Fjárlög 1995

6. fundur
Þriðjudaginn 11. október 1994, kl. 14:39:24 (173)




[14:39]
     Jón Kristjánsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Vera kann að ASÍ hafi verið lofað tilteknum framkvæmdum. Þó hygg ég að þeir hafi hugsað á þeim bæ fyrst og fremst hvert heildarmagnið væri. Ég hef ekki trú á því að ASÍ hafi sérstakan áhuga á því að knýja fram byggingu á húsnæði fyrir Hæstarétt og að það sé eitthvert sáluhjálparatriði fyrir Alþýðusambandið. Auðvitað eru það heildarupphæðirnar sem skipta máli í þessu sambandi. En það er góðra gjalda vert ef standa á við loforðið um 700 millj. á þessu ári en það breytir ekki þeirri mynd sem fram undan er í þessum efnum.
    Varðandi sveitarfélögin þá efast ég ekki um að þau séu fáanleg til að leggja fé til atvinnumála eins og þau hafa alltaf verið. Ekkert var rætt um það í þessari yfirlýsingu. Rætt var um að þessi skattur yrði ekki innheimtur áfram. Einhver sagði nú, mig minnir að það hafi verið flokksbróðir hæstv. fjmrh., formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga: ,,Orð skulu standa.`` Það er gengið á bak þessara orða í fjárlagafrv. En ekki ætla ég að lasta það að teknar verði upp viðræður um það eftir á. Það hefði verið betra að gera það áður en frv. var lagt fram til að forðast þau illindi sem þegar eru orðin við sveitarfélögin.