Staða ríkisstjórnarinnar

5. fundur
Mánudaginn 10. október 1994, kl. 16:29:52 (142)


[16:29]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Það var hressilegt að heyra kosningaræðu hv. seinasta ræðumanns sem greinilega er ekki mjög öruggur um langlífi þessarar ríkisstjórnar og deili ég því raunar með honum að það væri hið æskilegasta og heppilegasta. Ekki veit ég hvort sú var ástæðan eða að þarna væri bara um hreint raunsæi að ræða.
    Það hefur verið mjög sérkennileg umræða hér í dag þar sem hæstv. forsrh. og utanrrh. hafa báðir talað sérstaklega um þá beiðni sem þeir hafa lagt fram til ýmissa aðila um að leggja fram vantraust á þessa ríkisstjórn. Þetta hefur almennt verið túlkað sem svo að þetta yrði þá til að þjappa ríkisstjórninni saman. En það læðist að manni sá grunur að e.t.v. sé að minnsta kosti í huga hæstv. forsrh. um ákveðna óskhyggju að ræða þar sem hann og ýmsir flokksbræður hans gátu illa dulið vonbrigði sín þegar ekki kom til haustkosninga. Þeim er greinilega orðið mjög illa líft í þessari ríkisstjórn og það skyldi nú ekki vera að sú

von alla vega blundaði einhvers staðar baka til í huga þeirra. En þeir geta ekki vikið sér frá því sem hér er til umræðu í dag. Nú er boltinn hjá ríkisstjórninni og það er hennar og hennar einnar að taka á þeim málum. Þeim alvarlegu ásökunum sem fram hafa komið að undanförnu um það að ríkisstjórnin sé ekki vandanum vaxin sem hjá henni er, bæði í þeim málum sem hún hefur tekið að sér að koma áfram og einnig vegna sundurlyndis innbyrðis og vegna þess að vinnubrögðin eru orðin með þeim hætti að jafnvel blöskrar einum flokki hvað annar gerir og þá er mikið sagt því að samkeppnin er hörð á því sviði sem fjallar um ýmsar embættisákvarðanir sem eru vafasamar.
    Ef þetta er sem margir hér hafa ætlað í dag að hæstv. forsrh. eigi illt með að þola þá umræðu sem hefur verið og vilji þess vegna fara að fá vantrauststillögu þá er það út af fyrir sig skiljanlegt því þessi umræða er ekki bara brýn og þörf hún er jafnframt slíkur áfellisdómur um ríkisstjórnina að stuðningsmönnum hennar fer fækkandi. Þegar allt var að lappast í rétta átt hjá þessari hæstv. ríkisstjórn í skoðanakönnunum og stuðningurinn rétt að koma þar sem kosningar nálguðust nú í sumar að ýmissa mati þá er hún nú óðum að glata fylgi sínu aftur og stefnir í enn verra ef ekkert verður að gert. Kvennalistinn hefur tekið af skarið og bent á það að dugi ekki annað þá muni Kvennalistinn --- að sjálfsögðu í samráði því sem heppilegt væri við aðra stjórnarandstöðuflokka --- vera reiðubúinn til að flytja vantraust á ríkisstjórnina en auðvitað á ríkisstjórnin sjálf fyrst og fremst að taka á þessum málum. Það að stjórnarandstaðan flytji vantraust er úrræði sem á ekki að þurfa að grípa til ef ríkisstjórn er vanda sínum vaxin. En mér sýnist nú á þeim umræðum sem hafa verið hér í dag að ríkisstjórnin sýni ekkert fararsnið og þá vitna ég í tillögur eða ályktun sem kom frá þingflokki Kvennalistans þann 28. sept. sl. þar sem sérstaklega er talað um að ríkisstjórnin sé vanhæf taki hún ekki á sínum vanda og þingflokkur Kvennalistans muni leggja fram vantraust á hana á þingi ef hún taki ekki á málunum. Um það erum við að fjalla í dag. Þetta er síðasti möguleiki ríkisstjórnarinnar til að taka sjálf á sínum vanda.
    Það sem þingkonur Kvennalistans eru einkum að gagnrýna, þó af nógu sé að taka, er að margoft hefur verið ástæða til að gagnrýna störf einstakra ráðherra og ríkisstjórnarinnar allrar og tækifærin hafa því miður verið allt of mörg og allt of veigamikil til að undan því hafi verið vikist. Allir ráðherrar meira og minna, ríkisstjórnar Alþfl. og Sjálfstfl., bera ábyrgð á þessu og hafa flestir ítrekað gert sig seka um vafasamar embættisfærslur og stöðuveitingar og þetta hefur verið rakið hér bæði í þessari umræðu í dag og fjölmiðlunum að undanförnu. Skorti menn eitthvað á að dæmi séu hér nefnd þá er velkomið að koma hér upp aftur en ég vil fyrst og fremst ræða þetta prinsippatriði því ég vil ekki vera að gera upp á milli þeirra atriða sem ég tel vera ámælisverð hér vegna þess einfaldlega að þá gæti verið á einn hallað þegar ástæða væri til að halla á annan frekar. En vilji menn fleiri dæmi en þau sem hér hafa birst í umræðunni og í fjölmiðlum þá er það að sjálfsögðu velkomið.
    Ég vil líka taka fram það sem við þingkonur Kvennalistans höfum orðið að ítreka hvað eftir annað og það er að það þarf að fara mjög á saumana á því hvernig fjárframlögum til stjórnmálaflokka er háttað. Ég vil vekja athygli á því að á síðasta þingi þá lögðum við kvennalistakonur fram tillögu með 1. flm. Jónu Valgerði Kristjánsdóttur, þingflokksformann okkar, um að það yrði sett löggjöf um fjárframlög til stjórnmálaflokka. Og í greinargerð með þessari tillögu sem síðan hefur verið endurflutt nú á þessu þingi og er að finna á þskj. 46, 46. mál, þá segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Síðustu missirin hefur komið fram hörð gagnrýni á það valdakerfi sem íslenska þjóðin býr við. Stjórnmálaflokkarnir eru þar ekki undanskildir og hefur gagnrýnin ekki síst beinst að því að um þá gilda ekki nein skýr lög eða reglur, hvorki varðandi fjárreiður né annað, og má m.a. minnast á áskorun átta háskólakennara frá 15. september 1993 sem birt er sem fylgiskjal með tillögunni. Þar sem stjórnmálaflokkar og samtök eru tæki almennings til að hafa áhrif á stjórnkerfið er nauðsynlegt að eyða allri tortryggni um óeðlileg fjárhagsleg hagsmunatengsl flokkanna við fjársterk fyrirtæki eða hagsmunasamtök.``
    Ég held að það sé full ástæða til að halda þessu einnig til haga í þeirri umræðu sem núna er í gangi og fjallar m.a. um það hver vinnubrögð hafa verið og hvers við eigum að vænta af okkar stjórnmálamönnum. Þetta er í rauninni mál sem er svo alvarlegt að það eitt út af fyrir sig dygði algerlega til þess að við ættum þá kröfu á þá ríkisstjórn sem nú situr að hún viki hið snarasta. Bara með því að líta á þessi afglöp í embættisfærslum höfum við nógu veigamikla ástæðu til þess að það er krafa um að ríkisstjórnin fari frá.
    Það hefur verið fjallað töluvert um siðvæðingu stjórnmála og meira að segja eru ótrúlegustu flokkar farnir að taka þátt í þeirri umræðu og boða aðgerðir. Við bíðum og vonum að batnandi mönnum sé best að lifa. Auk þessa stöndum við frammi fyrir því að hér er sundurlyndi þessarar ríkisstjórnar með slíkum eindæmum og verklagið svo óskaplegt að það yrði einnig full ástæða til þess að þessi ríkisstjórn viki. Sambúð þeira Viðeyjarbræðra má líkja við löngu útbrunnið hjónaband, samband sem er dautt úr öllum æðum og spurningin er: Hvers vegna er því haldið saman? Er það barnanna vegna? Nei, landsins börn eru löngu búin að fá sig fullsödd af aðgerðum ríkisstjórnarinnar og eiga sér ekki aðra ósk heitari en að upp úr þessu óheillasambandi slitni hið fyrsta. Ósamlyndið birtist í ýmsum myndum. Forsrh. treystir ekki utanrrh. og fyrir hverju treystir hann honum ekki? Utanríkismálum. Og hér ætla ég eins og fleiri að vísa í það útvarpsviðtal sem málshefjandi, hv. 1. þm. Austurl., gerði að umtalsefni í sinni ræðu. En það viðtal er frá 25. síðasta mánaðar. Lýsing hæstv. utanrrh. eða dómur hans um ríkisstjórnina er sá að hún hafi haldið út. Þetta er nú ekki beinlínis hægt að segja að séu mikil meðmæli með ríkisstjórninni en þetta eru hans óbreyttu orð

nú í umræðunni.
    Spurningin er hvers vegna ættu börnin, landsins börn, að vilja að þessari ríkisstjórn yrði haldið saman? Varla er það vegna vanefndra loforða um hækkun skattleysismarka. Það er nú varla að slíkt réttlæti áframhaldandi setu ríkisstjórnarinnar. En hér hefur komið fram í umræðunni að skattleysismörk ættu að vera komin upp í 71 þús. en eru í um 57 þús. kr. Ég tek það fram að það var nú ekki einasta að þeir flokkar sem nú standa að ríkisstjórninni hafi lofað óbreyttum skattleysismörkum heldur ætluðu þeir nú að gera gott betur og bæta hag fólks með því að hækka þessi skattleysismörk.
    Haldið er áfram skattlagningu á lágtekjufólk af fullum þunga bæði með þessum hætti og einnig með auknum þjónustugjöldum og þetta er gert í stað þess að nýta þau úrræði sem eru fyrir hendi eins og t.d. að halda áfram hátekjuskatti eða setja á fjármagnstekjuskatt. Varla eru það loftfimleikarnir með vextina sem ríkisstjórnin snarhækkaði í upphafi ferils síns sem valda því að landsins börn vilji að þessi ríkisstjórn haldi áfram, þau vilja það einfaldlega ekki og þau tengja það að sjálfsögðu aðgerðum ríkisstjórnarinnar hvernig komið er hér á þúsundum heimila sem eru að sligast undan vaxtabyrðinni sem safnast hefur upp á ríkisstjórnartíma þessarar ríkisstjórnar. Varðandi þann sparnað í heilbrigðiskerfinu sem hæstv. utanrrh. m.a. tíundaði að það hefði ekki bitnað á notendum heilbrigðisþjónustu þá einfaldlega spyr ég eins og fleiri hér: Hvar lifir þessi maður? Ég veit að hann hefur verið mikið erlendis og má vera að það sé þess vegna sem raunveruleikaskynið er með þessum hætti en ég held að það sé nóg að hlusta á hvað fólk segir sem þarf að nota þessa þjónustu, þarf að greiða meira fyrir sín lyf, þarf að greiða meira fyrir læknisþjónustu og á nú að fara að greiða fyrir það líka að bregða sér á spítala í bráðnauðsynlegar aðgerðir. En það er sá boðskapur sem lesa má út úr því fjárlagafrv. sem hér verður væntanlega tekið fyrir á morgun að óbreyttu.
    Þetta eru aðeins nokkur dæmi af því sem blasir við. Hér eru komnir tveir stórir málaflokkar sem eru þess eðlis að ég skil ekki hvers vegna hæstv. ríkisstjórn lætur sér detta í huga að sitja áfram. Það er í fyrsta lagi stefna hennar og í öðru lagi vinnubrögðin. Ég held að ég láti það eftir mér hér fyrst ég á örlítinn tíma eftir að vitna í erindi Vilhjálms Árnasonar heimspekings á siðvæðingarfundi svokölluðum sem Félag frjálslyndra jafnaðarmanna hélt á Hótel Sögu þann 22. sept. sl., ekki síst vegna þeirra ummæla sem hafa verið hér um mismunandi áherslur hæstv. utanrrh. og hæstv. forsrh. um inngöngu í Evrópusambandið og ég held að það skýri sig að nokkru leyti sjálft hver tengingin er. En sé hér á landi hætta að stjórnmálamenn og embættismenn losni úr tengslum við umbjóðendur sína þá held ég að sú hætta sé enn meiri innan þess stóra batterís sem Evrópusambandið er alla vega eins og það lítur út hér og nú. Í þessu erindi sagði Vilhjálmur, með leyfi hæstv. forseta, m.a.:
    ,,Vegna þessa virðingarleysis stjórnmálamanna gagnvart umbjóðendum sínum hefur almenningur almennt glatað virðingu sinni fyrir fulltrúum sínum og pólitískur doði hefur sest að í hugum margra í lýðræðisríkjum samtímans. Það er alvarlegt áhyggjuefni því þar með dæmir hinn eiginlegi valdhafi, lýðurinn, sjálfan sig úr leik. Enn er aukið á þessa firringu stjórnmálanna frá almenningi með síauknu valdi sérfróðra ráðunauta og sérfræðinga í stjórnkerfinu. Þeir gefa afdrifaríkum pólitískum ákvörðunum tæknilegt yfirbragð því úrlausnarefnin eru sögð vera á valdi sérfræðinganna einna. Þessi tæknivæðing stjórnmálanna á stóran þátt í því að útiloka almenna pólitíska umræðu.``
    Þetta er einmitt kjarninn í einni höfuðgagnrýninni sem komið hefur á Evrópusambandið og þetta er tekið með sem hluti af umræðu um siðvæðingu í pólitík. En í lokin þá vil ég koma aðeins framar í þetta erindi þar sem komið er að ástandinu hér á landi. Þar segir Vilhjálmur, með leyfi forseta:
    ,,Hin afleiðingin á afsiðun stjórnmálanna í þessum víða skilningi er að þau eru að verða vettvangur tiltölulega þröngs hóps atvinnustjórnmálamanna og stjórnmálaflokkanna sem leitast við að tryggja eigin afkomu og völd. Um þetta segir í hinni ágætu bók, Uppreisn frá miðju: Hagur flokksins er settur ofar þjóðarhag, tillitið til flokksins vegur þyngra en rökstudd sannfæring og tillit til kjósenda kemur einna ljósast fram í óttanum við atkvæðatap.``