Staða ríkisstjórnarinnar

5. fundur
Mánudaginn 10. október 1994, kl. 18:20:10 (154)


[18:20]
     Halldór Ásgrímsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Eggert Haukdal fyrir að koma hér upp og lýsa yfir vantrausti sínu á einn ráðherra í hæstv. ríkisstjórn og vonandi koma fleiri hér upp og segja allan sannleikann en láta ekki hæstv. forsrh. tala eingöngu fyrir sinn munn. Hins vegar er það misskilningur hjá hv. þm. Eggert Haukdal að ég hafi gert einhverja tilraun til þess að krækja mér í þægilegt sæti í einhverri lest sem sé á leiðinni til Brussel. Það er algjör misskilningur hjá honum, ég hef ekki haft neina slíka tilburði. Hins vegar geri ég mér grein fyrir því að það eru mikilvæg viðskipti sem við eigum við Evrópu, fram hjá því verður ekki gengið og um þau mál verðum við að ná samningum. En ég hef aldrei haldið því fram að við ættum að sækja um aðild að Evrópusambandinu, ég hef aldrei haldið því fram að við ættum að ganga í það. Ég hef hins vegar verið stuðningsmaður þess að við viðurkenndum það að samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði er samningur sem við þurfum nú að byggja á og ég hef jafnframt sagt það að ekki séu uppi neinar umræður um það að segja honum upp þótt á honum séu ýmsir gallar. Við þurfum að reyna að lagfæra þann samning og byggja á honum í framhaldinu. Ég vonast eftir því að hv. þm. Eggert Haukdal sé jafnframt áhugamaður um það. Ég saknaði þess aðeins að hann sagði okkur ekkert um álit sitt á samningi við Rússa um menningarmál. Ég hefði gjarnan viljað heyra hug hans til þess máls, hvort hann treystir núv. hæstv. utanrrh. til þess að endurlífga þann samning.