Staða ríkisstjórnarinnar

5. fundur
Mánudaginn 10. október 1994, kl. 17:36:06 (148)


[17:36]
     Svavar Gestsson (andsvar) :

    Virðulegi forseti. Það verður að vísu að viðurkenna það að sumt af því sem maður hefur komið nærri um dagana er ekki ástæða til að vera að selja reykinn yfir og meðal þess er það að ég verð að viðurkenna að ég reyndi um hríð að ala upp þennan mann sem var að stíga úr stólnum rétt í þessu. En það er rétt hjá hæstv. ráðherra að það eru til hópar í þessu þjóðfélagi sem horfa fram á betri tíð. Það eru ekki viðskiptamenn félagsmálastofnunar. Það eru ekki atvinnulausir. Það eru ekki námsmenn. Það er ekki skólakerfið. Það er ekki velferðarkerfið. Ónei. Það eru hátekjumennirnir, en hæstv. ráðherra hefur tekið um það ákvörðun að lækka skatta á hátekjumönnum á næsta ári. Það er í raun og veru eina flaggið sem Jafnaðarmannaflokkur Íslands skilur eftir sig í því fjárlagafrv. sem nú liggur fyrir þessu þingi.