Fjárlög 1995

6. fundur
Þriðjudaginn 11. október 1994, kl. 14:37:34 (172)


[14:37]

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil endilega að það komi skýrt fram í upphafi þessara umræðna að þær 700 millj. sem verið er að tala um er verið að tala um vegna loforða sem ríkisstjórnin gaf um tilteknar framkvæmdir. Við það verður staðið. Það er rétt að töf hefur orðið á vissum framkvæmdum en við þetta verður að sjálfsögðu staðið.
    Númer tvö er alveg hárrétt hjá hv. þm. að hringferð peninganna eða þessi slaufa, sem svo er kölluð, kann að virðast einkennileg. Ef það kemur í ljós í samtölum við sveitarfélögin að þau eru tilbúin til að láta af hendi álíka mikið fjármagn og þau hafa gert að undanförnu í ríkissjóð, í Atvinnuleysistryggingasjóð, til að auka atvinnuna er það að sjálfsögðu ásættanleg niðurstaða. Við erum einungis að benda á að við teljum ekki að sveitarfélögin geti verið stikkfrí. Ef þau vilja gera þetta með öðrum hætti er allt í lagi að fara öðruvísi að. En ég minni á að stutt er á milli þeirra sem eru á félagslegu framfæri bæjarfélaganna og hinna sem eru á atvinnuleysisskránni og eðlilegt er að þetta sé sameiginlegt verkefni ríkis og sveitarfélaga. Enn einu sinni minni ég á að af atvinnuleysistryggingabótunum greiðir ríkið alveg eins og um laun sé að ræða til sveitarfélaganna. Það kemur kannski mörgum á óvart þegar sagt er að af staðgreiðslunni sitji eftir 18 milljarðar hjá sveitarfélögunum en einungis 15 milljarðar hjá ríkinu þótt hlutfallið sé miklu hærra hjá ríkinu.