Fjárlög 1995

6. fundur
Þriðjudaginn 11. október 1994, kl. 14:35:12 (171)



[14:35]
     Jón Kristjánsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það getur verið að ég sé eitthvað tregur en ég kem því ekki inn í kollinn á mér hvernig í sömu andrá er hægt að standa við þessar 700 millj. og skera síðan niður framkvæmdir á næsta ári um 3.300 millj. ef ég man rétt. En það er gott út af fyrir sig ef á að standa við þessar 700 millj. á þessu ári. Ég er hræddur um að forustumenn ASÍ muni horfa á þá tölu sem er í framkvæmdir á næsta ári, þann niðurskurð sem þar er, og verði ekki alveg fullkomlega ánægðir með þá niðurstöðu sem þar blasir við eða kaupi þær skýringar sem hæstv. ríkisstjórn gefur og fjmrh. mun áreiðanlega koma að síðar öðruvísi en í andsvari.
    Varðandi sveitarfélögin og átaksverkefnin hef ég aldrei skilið þessa hringferð peninganna vegna þess að sveitarfélögin hafa um áraraðir verið í átaksverkefnum í atvinnulífinu og varið til þess peningum. Ég skil ekki þá hringferð að peningarnir þurfi að fara í Atvinnuleysistryggingasjóð og úthluta þeim svo aftur til sveitarfélaganna og stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs. Sveitarfélögin hafa um árabil verið í þessum átaksverkefnum og þetta er ekkert nýtt. Þetta er einhver slaufa, svo ég noti orðalag hv. 3. þm. Austurl., sem er útbúin til að láta þetta líta vel út. Ég held að það væri langréttast og best fyrir atvinnulífið í landinu að þetta væri lagt niður.