Fjárlög 1995

6. fundur
Þriðjudaginn 11. október 1994, kl. 14:32:52 (170)


[14:32]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Mig langar til að veita andsvar við tveimur atriðum úr ræðu hv. þm.
    Í fyrsta lagi vék hann í máli sínu að því að ASÍ teldi að 700 millj. vantaði upp á að efnt væri loforð um fjárfestingu sem gefið var á sínum tíma. Ég vil eingöngu að það komi fram að við það loforð verður staðið. Það hefur margoft verið sagt. Hins vegar er rétt að vissar framkvæmdir á listanum hafa tafist, þar á meðal dómshús og reyndar skólabyggingar, en við þetta loforð verður að sjálfsögðu staðið. Ég vil láta það koma fram að fjárfestingar hafa reyndar aukist meira en ASÍ hefur tekið fram í sínum pappírum. Þetta er nauðsynlegt að komi fram. Þá er ekkert verið að tala um björgunarþyrlu í því sambandi þegar talað er um fjárfestingar.
    Í öðru lagi er rætt um 600 millj. í frv. sem ætlast er til að sveitarfélögin leggi til vegna atvinnuátaks. Það er hárrétt að skrifað var undir í desember sl. af hálfu félmrh. og fjmrh. að ekki væri ráðgert að taka þetta upp með samsvarandi hætti í fjárlagafrv. 1995. Við höfum hins vegar óskað eftir viðræðum við þessa aðila til að þeir legðu sinn skerf fram til þessa átaks annaðhvort með sama hætti eða með öðrum hætti sem að gagni getur komið. Ástæðan er einföld. Átaksverkefnin hafa gengið vel og þau hafa komið sveitarfélögunum til góða. Við teljum að þetta séu verkefni sem séu hjálpleg, ekki síst vegna þess að mjög stutt er á milli þess fólks sem er annars vegar á atvinnuleysistryggingaskránni og hins sem er á félagslegu framfæri sveitarfélaganna. Þarna er straumur af fólki á milli og eðlilegt að líta á þetta í sameiningu. Á þetta vil ég leggja áherslu. Við höfum óskað eftir þessum viðræðum í trausti þess að sveitarfélögin muni vilja við okkur tala. Ég er sannfærður um að niðurstaðan verður jákvæð. Ég vil aðeins minna á það í lokin að útsvör eru borguð til sveitarfélaganna af atvinnuleysistryggingabótum.