Staða ríkisstjórnarinnar

5. fundur
Mánudaginn 10. október 1994, kl. 17:16:23 (145)


[17:16]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) :
    Virðulegi forseti. Stjórnarandstaðan hóf þessar umræður í dag með því að hafa miklar áhyggjur af heilsufari ríkisstjórnarinnar. Ég hygg að sú umræða, sem hefur farið fram í dag, geti a.m.k. leitt til þess að hv. stjórnarandstæðingar geti gengið rólegir til hvílu í kvöld vegna þess að það sem hefur komið fram í dag er nákvæmlega það að ríkisstjórnin er við bærilega heilsu.
    Hv. þm. Jón Kristjánsson hélt rétt áðan skörulega ræðu að vanda og hann hafði áhyggjur af Alþfl. eins og reyndar fleiri framsóknarmenn sem hafa talað í dag. Hann hafði miklar áhyggjur af því að Alþfl. gengi ekki í takt. Nú er það svo, virðulegi forseti, að mér sýnist ekki á yfirlýsingum sem fram hafa komið hjá forustumönnum Framsfl. fyrrv. og núv. að sá flokkur stundi beinlínis samræmt göngulag fornt.
    Virðulegi forseti. Ég vísa til þeirra ummæla sem hv. þm. Páll Pétursson hafði í tilefni af því að hann fór úr stöðu sem formaður þingflokks Framsfl. og sagði aðspurður í ljósvakamiðli að það væri vegna þess að hann nyti ekki lengur trausts hins nýja formanns Framsfl. Ég spyr, virðulegi forseti: Er þetta ekki að kasta grjóti úr glerhúsi? Er ekki fullmikið hjá hv. þm. Jóni Kristjánssyni að tala um að Alþfl. gangi ekki í takt þegar hv. þm. Framsfl., forustumenn núverandi og fyrrverandi, tala ekki einu sinni í takt?
    Hv. þm. Halldór Ásgrímsson hafði áhyggjur af velferð Alþfl. og ég þakka honum fyrir það. Alþýðuflokksmenn gleyma því ekki að það var sama höndin sem skrifaði stefnuskrá flokkanna beggja, Alþfl. og Framsfl., þannig að hv. þm. er einungis að halda fram hefð formanna Framsfl. sem gjarnan hafa viljað Alþfl. vel. En ástæðan fyrir því að hv. þm. Halldór Ásgrímsson hafði svolitlar áhyggjur af Alþfl. var gengi flokksins í skoðanakönnunum. Þá er í fyrsta lagi athyglisvert, virðulegi forseti, að eftir að fyrrv. hæstv. félmrh. fór úr Alþfl. reyndist einn flokkur sem ekki hefur goldið þess í skoðanakönnunum og hefur farið upp í skoðanakönnunum og það er Alþfl.
    Lítum hins vegar á þann flokk sem hv. þm. Halldór Ásgrímsson leiðir og athugum heilsufar hans. Hvernig hefur þeim flokki farnast á þeim mælikvarða sem hv. þm. Halldór Ásgrímsson leggur á flokk minn í skoðanakönnunum? Við skulum t.d. staðnæmast við þann punkt þegar hv. þm. varð formaður Framsfl. Hann tók við flokki sem stóð vel í skoðanakönnunum, 26--27%. Ég spyr, virðulegi forseti: Hvað hefur síðan gerst í Framsfl.? Það er eitt áberandi. Hann hefur farið niður í skoðanakönnunum. Fylgi Framsfl. mælist núna í 18--19%. Ég verð að segja það, virðulegi forseti, með vísan til sameiginlegrar fortíðar þessara tveggja flokka að ég hef nokkrar áhyggjur af Framsfl. Ég verð að segja það.
    Raunar er það svo að í máli sumra stjórnarandstæðinga hefur umræðunni eiginlega alveg verið snúið á hvolf. Hv. þm. Svavar Gestsson snerist þannig við ummælum hæstv. forsrh. að ekki væri hægt að skilja annað á mæli hv. þm. Svavars Gestssonar en að frýjunarorð hæstv. forsrh. fyrr í dag í garð stjórnarandstöðunnar væru ekkert annað en úthugsað plott til að kalla fram vantraust til þess að ráðherra gæti náð fram skikki í sínu eigin liði.(Gripið fram í). Þetta er ótrúlegur málflutningur en hins vegar er það svo, hv. þm. Svavar Gestsson að sumir hafa meiri hæfileika en aðrir til þess að láta hlutina standa á haus og komast upp með það.
    En veltum nú fyrir okkur, eftir hverju gengur stjórnarsamstarf? Stjórnarsamstarf gengur auðvitað eftir lögmálum málamiðlana. Þegar flokkar ganga til samstarfs í ríkisstjórn liggur auðvitað fyrir í upphafi að þeir starfa ekki á grundvelli sömu stefnu. Þá væri ekki um tvo eða fleiri flokka að ræða heldur einn og sama flokkinn. Þess vegna er það auðvitað eðlilegasti hlutur í heimi að stundum sé skoðanamunur sem jafnvel geti blossað í einstaka málum upp í hreinan skoðanaágreining innan ríkisstjórnar. Ég tel að það sé frekar dæmi um gott heilsufar ríkisstjórnar sem hefur nægilega sterk bein til að geta stundum tekist á um mál innbyrðis. Það er alveg ljóst eins og um þau mál sem varða Evrópusambandið, svo að maður tali hreinskilnislega, að Sjálfstfl. og Alþfl. hafa mismunandi skoðanir þar og það er líka alveg ljóst að þetta er mál sem er í vaxandi mæli að færast inn á dagskrá stjórnmálanna. Minn ágæti formaður, hæstv. utanrrh., telur að það verði með fyrra fallinu. Hæstv. forsrh. telur að það verði ekki fyrr en undir aldamótin og hvað með það? Er eitthvað skrýtið þó að menn hafi mismunandi skoðanir? Er það nægilegt til þess að menn telji að stjórnin sé í upplausn og sé að falla? Lítum á ástandið til að mynda innan sumra stjórnarandstöðuflokkanna og hugsum okkur að einhver þeirra væri í ríkisstjórn. Tökum t.d. Alþb. Þar er ágætur þingmaður, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, sem hefur lýst því yfir að hann vilji gefa kost á sér sem formaður Alþb. og ekkert óeðlilegt við það. Hverju svaraði því hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, formaður Alþb.? Hann svaraði efnislega með þeim frýjunarorðum að hann væri viss um að varaformaður Alþb. rynni á rassinn með þetta eins og í fyrrasumar. Hugsum okkur að Alþb. væri í ríkisstjórn núna. Mundu þá þessi ummæli milli tveggja forustumanna Alþb. gera það að verkum að sjálfgefið væri að stjórnarandstaðan ryki upp og kæmi með vantraust? Að sjálfsögðu ekki. En hitt er auðvitað umhugsunarefni að stjórnarandstaðan hefur ekki komið fram með vantrauststillögu. Hv. þm. Anna Ólafsdóttir Björnsson orðaði það svo í ræðu sinni fyrr í dag, það var ekki hægt að skilja hana öðruvísi en svo, að einn tiltekinn flokkur stjórnarandstöðunnar, Kvennalistinn, væri að hugsa um það. Eins og hv. þm. orðaði það: í dag væri síðasti möguleiki ríkisstjórnarinnar til þess að taka sjálf á málunum. Að því loknu? Þá ætlaði stjórnarandstaðan, sem er búin að sýna sig ærið sundurleita í dag, að taka til sinna ráða og við höfum aldeilis séð blóðið í stjórnarandstöðunni í dag. Umræðan hefur verið tímaeyðsla og ekkert annað.
    Þegar menn ræða um stöðu ríkisstjórnar og telja að hún sé veik þá hljóta þeir að dæma hana á þeim kvarða sem hún hefur sjálf lagt, kvarða verka hennar. Ríkisstjórnin hóf feril sinn með yfirlýsingar um ákveðna hluti. Hún ætlaði að koma á stöðugleika. Ég verð að segja, ágætu þingmenn, að hefði henni mistekist það væri ærin ástæða fyrir ykkur til að eyða tíma þingsins til þess að ræða stöðu ríkisstjórnarinnar og jafnvel að leggja fram vantrauststillögu.
    Hvernig hefur henni tekist að koma á þeim stöðugleika? Ég hef fyrir framan mig fréttatilkynningu sem gefin er út í dag af Hagstofunni. Hún er um þróun vísitölu framfærslukostnaðar. Hvað kemur þar fram? Þar kemur fram að vísitölur framfærslukostnaðar, vöru og þjónustu, voru í októbermánuði óbreyttar frá sama tíma og í fyrra. Með öðrum orðum, undanfarna 12 mánuði hefur ekki mælst nokkur einasta verðbólga á Íslandi. Að sjálfsögðu er þetta stöðugleiki. Verðbólgan á Íslandi mælist nú lægst af öllum þeim löndum sem tilheyra Evrópska efnahagssvæðinu. Er það ekki árangur? Vitaskuld er það árangur. Þannig mætti lengi telja. Fyrst við erum að tala um verðbólguna --- hvernig var hún hér áður? Hún var stjórnlaus allan síðasta áratug. Muna hv. þm. Alþb. upphaf síðasta áratugar þegar þeir voru í ríkisstjórn þegar verðbólgan mældist á einum tíma langt á annað hundrað prósent, þegar hv. þingmenn Alþb. neyddust til þess að brjóta kjarasamninga nokkrum sinnum einmitt vegna þess að verðbólgan fór eldi um þá ríkisstjórn? Allan síðasta áratug var verðbólgan að meðaltali á ársgrundvelli 33% og í dag, nákvæmlega í dag er hún 0%. Halda menn að þetta gerist af sjálfu sér? Halda menn að hlutirnir detti svona niður af himni? Að sjálfsögðu ekki. Þetta er auðvitað svona vegna þess, virðulegi forseti, að þrátt fyrir allt sem stjórnarandstaðan talar um innbyrðiságreining ríkisstjórnarinnar hefur hún eigi að síður það sterk bein að þrátt fyrir ágjöf, þrátt fyrir erfið ytri skilyrði, þrátt fyrir þorskbrest, hefur hún ekki látið hrekjast af leið. Hún hefur haldið fast við þau stefnumið sem hún setti sér og þetta er árangurinn, 0% verðbólga.
    Þegar ríkisstjórnin tók við lagði stjórnarandstaðan á hana mælikvarða og sagði: Ef ekki tekst að hemja og lækka vextina er þessi ríkisstjórn dauð. Ég man ekki betur en hæstv. forsrh. hafi einhvern tímann í ræðu tekið undir þetta sjónarmið, þ.e. hafi sagt að það væri mælikvarði á getu og líf ríkisstjórnarinnar hvort henni tækist að hemja vexti. Hvað gerði ríkisstjórnin? Hún óð ekki í það eins og fíll í glervörubúð. Hún skapaði umhverfi og þegar umhverfið var rétt greip hún til snaggaralegra ráðstafana sem leiddu til þess að vextir lækkuðu um 2%. Hvað þýðir það? 1.500 millj. fyrir atvinnulífið í landinu. Nú er líka alveg ljóst, virðulegi forseti, að bankarnir og lánastofnanirnar í landinu eru að sigla í gegnum holskeflurnar eru að komast á þurrt með sitt og það þýðir einfaldlega að innan tíðar er hægt að koma á enn frekari vaxtalækkunum í bankakerfinu. Hvað mundi til að mynda þýða, virðulegi forseti, ef tækist að lækka vexti þar um 1%? 1.200 millj. kr. fyrir fyrirtækin í landinu.
    Það er hárrétt sem hv. þm. Jón Kristjánsson sagði áðan að það alveg sama hvað ríkisstjórnin segir, atvinnuleysið er of mikið. Allir eru sammála um það. Auðvitað þarf að leggja á sig til að draga enn úr því. Ég segi samt sem áður og þykist hafa rök fyrir því að einmitt í atvinnumálum hefur ríkisstjórninni tekist ágætlega upp. Við skulum ekki gleyma því, virðulegi forseti, að ekki eru nema tvö eða þrjú missiri síðan að forusta ASÍ lagði kvarðann þar sem við erum mældir á. Hún sagði: Ef ríkisstjórnin grípur ekki til aðgerða mun koma 15--20% atvinnuleysi. Það gerðist ekki og á grundvelli þeirra forsendna sem forusta ASÍ lagði er ekki hægt að draga aðra ályktun en þá að ríkisstjórninni hafi tekist býsna vel upp þótt ég óskaði þess vissulega að atvinnuleysið væri minna. Við erum öll sammála um það að það er eitt mesta böl sem nokkra fjölskyldu getur hent.
    Hv. þm. Jón Kristjánsson sagði líka og vísaði til orða hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, sem hann taldi hafa mikla þekkingu á atvinnumálum, að vart væri að treysta þeim spám sem núna hafa verið settar fram um atvinnuleysið. Skoðum hvernig hefur mátt treysta þeim áður. Það var svo, virðulegi forseti, að Þjóðhagsstofnun spáði 5,5% atvinnuleysi á þessu ári. Eins og þingheimur man eftir byrjuðum við árið með sjómannaverkfalli sem skapaði verulega mikið atvinnuleysi hjá landverkafólki víða um landið. Eins og árið byrjaði hefði vel getað gerst svo að þessi spá hefði ekki aðeins gengið eftir heldur hefði atvinnuleysið jafnvel orðið meira. Atvinnuleysið er samt í dag ekki nema 4,7%. Það liggur fyrir að þær spár sem Þjóðhagsstofnun hefur sett fram hafa verið of varfærnar, þær hafa verið of bölsýnar. Ég get því ekki fallist á þessi orð hv. þm. Jóns Kristjánssonar. ( Gripið fram í: Smugan?) Smugan. Eigum við þá aðeins að taka Smuguna, hv. þm. Jón Kristjánsson? Það er svo að það var einmitt Framsfl. sem fyrir nokkrum mánuðum spáði sjávarútveginum hruni. Hvað hefur gerst síðan? Ríkisstjórn hefur m.a. sett á laggirnar Þróunarsjóðinn sem er grundvöllur þess að við getum farið í langþráða hagræðingu í sjávarútvegi. Hvernig er staða sjávarútvegsins í dag, hv. þm. Jón Kristjánsson? Það er mikil ánægja að upplýsa þig um að hann er rekinn með 2,5% hagnaði. Auðvitað er hárrétt að veiðar utan efnahagslögsögunnar skipta miklu máli. Miklu máli skiptir að veiða 1.500 tonn af rækju á Flæmska hattinum, 30--40 þús. tonn af þorski í Barentshafi. Það er eigi að síður svo að aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa ekki síst gert það af verkum að greinin, sem Framsfl. spáði hruni, vitaskuld líka vegna þess að hún hefur sýnt mikla aðlögunarhæfni, er að rétta úr kútnum. Hvað gerði ríkisstjórnin? Hún hefur gripið til bæði almennra og sértækra ráðstafana til þess að styðja sjávarútveginn. Hinar almennu hef ég rakið hér. Vaxtalækkun, stöðugleika í verðlagsmálum og ég tel rétt að við tökum þá einn í viðbót sem er nákvæmlega raungengið. Forustumenn Framsfl. ásökuðu ríkisstjórnina fyrir nokkrum mánuðum aftur og aftur fyrir að haga efnahagsmálum þannig að raungengið væri óhagstætt. Hvernig er það núna? Það er 10% lægra en að meðaltali frá árunum 1987 til 1993. 19% lægra en það var hæst þá og lækkar enn um 6% á þessu ári.
    ( Forseti (SalÞ) : Tíminn er búinn.)
    Er þetta ekki árangur? (Forseti hringir.) Þetta er árangur, virðulegi forseti, og ég held að þessi umræða í dag hafi sýnt að hv. stjórnarandstaða hefur ekki erindi sem erfiði þegar hún kemur hingað og ætlar að boxa ríkisstjórnina. (Forseti hringir.) Það er svo að ríkisstjórnin þrátt fyrir skoðanamun stjórnarflokkanna hefur bein til þess að sigla í gegnum erfiðleikana og hún er að skila árangri (Forseti hringir.) sem fyrri ríkisstjórnir geta ekki státað af.