Staða ríkisstjórnarinnar

5. fundur
Mánudaginn 10. október 1994, kl. 15:16:12 (137)


[15:16]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Eftir að hafa hlustað hér á ræðu hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh., þá spyr ég mig að því, í hvaða heimi lifa þessir menn? Hvers konar veruleikasýn er það sem þeir hafa þegar þeir lýsa ástandi mála eins og þeir gera? Annars vegar er hæstv. utanrrh. sem sér ekkert nema bjart fram undan og væri betra að satt væri og síðan hæstv. forsrh. sem bara segir: Aðrir gera það líka. Aðrir veita stöður pólitískt, þá er allt í lagi að gera það hér.
    Mig langar til að minna hæstv. utanrrh. á nýútkomna skýrslu Ríkisendurskoðunar sem sýnir þann tilflutning sem orðið hefur á fjármagni frá fyrirtækjum í landinu yfir á almenning. Ég vil minna hæstv. utanrrh. á það að það er vaxandi misskipting í okkar þjóðfélagi. Við höfum upplifað hér meira atvinnuleysi á undanförnum árum en við höfum áður séð. Við sjáum fátækt, við sjáum fólk sem þarf að leita til félagsmálastofnana, fólk sem getur ekki lifað á laununum sínum. Hvers konar stöðugleiki er þetta? Er þetta viðunandi stöðugleiki? Ég hef hitt margt fólk á undanförnum dögum og ég finn fyrir því og ég veit að það gildir um aðra líka að það er mjög vaxandi þrýstingur úti í þjóðfélaginu á það að hér verði breyting á, að fólk fái einhverjar kjarabætur. Þeir sem hafa tekið á sig aukna skatta og minnkandi kaupmátt, það fólk krefst þess að nú verði hér breyting á og þarf ekki annað en að minna á þing Alþýðusambands Austurlands um helgina þar sem greinilega heyrist harðari tónn en við höfum heyrt hingað til vegna þess að fólk er algjörlega að þrotum komið. Það er ekki hægt að ganga lengra og ég held að hæstv. utanrrh. ætti að fara og hlusta á þær raddir.
    Hann minntist líka í sinni afrekaskrá á raunsparnaðinn í heilbrrn. Þar hefur gjöldum verið velt yfir á almenning. Það er sama sagan. Gjöldunum hefur verið velt yfir á almenning og sveitarfélögin. Hann ætti líka að lesa nýútkomið fjárlagafrv. þar sem það er tekið fram hvað eftir annað að áformaður sparnaður í heilbrrn. hafi ekki náðst fram. Þar hafa menn gefist upp við sparnaðinn. Þannig að hann ætti að fara varlega í að fullyrða um þennan mikla árangur sem þessi ríkisstjórn á að hafa skilað.
    Mér fannst sú ræða sem hæstv. forsrh. flutti í upphafi þessarar umræðu vera mjög dæmigerð fyrir þá siðferðilegu kreppu sem við stöndum frammi fyrir í íslenskum stjórnmálum og risið hefur hvað hæst á undanförnum vikum í kringum mál hæstv. félmrh.
    Hæstv. forsrh. sagði í sinni ræðu að aðrir hefðu veitt stöður pólitískt og vitnaði til þess að það væri gert í öðrum löndum líka. Það er vissulega rétt að hér á landi höfum við búið við, því miður, það siðferði að menn hafa deilt út mjög mikilvægum stöðum til sinna flokksmanna og þarf ekki annað en að minna á Seðlabankann í því efni. En hjá öðrum þjóðum sem telja sig siðmenntaðar og hafa sterkt gildismat varðandi pólitískt siðferði gilda þær reglur, t.d. í Bandaríkjunum, að menn eru kallaðir fyrir af þingnefndum og það er kannað hvort þeir eru þess trausts verðir sem stjórnvöld vilja sýna þeim. Jafnvel þeir sem eru tilnefndir sem hæstaréttardómarar eru kallaðir fyrir og þeirra ferill kannaður. Þetta er auðvitað allt annar mælikvarði heldur en hér gildir þar sem búið er að úthluta stöðum fyrir fram. Það sem hér er að gerast er einfaldlega það og í ljós hefur komið í þessari umræðu að ríkisstjórnin og sá sem situr í forsæti hennar er að koma sér undan því að axla ábyrgð og taka á þeim siðferðilegu spurningum sem við stöndum hér frammi fyrir.
    Nú ætla ég ekki að fella dóm yfir hæstv. félmrh. og við erum að velta því fyrir okkur í þessari umræðu hvar landamærin eru milli þess sem siðlegt getur talist og þess sem misbýður siðferðiskennd almennings. Hvar liggja þessi mörk? Það er erfitt að skilgreina þau og þau geta verið mjög persónuleg, en það dugar ekki að gera það sem menn hafa gripið til hér hvað eftir annað að kalla á Ríkisendurskoðun. Þegar málefni Hrafns Gunnlaugssonar og reyndar hæstv. menntmrh. voru hér til umræðu og mér fannst það mál snúast fyrst og fremst um hæstv. menntmrh. og hans gjörðir, þá var því máli vísað til Ríkisendurskoðunar. Það snerist ekki um það hvort lög og reglur hefðu verið brotnar. Það snerist um embættaveitingar og gjörðir hæstv. menntmrh. Hið sama gildir hér, við erum að ræða um embættisverk hæstv. félmrh., sem reyndar hefur ekki fléttast inn í umræðuna hér. Við erum að tala um hans verk og það hvort þar hafi verið rétt að málum staðið. Ég efast um að hann hafi brotið nokkra einustu reglu eða lög. Ég efast um það. En hann hefur að mínum dómi farið yfir mörk hins siðlega.
    Nú skal ég viðurkenna það að ég var ekki á landinu meðan þessi mikla orrahríð stóð yfir en hef lesið um hana í blöðunum og mér fannst ógnvekjandi að lesa lýsinguna á þeim blaðamannafundi sem hæstv. félmrh. hélt og finnst augljóst af því sem þar kemur fram að hann hefði átt að segja af sér. Það hefði verið honum og okkar stjórnmálalífi fyrir bestu og ég harma að hann skyldi ekki gera það.
    Hér hafa hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. sýnt mikinn söknuð yfir því að ekki skuli hafa komið fram vantraust á ríkisstjórnina. Það er auðvelt að bæta úr því. Okkur í stjórnarandstöðunni fannst rétt að hér færi fyrst fram umræða á Alþingi um stöðu ríkisstjórnarinnar. Það væri eðlilegt að bera fram spurningar til hæstv. ráðherra áður en vantrauststillaga kæmi fram. Umræða um stöðu ríkisstjórnarinnar á ekki að fara eingöngu fram í fjölmiðlum, hún á að fara fram á Alþingi og það er Alþingis að skera úr um það hvort ríkisstjórnin nýtur trausts.
    Mig langar að koma aðeins inn á stöðu þessarar ríkisstjórnar vegna þess að þar er auðvitað margt fleira en þau vinnubrögð sem við höfum orðið vitni að á undanförnum vikum sem koma inn í. Þegar ég spyr mig hvað þessi stjórn ætlaði sér í upphafi þá var það ekki lítið. Það kom út stefnuyfirlýsing 30. apríl 1991 þar sem segir m.a. að markmið ríkisstjórnarinnar sé að rjúfa kyrrstöðu og auka verðmætasköpun í atvinnulífinu sem skili sér í bættum lífskjörum. Auk þess ætlaði þessi ríkisstjórn að standa að sáttargjörð um sanngjörn kjör --- sáttargjörð um sanngjörn kjör --- sem flestir eru búnir að gleyma.
    Þau efnahagslegu markmið sem þessi ríkisstjórn setti sér í upphafi hafa ekki náðst fram að ganga. Hún ætlaði sér að ná ríkishallanum niður á tveimur árum. Það hefur alls ekki gengið eftir og er þar ekki við ríkisstjórnina eina að sakast heldur einnig það umhverfi sem hún hefur átt við að glíma. Það gerðist líka í upphafi ferils þessarar ríkisstjórnar að hún tók að boða þar ýmis stefnuatriði sem alls ekki höfðu verið rædd í kosningabaráttunni, sem alls ekki voru þar til umræðu, eins og einkavæðing ríkisfyrirtækja, þjónustugjöldin sem velt hefur verið yfir á almenning. Það hafa þeir allt gert í umboðsleysi kjósenda. Þeirra stefna er meira og minna í umboðsleysi kjósenda. Hver er árangurinn? Árangurinn er sá að hér er meiri halli á ríkissjóði en nokkurn tímann hefur sést og á tíma þessarar ríkisstjórnar nemur hann tæplega 30 milljörðum króna. Sem betur fer hafa ýmis af stefnuatriðum ríkisstjórnarinnar eins og einkavæðingin runnið meira og minna út í sandinn og er fróðlegt að minnast þess að á fyrstu árum þessarar ríkisstjórnar ætlaði hún að selja fyrirtæki fyrir 1,5 milljarða en núna er sú tala komin niður í 100 millj. í fjárlagafrv. ársins 1995.
    Þá er vert að minnast á þær breytingar sem gerðar voru á Lánasjóði ísl. námsmanna og við eigum enn eftir að sjá afleiðingar þeirra breytinga.
    Ég minni líka á þann mikla óróa sem núv. heilbrrh. skapaði í heilbrigðiskerfinu vegna þeirra stöðugu upphlaupa sem voru í kringum hann, þar sem hann var stöðugt að skapa óvissu og glundroða og enginn vissi hvaðan á sig stóð veðrið í þeim handahófskennda niðurskurði og þeim sundurleitu tillögum sem hann lagði fram.
    Síðast en ekki síst hefur tímabil þessarar ríkisstjórnar einkennst mjög af innbyrðis átökum milli stjórnarflokkanna þar sem hnútur hafa gengið á milli. Er þar skemmst að minnast deilunnar miklu um landbúnaðarmálin sem geisaði allt sl. sumar og langt fram eftir hausti og nú það sem við höfum orðið vitni að í sumar með yfirlýsingum hæstv. utanrrh. varðandi Evrópusambandið þar sem hæstv. forsrh. hefur reynt að troða ofan í hann yfirlýsingunum aftur, hvað eftir annað.
    Þar við bætast svo þær stöðuveitingar sem einkennt hafa allt þetta tímabil og sem hafa að mínum dómi keyrt svo um þverbak að annað eins hefur ekki sést --- alla vega á lýðveldistímanum. Ég hygg að ef við færum í pólitískan samanburð þá hafi ekki ríkt annar eins órói og önnur eins vinnubrögð í íslenskum stjórnmálum síðan á dögum Jónasar frá Hriflu í kringum 1930. Menn hafa farið í gegnum þessarar stöðuveitingar og er óþarfi að vera að rifja það upp aftur, en það var reyndar allt fyrirséð fyrir tveimur árum að sú hringekja mundi fara af stað þar sem ýmsum æðstu stöðum okkar samfélags yrði úthlutað til háttsettra krata. Ekki vil ég fullyrða að þar séu eðalkratar á ferð.
    En síðast á þeim ferli eru svo mál hæstv. félmrh., Guðmundar Árna Stefánssonar, og þau endurspegla því miður þvílíkt dómgreindarleysi að það er sorglegt upp á að horfa. Ég vil þar taka sem dæmi það sem snertir hans aðstoðarmann. Nú vil ég taka það skýrt fram að hann hefur að sjálfsögðu rétt til þess að velja sér hvern þann aðstoðarmann sem hann vill og það gildir auðvitað um aðra ráðherra líka. Þar er um það að ræða að menn velji sér fólk til samstarfs sem hægt er að treysta. En að sá aðstoðarmaður skuli taka sæti í 12 nefndum og starfshópum, hvað sem fyrri aðstoðarmaður gerði, þetta eru þvílík fádæma vinnubrögð að maður skilur ekki að mönnum skuli detta svona lagað í hug. Hvernig á nokkur maður að geta sinnt svona starfi? Hvers konar starf fer þarna fram? Er það eðlilegt að aðstoðarmaður ráðherra sé stjórnarformaður stjórnar Ríkisspítalanna? Eru það einhver eðlileg vinnubrögð að menn setji sína helstu aðstoðarmenn sem stjórnarformenn í ríkisstofnunum? Ég er ekki sammála því og mér finnst að þarna hafi skort mjög á fagleg vinnubrögð ráðherrans. Og í ljósi alls þess sem Alþfl. hefur staðið fyrir og gert á þessu kjörtímabili þá verkar það hálf hjákátlega að hann skuli nú boða siðbót. En batnandi mönnum er best að lifa og ég held að þeir ættu í mikilli alvöru að fara í gegnum sín vinnubrögð og að skoða þann feril sem þeir hafa að baki ef þeir ætla sér að lifa af í íslenskum stjórnmálum.
    Að lokum, virðulegi forseti, þá eru það auðvitað allt alvarlegar spurningar sem við okkur blasa um hlutverk stjórnmálamanna og hvar hin siðferðilegu mörk liggja. Við megum ekki gleyma því að við sem hér erum innan dyra erum fulltrúar almennings í landinu. Okkur er falið að gæta almannahags og að fara með hluta þess valds sem skilgreint hefur verið sem ríkisvaldið og þess utan fer hér auðvitað fram hin almenna pólitíska umræða í þjóðfélaginu. Það sem þeir sem bjóða sig fram sem fulltrúar almennings í landinu eiga að gæta er auðvitað að standa vörð um almannahag og vera ekki að hygla sér og sínum. Þar liggja mörkin. Að spyrja um almannahag, að spyrja um fagmennsku, en vera ekki að hygla sér og sínum. Þær spurningar sem við glímum við hér verða ekki leystar með því að kalla til Ríkisendurskoðun, þær verða fyrst og fremst leystar með því að við horfum í eigin barm og viðurkennum að siðferðið kemur innan frá eins og presturinn sagði við setningu Alþingis og þar ber hverjum og einum að standa sig.