Staða ríkisstjórnarinnar

5. fundur
Mánudaginn 10. október 1994, kl. 16:03:52 (140)


[16:03]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Það var dálítið sérkennilegt að hlusta á hæstv. forsrh. að tala hér fyrr í dag. Sérstaklega var athyglisverð sjálfsánægjan sem birtist í máli hans og hæstv. utanrrh. Þeir eru fjarska sáttir greinilega við þessa stjórn og stöðu hennar. (Gripið fram í.) Og þeir telja, eins og hv. þm. bendir á, að þessi stjórn hafi náð gífurlegum árangri og í raun og veru vantaði bara eina yfirlýsingu í ræðu þeirra beggja, sömu yfirlýsinguna, en við heyrum hana væntanlega næstu daga. Það er yfirlýsingin um það að Sjálfstfl. og Alþfl. ætli í næstu kosningabaráttu að berjast fyrir því að þessir flokkar vinni saman í næstu ríkisstjórn. Það er útilokað að draga aðra ályktun af þeim umræðum sem hér hafa farið fram í dag en að Alþfl. leggi megináherslu á að vera í stjórn með Sjálfstfl. eftir næstu kosningar. Ég heyri ekki betur en Sjálfstfl. segi í rauninni það sama. Hann hafi náð svo miklum árangri og glæsilegum einkunnum í efnahagsmálum að hann hljóti að óska eftir þessu stjórnarsamstarfi áfram. Þetta eru alveg ótrúleg tíðindi en ber að þakka fyrir að þau skuli koma fram þegar í upphafi þings þannig að það sé hægt að haga hinni pólitísku baráttu eftir því á næstu vikum og mánuðum. Þessi stjórn ætlar að berjast fyrir meiri hluta áfram og það er sérstök ástæða til þess að óska vinstri armi Alþfl. til hamingju með þær yfirlýsingar sem heyrst hafa

úr þessum ræðustól í dag. Það er afar sérkennilegt að hlusta á þessar yfirlýsingar frá hæstv. ráðherrum líka með hliðsjón af því að núv. ríkisstjórn hefur verið að molna í sundur innan frá svo að segja allan tímann frá því að hún var mynduð. Eða hver er sú stjórn sem situr í dag? --- Hvar er iðnrh. og viðskrh. sem í upphafi lagði af stað með þessari stjórn og ætlaði að byggja álver með meiru? Hann er núna kominn í vinnu í útlöndum. --- Hvar er umhvrh. sem lagði af stað með þessari stjórn? Hann er kominn í vinnu í útlöndum. --- Hvar er formaður fjárln. sem lagði af stað með þessari stjórn? Hann er ekki kominn í vinnu í útlöndum, hann er kominn í vinnu innar á Laugaveginum. --- Og hvað er með hæstv. fyrrv. varaformann Alþfl. og félmrh.? Hvar er hún? ( Gripið fram í: Í fríi.) Hætt. Hefur yfirgefið þessa stjórn vegna þess að hún telur að það sé stórfelldur trúnaðarbrestur á milli forustumanna stjórnarinnar eins og fram kom hér áðan. Síðan bætist við að hæstv. núv. félmrh. verður fyrir stórfelldu hnjaski í opinberri umræðu sem að mínu mati styðst við rök að verulegu leyti og hefði verið skynsamlegra hans vegna og þingsins og allra aðila að hann hefði sagt af sér meðan hann leitaði skjóls annars staðar vegna þeirra ávirðinga sem á hann eru bornar. Þetta liggur fyrir og hvað gerist svo? Þegar formaður þingflokks Framsfl. hringir í hæstv. forsrh. þá segir forsrh.: Hvað? Í fyrsta sinn í sögunni gerist það að forsrh. er svo illa haldinn af klofningnum í sínu liði að hann biður formann þingflokks Framsfl. um að flytja á sig vantraust. Og lái nú hver sem er formanni þingflokks Framsfl. þó hann hafi a.m.k. dregið það við sig að játa þessari beiðni hæstv. forsrh.
    Það er alveg með ólíkindum að hlusta á þær ræður sem hér eru fluttar með hliðsjón af þeim veruleika sem hér blasir við. Forsrh. vildi fá vantrauststillögu. Til hvers? Til þess að safna saman sínu liði, til þess að fá tækifæri til að rjúfa þing og efna til kosninga ef hinir óþekku væru of margir en annars til að berja þá saman til hlýðni í allan vetur. Auðvitað gæti verið fróðlegt að kanna hvort hver einasti þingmaður Sjálfstfl. er tilbúinn til að skrifa t.d. upp á embættisverk hæstv. félmrh. eða hvort hver einasti þingmaður Alþfl. og Sjálfstfl. er tilbúinn til að skrifa upp á framlengingu lífs þessarar ríkisstjórnar til vorsins miðað við þá afrekaskrá sem fyrir liggur.
    Það var athyglisvert og alveg einstakt í stjórnmálasögu Íslands að það skyldi gerast að hæstv. forsrh. sá sérstaka ástæðu til þess í ræðu sinni að taka það fram, að vísu sem viðbragð við frammíkalli, að utanrrh. væri enn í ríkisstjórn hans. Ég hygg að þess séu fá dæmi að forsrh. hafi þurft að telja saman ráðherra sína með þeim hætti sem hann gerði áðan.
    Með hvað eru þeir ánægðir, þessir snillingar? Hvað er það sem gefur þeim rétt, möguleika, innri styrk --- liggur mér við að segja --- til að tala með því yfirlæti, steigurlæti, sem birtist í ræðum þeirra í dag? Það er batinn í efnahagsmálum. Það er hinn mikli árangur í efnahagsmálum sem þeir telja ástæðu til að hæla sér af. Hver hefur borgað batann í efnahagsmálum? Hver hefur borgað þann bata? Hverjir eru það í landinu? Það eru m.a. 3.500 einstaklingar sem í Reykjavík hafa lífsviðurværi sitt af Félagsmálastofnun einni. Það eru þeir einstaklingar. Fátæktin hefur haldið innreið sína á þúsundir heimila í sjálfu kjördæmi forsrh. Þeir sem hafa borgað batann eru m.a. hinir atvinnulausu en þeir hafa aldrei verið fleiri á Íslandi en í tíð núv. ríkisstjórnar og því er spáð, m.a. af þeim sem mætti gerst til þekkja, hæstv. fyrrv. félmrh., að atvinnuleysistölurnar muni hækka verulega á næsta ári frá því sem spáð er í fjárlagafrv.
    Það liggur líka fyrir að ýmsir þættir velferðarkerfisins hafi orðið fyrir stórfelldu hnjaski. Það eru sjúklingar sem þurfa að kaupa lyf sem hafa borgað batann. Það eru sjúklingar sem þurfa að leita til heilsugæslustöðvar sem hafa borgað batann sem þeir eru að hæla sér af í efnahagsmálum. Það er þetta fólk og það er líka menntakerfið þar sem staðan er þannig að raunniðurskurður framlaga til skóla á Íslandi, menntamála á Íslandi, er hver? Hann er 2.100 millj. kr. Heimildin er hver? Heimildin er fjárlagafrv. fyrir árið 1995. Ríkisstjórnin hælir sér af því að hún hafi verið að ná stórfelldum árangri m.a. með því að spara stórkostlega í heilbrigðiskerfinu. Staðreyndin er sú að þar hefur hún lagt hundruð milljónir króna á sjúklinga og aðra viðskiptamenn heilbrigðiskerfisins, hundruð millj. kr. ef ekki milljarða kr., a.m.k. tvo milljarða kr. miðað við þær tölur sem við röktum hér í umræðum um þessi mál á Alþingi í fyrra. En það liggur líka fyrir samkvæmt tölum Ríkisendurskoðunar, sem ég hef undir höndum, að heilbrrh., Sighvatur Björgvinsson, hefur engum árangri náð í að skera niður raunkostnað ríkisins í lyfjamálum. Það liggur fyrir samkvæmt tölum sem ég hef hér undir höndum frá Ríkisendurskoðun að raunkostnaður til lyfjamála á verðlagi ársins 1994 var 2,7 milljarðar 1991, 2,9 milljarðar 1992, 2,6 milljarðar 1993, en verður hver? 2,9 milljarðar 1994 og samkvæmt fjárlagafrv. verður þessi tala á árinu 1995 2,9 milljarðar líka. Þannig að frá því að núv. hæstv. heilbrrh. tók við störfum á árinu 1991 hefur lyfjareikningur ríkisins hækkað samtals um 600 millj. kr., hvorki meira né minna, sem er æðimikið önnur uppstilling en hann vill vera láta í sínum ræðum og hæstv. utanrrh. endurtók hér áðan. Auk þessa kostnaðar ríkisins upp á 600 millj. kr. er almenningur í landinu að borga meira fyrir lyf, meira fyrir læknisþjónustu en nokkru sinni fyrr. Það er þess vegna augljóst mál að hæstv. núv. heilbrrh. hefur farið fram af svo miklum bægslagangi í heilbrigðismálum að í raun og veru er heilbrigðiskerfið að því er lyfin varðar dýrara nú í rauntölum en þegar hann tók við 1991. Það er lítill árangur eftir allar ræðurnar, blaðamannafundina, skýrslurnar og belginginn, m.a. hér í þessum ræðustól.
    Er það kannski ástandið í heilbrigðismálum, t.d. í þjónustu við aldraða, sem veldur því að stjórnarflokkarnir eru svona ánægðir með sinn hlut? Eða er það t.d. að því er varðar aðbúnað atvinnualausra í landinu? Í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir því að skera niður kjör atvinnulausra þannig að kaup atvinnulausra

verði minna, lægra, verra á árinu 1995 en það er á árinu 1994. Eða er það kannski ástandið í húsnæðismálum sem veldur því að stjórnarflokkarnir eru svona sérstaklega ánægðir með sig þar sem gert er ráð fyrir því að á sama tíma og fjórða hvert húsbréf er í vanskilum að skera niður framlög til félagslega húsnæðiskerfisins í fjárlagafrv. fyrir árinu 1995 um sýnist mér um það bil 200 millj. kr.? Er þetta árangurinn? Atvinnuleysi meira en nokkru sinni fyrr. Biðlistar fátæktar hjá félagsmálastofnunum allt í kringum landið. Biðlistar eftir þjónustu aldraða. Dýrari heilbrigðisþjónusta á heilsugæslustöðvum og annars staðar en nokkru sinni fyrr. Verri þjónusta við atvinnulausa. Stórfellt vanskilaástand í húsnæðismálum. Er það þetta sem þessir flokkar ætla að vaða með núna út til kjósenda og segja: Við viljum áfram meiri hluta, einmitt við, þessir flokkar sem skiljum svona við þetta fólk, biðlista vonleysisins í öllum opinberum stofnunum á Íslandi. Þessir menn ættu ekki að hreykja sér af þessum árangri að mínu mati heldur að blygðast sín.
    Og síðan kemur, hæstv. forseti, umræðan um mál núv. hæstv. félmrh. Það er umræða sem væri ástæða til að fara mjög rækilega yfir hér. Ég ætla þó ekki að gera það heldur bendi á að það hefur verið flutt hér lítil tillaga um endurskoðun laga um ráðherraábyrgð þar sem ég tel að ástæða væri til að ræða mjög rækilega þau mál sem snúa að hæstv. félmrh. Staðreyndin er auðvitað bersýnilega sú að íslenska stjórnkerfið þarf á því að halda að menn fari yfir mér liggur við að segja siðrænar forsendur þess og allra embættisathafna hvar sem svo þær eru, á vegum hvaða flokks sem er og í hvaða ráðuneyti sem er. Ég get ekki neitað því að eftir að hafa setið hér í þessari stofnun um nokkurra ára skeið og eftir að hafa fylgst með þeirri umræðu sem fram hefur farið núna að undanförnu varðandi þær ávirðingar sem bornar eru á hæstv. félmrh. þá tel ég að full ástæða sé til þess fyrir Alþingi til að staldra við og velta því fyrir sér hvort ekki er unnt að setja reglur sem eru með þeim hætti að ráðherrar geti ekki misbeitt valdi sínu á einn eða annan hátt í skjóli nafnleyndar á bak við lokaða glugga og lokaðar dyr ráðuneytanna. Að vísu er það rétt, sem hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir benti á hér áðan, að í rauninni verða aldrei settar tæmandi reglur um mál af þessum toga því að það sem ræður úrslitum er auðvitað sá innri styrkur sem hver og einn hefur til að bera sem öðlast mikinn trúnað á Alþingi eða í ríkisstjórnum á hverjum tíma. En þessar umræður eru hrikalegar í raun og veru eins og þær hafa farið fram og ég tel þess vegna ástæðu til að draga þær inn í ræðu mína um stöðu ríkisstjórnarinnar því að þessi mál sem kölluð eru spillingarmál eru hvað sem öðru líður, hvort sem mönnum líkar betur eða verr, partur af þeirri mynd sem þjóðin hefur af núv. ríkisstjórn þó svo að forustumenn stjórnarflokkanna kjósi að reyna að setja þetta upp sem glansmynd eins og fram kom í ræðum formanna stjórnarflokkanna hér áðan þegar vantaði í rauninni bara hálft orð til þess að þeir lýstu því yfir að þeir ætli sér að berjast fyrir meiri hluta Sjálfstfl. og Alþfl. í næstu kosningum. Og ég segi, virðulegi forseti og með leyfi forseta: Guð og aðrar góðar vættir forði þjóðinni frá þeim ósköpum.