Staða ríkisstjórnarinnar

5. fundur
Mánudaginn 10. október 1994, kl. 17:01:05 (144)


[17:01]
     Jón Kristjánsson :
    Virðulegi forseti. Það er ekki langt síðan hæstv. forsrh. stóð í þeim sporum að hann hugðist boða til kosninga 1. okt. í stað þess að kalla saman þing á þeim tíma. Þetta var svo þroskuð ákvörðun orðin að mér er alveg fullkunnugt um það að þingmenn Sjálfstfl. töldu það víst að af þessu yrði og voru búnir að gera sínar ráðstafanir í samræmi við það. Ég fullyrði það að af hálfu Sjálfstfl. var þetta ákveðið. Ástæðurnar voru taldar að páskarnir væru ekki á réttum tíma á dagatalinu, það yrði vont veður í vetur og erfitt að kjósa. En ástæðurnar hafa áreiðanlega ekki verið af þessum toga í raun. Ástæðurnar voru þær að þetta stjórnarsamstarf var í uppnámi. Ég er sannfærður um að einhverjir aðilar hafa gengið í það að berja það

saman þannig að það var hætt við þessa ákvörðun. Það var hætt við hana einfaldlega vegna þess að Sjálfstfl. vildi ekki klippa á þann möguleika að hafa Alþfl. með áfram í ríkisstjórn eftir kosningar.
    Það er alveg ljóst að þetta liggur fyrir og því auðsærri er því ábyrgð Sjálfstfl. á Alþfl. Ég segi þetta vegna þess að hv. þm. Sjálfstfl. er það gjarnt að berja sér á brjóst og telja sig ekki bera neina ábyrgð á ýmsum siðspillingarmálum í hópi Alþfl. En auðvitað bera þeir ásamt ráðherrum Sjálfstfl. í ríkisstjórninni fulla ábyrgð á því öllu saman. Síðan kemur hæstv. forsrh. hér upp og undrast að það skuli vera beðið um umræður um stöðu ríkisstjórnarinnar og telur að það hafi farið fram umræður um stefnuræðu forsrh. fyrir viku síðan og það sé alveg nóg í þessu sambandi. Stefnuræða er flutt samkvæmt þingsköpum og útbýtt fyrir fram og umræðan snýst um hana. Það er í ákveðnum farvegi og skoðanaskipti eru ekki möguleg um þá stefnuræðu frá okkur almennum þingmönnum.
    Hins vegar tek ég eftir því að eini stjórnarliðinn sem hefur haft kjark til þess að taka þátt í þessari umræðu fyrir utan þá ráðherra sem hér hafa komið upp er hv. 4. þm. Vesturl., Gísli Einarsson. Þingmenn Sjálfstfl. kjósa að þegja þunnu hljóði í þessari umræðu. Það er eðlilegt því þeir óttast að tala af sér. Þeir óttast að það verði á skjön við ræðu hæstv. forsrh. sem talar af mikilli bjartsýni og segir að þó að hann lýsi vantrausti á utanrrh. í ræðu hjá ungum sjálfstæðismönnum út af Evrópumálum þá sé það allt í lagi. Það sé allt í þessu fína lagi, málið sé ekki á dagskrá fyrr en um aldamót og menn geti haldið áfram að rífast þangað til innbyrðis um þetta mál og lýsa vantrausti hver á annan. Ég vona reyndar að hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. verði ekki saman í ríkisstjórn um aldamótin. Ég vona að komið verði í veg fyrir það í vor þegar kosið verður en það gæti verið vilji til þess þrátt fyrir allt þetta tal. Auðvitað verða Evrópumálin á dagskrá. Þau verða á dagskrá eftir nokkrar vikur eftir þjóðaratkvæðagreiðslurnar á Norðurlöndum. Það er alveg ótrúlegt að það breytist ekki neitt eftir niðurstöður af þeim atkvæðagreiðslum.
    Vont er að hlusta á yfirlýsingar ráðherranna innan lands og þær vekja ekki mikið traust en það versta er að misvísandi afstaða íslenskra ráðamanna veikir traust erlendis á íslensku ríkisstjórninni og á íslensku stjórnarfari yfirleitt þegar hæstv. ráðherrar koma fram klofnir í hverju málinu á eftir öðru til stórmála á erlendum vettvangi. Þess vegna er m.a. beðið um þessa umræðu um stöðu ríkisstjórnarinnar Þess vegna viljum við stjórnarandstæðingar fá yfirlýsingar um það hvort ríkisstjórnin ætli virkilega að sitja áfram í vetur. Sú yfirlýsing er komin. Hún ætlar að gera það samkvæmt yfirlýsingu hæstv. forsrh. á þeim forsendum að allt sé í fínu lagi fyrir hæstv. ráðherra í ríkisstjórninni að rífast innbyrðis í allan vetur, fara í kosningabuxur þegar þeir koma á fundi út um land og í kjördæmum sínum og lýsa vantrausti hver á annan. Þetta er satt að segja ekki til þess fallið að auka tiltrú á stjórnmálum eða stjórnmálamönnum yfirleitt. Það sem er kannski verst er að auðvitað gengur þetta út yfir alla og almenningur er forundrandi á því hvernig þessi mál ganga til. (Gripið fram í). Síðan er sagt að allt sé í fína lagi, hagvöxtur verði upp á 1,4% á næsta ári og stjórnarstefnan hafi skilað miklum árangri, svo miklum árangri að hæstv. forsrh. sagði áðan í ræðu sinni að engin ríkisstjórn hefði náð slíkum árangri í sögunni miðað við þær aðstæður sem við hefði verið að glíma. En hver skyldi raunveruleikinn vera í sambandi við þessasr góðu horfur? Ég neita því alls ekki að ýmsir hlutir eru jákvæðir í efnahagsmálum. Hins vegar komu fulltrúar Þjóðhagsstofnunar í morgun á fund fjárln. til að ræða þjóðhagsáætlunina. Í morgun var haldinn fundur í nefndinni og þar sögðu fulltrúar Þjóðhagsstofnunar að spáin væri bundin fleiri óvissuþáttum en nokkru sinni fyrr. Þetta er sú mynd sem við blasir þó að hæstv. forsrh. kjósi að tala svona.
    Síðan er leiknum haldið áfram með því að setja fjárlagadæmið þannig upp að nú eigi að brjóta blað, nú eigi ekki að setja upp svokölluð kosningafjárlög og óhætt sé að skera niður útgjöld til opinberra framkvæmda um einn fjórða því atvinnulífið sé svo vel statt að það muni taka við þeirri fjárfestingu. Skyldi atvinnulífið í landinu vera svo vel statt að það taki við þar sem ríkisvaldið sleppir af hendinni? Ég stórefa það svo ekki sé meira sagt að hægt sé að halda uppi atvinnustiginu og halda atvinnuleysinu um 5% með þessu sem nú liggur fyrir í fjárlögunum og með þessum horfum í atvinnulífinu. Hæstv. forsrh. orðaði það svo að atvinnuleysi hefði verið miklu minna en spáð var. Staðreyndin er sú að atvinnuleysi í þjóðfélaginu er 5%. Ég hefði orðað það þannig að atvinnuleysi hefði þrefaldast á kjörtímabilinu. Það má segja hlutina á misjafnan hátt og ég held því fram að við eigum ekki að sætta okkur við þessa stöðu mála og útilokað sé að sætta sig við slíkt atvinnustig.
    Ég sagði áðan að ríkisstjórnin væri í uppnámi en það er greinilega ákvörðun formanna stjórnarflokkanna þrátt fyrir allt að halda henni saman í vetur. Það er ekki einungis svo að einn fyrrv. ráðherra í ríkisstjórn sé stunginn af sökum ágreinings við ríkisstjórnina og búin að kljúfa annan stjórnarflokkinn heldur er það alveg ljóst að sá hluti Alþfl. sem eftir er gengur ekki í takt. Þrátt fyrir að þetta sé svo hafa hæstv. ráðherrar og þingmenn Sjálfstfl. tekið þá ákvörðun að sitja, þegja þunnu hljóði, samþykkja með þögninni við þessa umræðu að halda þessari ríkisstjórn saman. Hins vegar þegar þeir koma út í kjördæmi sín í prófkjörsslaginn og á aðra fundi, sem tilheyra þeirra pólitíska starfi, eru þeir tilbúnir til þess að sverja þennan samstarfsflokk sinn af sér og telja sig enga ábyrgð bera á gerðum hans. Gerðu þeir það þá blasir það við að ráðherrar þeirra eru síður en svo saklausir heldur af ýmsum embættaveitingum ef svo má að orði komast. En þetta stjórnarfar kann ekki góðri lukku að stýra og títtnefnd yfirlýsing hæstv. forsrh. um að utanrrh. væri ekki treystandi til þess að fara með samninga fyrir íslands hönd hefur auðvitað algera sérstöðu í ljósi þess að um er að ræða forsrh. og utanrrh. og formenn stjórnarflokkanna sem halda ríkisstjórninni saman.

    Ég hélt að það væri hlutverk hæstv. forsrh. að vera mannasættir og bera klæði á vopnin í þeirri ríkisstjórn sem hann stjórnar á hverjum tíma. Þetta er alveg nýtt í íslenskum stjórnmálum og ég er viss um að þetta dregur úr trausti almennings á stjórnmálamönnum almennt og það lýsir bæði lélegri dómgreind og vissu kæruleysi að sitja áfram við þessar aðstæður.