Fjárlög 1995

6. fundur
Þriðjudaginn 11. október 1994, kl. 14:46:54 (178)


[14:46]
     Ólafur Ragnar Grímsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Samkvæmt þeirri venju, sem ég hef kynnst í þinginu jafngildir það formlegu erindi þegar formaður þingflokks eða formaður flokks gerir sér sérstakt erindi til forseta þingsins til að ræða fyrirkomulag umræðu. Það er eitthvað algerlega nýtt fyrir mér að samskiptahættir séu orðnir þannig í þinginu að slíkt þurfi að vera skriflegt.
    Erindaflutningur á skrifstofu forseta hefur að mínum dómi jafngilt beiðni. Ég taldi mig vera að flytja slíka beiðni fyrir hádegi til forseta þingsins og taldi mig skilja svör forseta á þann veg að þar sem hún reiknaði með því væri málið í höfn. Það vil ég að komi alveg skýrt fram.
    Ástæðan fyrir því að ég ræddi þetta ekki fyrr var að við sammæltumst um það ég og formaður þingflokks Sjálfstfl. að ég skyldi ekki koma með þetta beint í kjölfar ræðu fjmrh. heldur væri tækifæri til að ræða málið undir ræðu hv. þm. Jóns Kristjánssonar.