það að þetta mundi binda endi á íslenskt sjálfstæði? Munið þið röksemdirnar um að þetta mundi kollvarpa okkar íslensku þjóðfélagsskipun, færa allt vald, framkvæmdarvald, löggjafarvald og dómsvald úr landinu o.s.frv. og væri náttúrlega til einskis gagns að því er varðar íslenskt atvinnulíf?
    Nú er það svo að þessir hinir sömu menn sem svona töluðu og greiddu atkvæði á Alþingi Íslendinga segja: Þessi EES-samningur er haldreipi vort. Á þessu bjargi munum við byggja framhaldið. Hefur nokkur utanrrh., umdeildur að vísu, nokkurn tíma fengið jafnmikið traust frá leiðtogum stjórnarandstöðunnar eins og sá sem hér stendur?