Staða ríkisstjórnarinnar

5. fundur
Mánudaginn 10. október 1994, kl. 18:52:37 (161)


[18:52]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég hjó eftir því að hæstv. forsrh. komst þannig að orði að fátæktin, eins og atvinnuleysið væri óhjákvæmilegur fylgifiskur stöðugleikans, sem kallaður er í efnahagsmálum, þess stöðugleika sem hann talar fyrir. Ég vil vísa þessu á bug og hafna þessum sjónarmiðum. Ég vil ekki stöðugleika sem hefur í för með sér atvinnuleysi og fátækt þúsunda eins og blasir við. Ég tel reyndar að það sé ekki stöðugleiki sem birtist á þeim heimilum sem nú eru að berjast við að reyna að láta enda ná saman með litlar eða engar tekjur.
    Í öðru lagi varðandi það sem hefur komið fram í þessum umræðum, virðulegur forseti, er fyrst og fremst það að stjórnarflokkarnir vilja leggja á það áherslu að þeir geti staðið saman. Það er bersýnilega ætlunin eftir umræðurnar í dag að mynda sams konar ríkisstjórn eftir næstu kosningar ef þessir flokkar fá meiri hluta til þess. Og ég held að það sé sá veruleiki, sú staðreynd sem stendur upp úr eftir þessar umræður og eru tíðindi í íslenskum stjórnmálum síðustu missira miðað við ósamkomulagið sem hefur verið milli stjórnarflokkanna. Ég tel þess vegna að það sé fréttin eftir daginn: Þeir ætla sér að halda áfram eftir kosningar ef þeir fá meiri hluta til. Samkvæmt því hljótum við í stjórnarandstöðunni að haga okkar málflutningi á komandi vikum og mánuðum og í kosningabaráttunni sem í hönd fer.
    Ég vildi loks mótmæla því, hæstv. forseti, að stjórnarandstaðan hafi ekki sýnt að hún vilji spara. Ég bendi á búvörusamninginn sem gerður var í tíð fyrrv. ríkisstjórnar og fyrrv. hæstv. landbrh. og fjmrh. þar sem um er að ræða stórfelldan sparnað í ríkisútgjöldum frá því sem ella hefði verið. Ég hygg að ekki sé í rauninni hægt að finna neina eina ákvörðun sem hefur skilað eins miklum árangri í ríkisfjármálum og búvörusamningurinn sem gerður var í tíð fyrrv. ríkisstjórnar.