Staða ríkisstjórnarinnar

5. fundur
Mánudaginn 10. október 1994, kl. 18:47:35 (158)


[18:47]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég vil taka það skýrt fram að þegar ég er að tala um þá stöðu sem upp kemur þegar pólitískir aðstoðarmenn ráðherra eru settir í starf ráðuneytisstjóra þá er ég ekki á nokkurn hátt að fjalla um það hvort viðkomandi einstaklingar séu hæfir eða ekki hæfir til að gegna því starfi. Ég gef mér að menn séu ekki að setja þar algerlega óhæfa menn út á flokksskírteinið eitt. Ég er hins vegar að benda á að jafnvel þótt þeir séu prýðilega hæfir sem slíkir þá hljóta menn að sjá hvaða staða kemur upp fyrir pólitískan andstæðing sem kemur að því ráðuneyti ef hann mætir fyrir í dyrum ráðuneytisstjóra sem hefur þann bakgrunn að hafa verið pólitískur aðstoðarmaður fyrirrennara hans kannski mestallan sinn starfstíma. Taka svo við ráðuneytisstjórastarfi sem er mjög viðkvæmt starf þegar kemur að samskiptum innan ráðuneytisins og mikilvægt að þar geti hundrað prósent trúnaður ríkt. Ég held það þurfi að rökstyðja þetta frekar burt séð frá ágæti viðkomandi einstaklinga þá hljóta allir að viðurkenna hversu vandasöm staða getur þarna komið upp. Er nærtækt líka að horfa út fyrir landsteinana og minnast þess að þar er víða einmitt það fyrirkomulag við lýði að ráðuneytisstjórinn fylgir viðkomandi ráðherra. Það er talið að æðsti yfirmaður embættismannanna í ráðuneytinu þurfi að vera sérstakur trúnaðarmaður viðkomandi ráðherra einnig pólitískt og þar af leiðandi dugi ekki að hann sé bara venjulegur embættismaður. Ég er alveg viss um að í þeim löndum dytti engum heilvita manni í hug að það kæmi til geina að pólitískur aðstoðarmaður fyrrv. ráðherra sæti þar sem ráðuneytisstjóri eftir stjórnarskipti, það kæmi aldrei til greina.
    Varðandi umræður hér um einkaskoðanir og ekki einkaskoðanir þá var ég, hæstv. forsrh., að reyna að gera greinarmun á því, sem mér eru engar fréttir, að það ríki skoðanafrelsi í landinu og hinu að menn fari um í nafni síns embættis sem utanrrh. til að mynda og prediki þar sína einkatrú þvert á stefnu ríkisstjórnar. Það er meira frjálslyndi í þessum efnum heldur en ég hef hingað til talið að væri við hæfi. En einhvern tímann er allt fyrst. Ef til vill eru það nýir tímar í íslenskum stjórnmálum að menn geti bara haft þetta eins og þeir vilja. Þykir mér þá hæstv. forsrh. Davíð Oddsson fara að gerast umburðarlyndur og er spurning hvort þetta á við um fleiri svið.