Fjárlög 1995

6. fundur
Þriðjudaginn 11. október 1994, kl. 15:20:32 (186)


[15:20]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það er merkilegt að hlusta á þá umræðu sem hér fer fram og þá ræðu sem hv. fjmrh. flutti í upphafi umræðunnar því það má öllum lýðum vera ljóst að það eru kosningar fram undan og þetta fjárlagafrv., sem hann hefur lagt fram, hið síðasta á þessu kjörtímabili, það ber þess vitni að það eru kosningar fram undan. Hér er áhersla lögð á björtu hliðarnar, sem betur fer er nokkur ástæða til, en það er ekki horft á dökku hliðarnar sem eru reyndar mjög alvarlegar og ég ítreka það sem ég sagði í ræðu minni í gær. Ég spyr: Í hvaða heimi lifa þessir menn sem draga upp þessa glansmynd af ástandinu í íslensku þjóðfélagi en nefna ekki hin alvarlegu teikn eins og atvinnuleysi, eins og þá miklu kjararýrnun sem hér hefur átt sér stað og annað það sem ég ætla reyndar að koma hér að á eftir?
    Þegar farið er í gegnum þetta frv. og þær skýringar sem hér eru gefnar þá blasir við og endurómar hugmyndafræði frjálshyggjunnar þó allnokkuð hafi dregið úr frá því sem við sáum á fyrstu árunum enda hefur þessi ríkisstjórn rekið sig rækilega á. En þó er megininntak þessarar hugmyndafræði það að draga úr umsvifum ríkisvaldsins, gefa fyrirtækjunum aukið svigrúm í efnahagskerfinu án þess að skoða í alvöru hvað ríkisvaldið þarf að gera og hverju það þarf að sinna miðað við það ástand sem við stöndum frammi fyrir.
    Ríkisstjórnin hefur nú sett það markmið fram í fjárlagafrv. að ná ríkishallanum niður á tímabilinu fram til 1988. Við minnumst þess þegar þessi ríkisstjórn tók til starfa þá setti hún sér það markmið að ná halla ríkissjóðs niður á tveimur árum. Það átti nú að fara býsna bratt í það. En ég hygg að það markmið sem hér er sett fram, gott væri ef tækist að ná ríkishallanum niður á þessum tíma en ég held þó að menn verði að fara sér hægt, og ég hygg að þetta sé óraunhæft markmið. Kannski ekki jafnóraunhæft og það sem sett var fram í upphafi kjörtímabilsins en ég rökstyð þetta álit mitt með því að þær forsendur sem menn eru að gefa sér fyrir þessu frv. til fjárlaga fyrir árið 1995 og svo framhaldinu eru býsna veikar. Spárnar sem Þjóðhagsstofnun hefur sett fram og byggir sínar tillögur og álit á eru býsna veikar. Þetta er það sem við verðum að hafa í huga þegar við ræðum þetta frv. og þegar við horfum á framtíðina að það eru stórir og miklir óvissuþættir í efnahagslífinu.
    Það má auðvitað segja sem svo að sá samdráttur sem spáð var á þessu ári hefur ekki gengið eftir, sem betur fer, en þar kemur auðvitað fyrst og fremst til úthafsveiðarnar sem skilað hafa milljörðum inn í þjóðarbúið, meiri loðnuafli en reiknað hafði verið með, meiri aukning í ferðaþjónustu en reiknað hafði verið með o.s.frv. Þarna hafa komið inn utanaðkomandi áhrif sem ekki er hægt að þakka ríkisstjórninni fyrir. Þessi bati hefur einmitt orðið þrátt fyrir ríkisstjórnina en ekki vegna hennar.
    En þessir óvissuþættir eru þarna til staðar. Það veit enginn hver úthafsafli verður á næsta ári, það veit enginn hver loðnuaflinn verður og rétt eins og við höfum orðið að skera niður þorskaflann ár eftir ár þá er nokkuð óljóst hver þorskafli innan íslenskrar landhelgi verður á næsta ári. En eins og við vitum þá hafa aðrir fiskstofnar verið að koma sterkar inn í veiðarnar og það skiptir auðvitað máli en þetta eru óvissuþættir sem geta breytt öllum forsendum og allri niðurstöðu fjárlagafrv. allverulega.
    Þá vil ég nefna það líka að það eru kjarasamningar fram undan. Í frv. er gengið út frá því að niðurstaða þeirra verði á hófsömum nótum rétt eins og verið hefur. En ég hef grun um það að þessir kjarasamningar muni verða erfiðari en menn kannski halda því það er mjög mikill þrýstingur úti í þjóðfélaginu. Fólk hefur orðið fyrir mikilli kjaraskerðingu, heimilin eru orðin gífurlega skuldsett eins og við höfum séð í þeim tölum sem lagðar hafa verið fram og þetta veldur auðvitað vaxandi þrýstingi á það að fólk fái verulegar kjarabætur í komandi samningum. Þar að auki verðum við að horfast í augu við þá staðreynd að það launakerfi sem við búum við hér á landi er afar óréttlátt, það bitnar harðast á konum. Sannarlega er kominn tími til að ríkisvaldið gangist fyrir því að stokka upp launakerfi sitt. Það þarf ekki að þýða aukin útgjöld heldur fyrst og fremst að meiri jöfnuði og meira réttlæti verði komið á. Það launamisrétti kynjanna, sem við búum við hér á landi, er orðið algjörlega óþolandi og íslensku þjóðfélagi til skammar enda vil ég benda á að stofnanir Sameinuðu þjóðanna hafa gert athugasemdir við launamisréttið hér á landi sem bitnar á konum.
    Þá er enn einn þáttur sem veikir forsendur þessa frv. og það eru þau áform ríkisstjórnarinnar að skera niður fé til framkvæmda. Ríkisstjórnin ætlar að treysta á að efnahagsbatinn skili sér í auknum framkvæmdum einkaaðila og þar er m.a. vísað til Hvalfjarðarganganna en sú framkvæmd mun hugsanlega hefjast á næsta ári. En ef meiningin er að reyna að halda atvinnuleysinu í kringum 4,8% eins og spáð er af Þjóðhagsstofnun, og er auðvitað allt of mikið atvinnuleysi, þá efast ég um að ríkisstjórnin komist upp með að skera framkvæmdafé niður með þessum hætti. Ég efast stórlega um að þetta nái fram að ganga enda er það hlutverk ríkisvaldsins að halda atvinnu uppi.
    Enn einn þáttur sem gengið er út frá í fjárlagafrv. er það atriði að ríkisstofnunum er enn eitt árið gert að spara með hagræðingu. Öllum er gert að hagræða mismunandi mikið eftir því hvar er. Ég spyr mig að því: Hversu lengi geta stofnanir hagrætt án þess að einhver veruleg uppstokkun eigi sér stað? Ég hef ekki heyrt annað en að hver stofnunin á fætur annarri lýsi því yfir að lengra verði ekki gengið í hagræðingu og sparnaði. Ég vil þá vísa til þess að fulltrúar Háskóla Íslands gengu á fund menntmn. í morgun til að greina frá ástandinu innan háskólans. Það er alveg ljóst að Háskóli Íslands er í hættu. Hann hefur sætt svo miklum niðurskurði af hálfu ríkisvaldsins að starfsemi hans er hreinlega í hættu. Spurningarnar um það hvort háskólinn getur sinnt þeim kröfum sem til hans eru gerðar verða æ áleitnari. Kennsla hefur verið skorin niður, fjölgað í hópum og allt gert til að mæta þeim sparnaði sem háskólinn hefur orðið fyrir og lengra verður ekki gengið enda eru þeir að biðja um auknar fjárveitingar. Þetta er mjög alvarlegt mál og gengur auðvitað þvert á það sem ríkisstjórnin hefur sagt um áherslur á bætta menntun, rannsóknir og vísindi þó að reyndar hafi orðið aukning á fjárframlögum til rannsóknarsjóða. En grunnurinn er auðvitað í skólunum og þangað verður fjármagn að koma. Þetta er mál sem við þurfum að ræða mjög alvarlega og skoða.
    Enn eitt atriði sem ég vil benda á í forsendum fjárlagafrv. er það atriði að fjárfestingar í atvinnulífinu eru enn í sögulegu lágmarki eins og sagt var í fjárlagafrv. þess árs sem nú er senn á enda. Fjárfestingar eru afar litlar og það segir okkur þá sögu að það er lítil nýsköpun á ferð, lítil von er til þess að einhver veruleg fjölgun verði á nýjum störfum í atvinnulífinu. Þetta er auðvitað afar alvarlegt mál. Þar af leiðandi bendi ég aftur á það að ég held að það sé afar hæpið að ríkisstjórnin eða ríkisvaldið dragi úr fjárframlögum til framkvæmda. Afleiðingin getur einfaldlega orðið sú að atvinnuleysi verði mun meira en hér er reiknað með.
    Reiknað er með því í þessu fjárlagafrv. að sveitarfélögin komi til liðs við ríkisvaldið og leggi fram peninga til atvinnusköpunar þvert á það samkomulag sem gert var við sveitarfélögin í fyrra. Auðvitað vaknar sú spurning hvers sveitarfélögin eru megnug. Hvað geta þau gert ef ríkisvaldið ætlar að skera niður framkvæmdafé? Samkvæmt því sem upplýst var á fundi fjárln. í gær hefur skuldastaða sveitarfélaganna í landinu versnað allverulega og sveitarfélögin eru í samkeppni við ríkisvaldið og aðra aðila um fjármagn á lánsfjármarkaði. Og hvað geta þau gert? Þetta eru allt stórar spurningar og svörin óljós. Því er niðurstaða mín sú að ýmsar af þeim forsendum sem menn gefa sér í þessu fjárlagafrv. séu vægast sagt hæpnar.
    Til þess að vera ekki öll á neikvæðu nótunum er auðvitað rétt að verulega hefur dregið úr verðbólgu, vextir hafa lækkað sem kemur bæði skuldugum heimilum og skuldugum fyrirtækjum til góða. En sú spurning vaknar hvað það segi um efnahagslífið að verðbólga skuli komin niður í núll. Ég er ekki hagfræðimenntuð en ég veit þó að skoðanir eru nokkuð skiptar um það hvað er eðlileg verðbólga og á hvaða stigi á hún að vera. Það að verðbólga skuli komin niður í núll segir okkur að það er ekkert að gerast í íslensku efnahagslífi. Þetta er merki samdráttar en ekki þess að það sé einhver hreyfing þó það sé auðvitað best að halda verðbólgu niðri en verðbólga í núlli eða jafnvel í mínustölum speglar auðvitað allt annað ástand.
    Ég ætla aðeins að víkja að tekjuhlið fjárlaganna. Ég hefði eins og aðrir óskað eftir lengri ræðutíma en verð auðvitað að bíta í það súra epli að ekki var beðið um það formlega. Það vekur furðu að í frv. er því frestað enn eitt árið að koma á fjármagnstekjuskatti. Má ljóst vera að aldrei hefur verið mikil alvara í þeim áformum af hálfu Sjálfstfl. Því er borið við í þessu frv. að fjármagnstekjuskattur kynni að hafa slæm áhrif á vaxtaþróun og hugsanlega ýta undir að fjármagn flyttist úr landi vegna þeirra breytinga sem munu eiga sér stað um áramótin. Nokkuð kann að vera til í þessu enda hefði átt að vera búið að koma þessum skatti á fyrir löngu. Auðvitað er ekki gott að gera miklar breytingar sem hugsanlega ganga hver gegn annarri með stuttu millibili. Það er furðulegt að þessi ríkisstjórn skuli ekki hafa komið þessum skatti á fyrir lifandis löngu. Auðvitað speglar það sjónarmið þessarar ríkisstjórnar að stöðugt er verið að hygla hinum ríku en verið að velta sköttum og byrðum yfir á þá sem verr standa. Sama gildir um hinn svokallaða hátekjuskatt sem hefur verið til umræðu. Það er afar sérkennilegt þegar halli á ríkissjóði er jafnmikill og raun ber vitni að áform skuli vera uppi um að fella þennan skatt niður þó hann ætti auðvitað að miðast við hærri tekjur en nú er gert. En ég fæ ekki séð að ríkissjóður megi við því að fella skattinn niður og mundi leggja til t.d. að þessum skatti verði haldið inni og þeir peningar renni til Háskóla Íslands sem sárlega vantar fé þó eflaust mætti benda á ýmsilegt annað sem ekki þarf síður peninga til.
    Ögn um gjaldahlið frv. Hér er ekki tími til að fara út í einstaka þætti en ég vil aðeins nefna menntamálin og menningarmálin. Í kaflanum um menntmrn. er farin sú leið reyna að skera niður í menningarmálunum. Þar kemur m.a. fram sem tillaga að leggja niður listskreytingarsjóð sem er afar lítið dæmi í heildarútgjöldum menntmrn. og ég lýsi því yfir að ég mun leggjast hart gegn þeirri breytingu og ég sé engan rökstuðning fyrir því að leggja þennan sjóð niður. Þetta er eitt af fáu þar sem um er að ræða beinan stuðning ríkisins við myndlistarmenn ef frá eru talin starfslaun. Ég held að ekki veiti af að reyna að fegra byggingar hér á landi með listaverkum. Í frv. kemur reyndar fram að verið sé að skoða lögin um þennan sjóð en á meðan það hefur ekki verið gert legg ég til að við hlífum þessum sjóði og haldið verði áfram að skreyta byggingar með listaverkum.
    Í frv. er ekki gert ráð fyrir því að grunnskólinn flytjist til sveitarfélaganna á næsta ári. Það er reiknað með útgjöldum til grunnskólanna. Ég verð að segja að ég tel þetta vera rétta stefnu því það er einfaldlega mikil umræða eftir um flutning grunnskólans til sveitarfélaganna og mörg mál óleyst varðandi það mikla mál að ég tel óraunhæft að sá flutningur eigi sér stað með þeim hætti sem rætt hefur verið um og miklu réttara að gefa sér tíma til að skoða það mál rækilega.
    Ég ætla ekki að nefna Háskóla Íslands meira en ég hef gert. Auðvitað vekur líka athygli niðurskurðurinn á framlögum ríkisins til Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Þegar við höfum fengið nánari upplýsingar um stöðuna í sjóðnum og hvernig mál hafa þar þróast mun ég ræða þau mál betur við 2. umr. um fjárlög. En þarna er haldið áfram á sömu braut. Framlög ríkisins eru skorin niður í beinum framlögum til lánasjóðsins og honum vísað enn og aftur út á lánamarkaðinn. Þetta er verið að gera um leið og nemendum fjölgar í framhaldsskólum og á háskólastiginu.
    Heilbrigðismálin eru mál málanna þegar um útgjöld ríkisins er að ræða. Sú spurning sem vaknar er: Hvaða sparnaður hefur náðst í raun og veru í heilbrigðiskerfinu? Í mínum huga er afar óljóst hvort þar er um nokkurn árangur að ræða og hvort þarna er nokkuð annað á ferðinni en tilfærslur úr heilbrigðiskerfinu yfir í tryggingakerfið, frá ríkinu yfir til sveitarfélaganna o.s.frv. Svo mikið er víst að miklum byrðum hefur verið velt yfir á sjúklinga og aðstandendur þeirra. Hér á að stíga enn eitt skrefið og velta 100 millj. kr. yfir á þá sem þurfa að koma inn á göngudeildir þar sem unnin eru svokölluð ferliverk, þ.e. verk sambærileg við þau sem unnin eru á stofum út í bæ. Hér er ekki stórmannlega að verki staðið frekar en fyrri daginn.
    Ég vil nota þessar síðustu sekúndur sem ég á eftir til að leggja enn einu sinni áherslu á það að vissulega er þörf á því að skoða heilbrigðiskerfið og hvaða leiðir eru þar til sparnaðar þar sem það tekur gríðarlega stóran og mikinn hluta af ríkisútgjöldunum en ég held að menn séu einfaldlega ekki að spyrja þar réttra spurninga. Spurningin er ekki sú: Hvernig getum við skorið niður í viðgerðarþjónustunni? Heldur á spurningin að vera sú: Hvernig getum við bætt heilsu þjóðarinnar? Hvaða aðgerða getum við gripið til til þess að bæta heilsu þjóðarinnar þannig að fólk þurfi ekki að leita til heilbrigðiskerfisins í jafnríkum mæli og gert er? Þær leiðir eru margar. Þær byggjast á forvörnum og aftur forvörnum. Ég vil gjarnan upplýsa hæstv. fjmrh. um það að ég var svo heppin úti í Bandaríkjunum að hlusta þar á heilbrigðisráðherra Bandaríkjanna. (Forseti hringir.) --- Ég er rétt að ljúka máli mínu, virðulegur forseti. --- Og sú kona, sem heitir Donna Shalala, lagði einmitt mjög mikla áherslu á það að hin rétta stefna í heilbrigðismálum væri forvarnir og aftur forvarnir. Og ég er alveg sannfærð um það að við náum ekki árangri í því að draga saman ríkisútgjöld án þess að veruleg uppstokkun eigi sér stað innan stofnana ríkisins og með því að sameina stofnanir og einfalda ríkiskerfið, en hér er engar slíkar tillögur að finna. Hér er eingöngu enn einu sinni verið að skera ofan af. Hér er um sáralitlar úrbætur að ræða til frambúðar.