Staða ríkisstjórnarinnar

5. fundur
Mánudaginn 10. október 1994, kl. 18:54:54 (162)


[18:54]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er auðvitað fráleitt að hv. 9. þm. Reykv. geti lesið það úr mínum orðum að stöðugleikanum fylgdi fátækt. Ég sagði ekkert þvílíkt. Ég sagði aftur á móti að fátækt mundi væntanlega ætíð vera til, erfiðleikar ætíð vera til. Og ég segi: Þeir sem búa við fátækt, hlutskipti þeirra er lakast þegar efnahagsskilyrðin eru erfiðust, til að mynda þegar verðbólgan fer upp í 100% eins og þegar hv. þm. var ráðherra í eina tíð. Þá hefur verið mjög erfitt að vera fátækur á Íslandi.
    Varðandi þá yfirlýsingu sem hv. þm. segir að sé frétt dagsins. Ég tók ekki eftir því að við talsmenn stjórnarflokkanna hefðum gefið slíkar yfirlýsingar. Hv. þm. er sá eini sem slíka yfirlýsingu hefur gefið og hann hefur ekki verið útnefndur sérlegur blaðafulltrúi stjórnarflokkanna. ( SvG: Ég mótmæli, ráðherra.) Ég fer bara með staðreyndir málsins eins og hv. þm. ætti að gera. Hann er sá eini sem hefur gefið slíka yfirlýsingu hér í kvöld og það vita allir þeir sem á þetta mál hafa hlýtt.