Fjárlög 1995

6. fundur
Þriðjudaginn 11. október 1994, kl. 15:45:56 (189)


[15:45]
     Sigbjörn Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir, sem talaði áðan, minntist á merkilegt erindi sem hún hafði hlýtt á hjá heilbrigðisráðherra Bandaríkjanna, Donnu Shalala, þar sem hún gat um mikilvægi forvarna varðandi heilbrigðismál.
    Það er auðvitað hárrétt og er löngu vitað að forvarnir í heilbrigðismálum eru afar mikilvægar til þess að koma í veg fyrir að skemmdir eigi sér stað á síðari stigum. Nákvæmlega það sama er mikilvægt varðandi efnahagslífið og að halda efnahagslífinu heilbrigðu, þ.e. að grípa til forvarna. Til forvarna hefur einmitt verið gripið á þessu kjörtímabili. Það hefur tekist að draga úr þessum sjálfvirku útgjaldahækkunum sem hafa viðgengist hér allt of lengi með þeim árangri að verðbólgan er niðri og langt innan þeirra marka sem er í öðrum OECD-löndum. Viðskiptajöfnuðurinn hefur breyst frá því að vera árið 1991 í um 20 milljörðum í mínus og er orðinn hagstæður. Það hefur einmitt skapast vegna þess að menn hafa gripið til forvarna, menn hafa tekið saman höndum um að verjast á því samdráttarskeiði og einmitt í þeirri vissu að einungis þannig væru möguleikar á betri tíð og möguleikar á heilbrigðu efnahagslífi hér á Íslandi.
    Það frv. sem hér er til umræðu ber auðvitað með sér þennan stöðugleika sem tekist hefur að skapa. Margir hafa sagt, og það var ekki síst um það talað á nýliðnu sumri, að nauðsynlegt væri að grípa á haustdögum til kosninga þar sem ríkisstjórnarmeirihlutinn mundi ekki koma sér saman um frv. til fjárlaga eða fjárlög. Það er liðin tíð og menn munu aldrei, fullyrði ég, upp frá þessu leggja fram frv. til fjárlaga fyrir kosningar sem ekki er trúverðugt frv. Menn eru farnir að sjá í gegnum slíkar myndir, slíkar brellur takast ekki og þær eru einungis til þess fallnar að auka við þann vanda sem við er að búa í framtíðinni.
    Ýmsir stjórnarandstæðingar hafa haft á orði hér á undan að það sé mikill veikleiki í þeim forsendum, í þeim spám, sem lagðar eru til grundvallar í þessu fjárlagafrv. Víst er það svo að alltaf er erfitt að spá um framtíðina, en hitt er jafnljóst að um þessar mundir sjáum við einmitt ótrúlega og óvenjumargar efnahagsstærðir talsvert langt fram í tímann. Rannsóknir okkar hafa aukist, t.d. á stofnstærð þorsks og á stofnstærð lífríkisins í hafinu og við höfum gert langtímaspár sem virðast vera áreiðanlegri heldur en fyrr var. Auk þess hefur lækkun verðbólgu og lækkun vaxta og sá stöðugleiki sem við höfum verið við að búa, gert það að verkum að það er mun auðveldara að sjá fram í tímann heldur en verið hefur. Hitt er jafn augljóst að við getum aldrei með fullkominni vissu séð það fyrir hversu mikið mun aflast og hversu erlendir markaðir verða tilbúnir að taka við þeirri framleiðslu sem við höfum.
    Fyrir fáum missirum höfðu samtök launþega uppi spár um að yrði ekkert að gert mundi atvinnuleysi stefna í tveggja stafa tölu og fara jafnvel upp í um 20%. Þetta hefur sem betur fer ekki gengið eftir vegna þess að í samráði við aðila vinnumarkaðar hefur ríkisstjórnin gripið til aðgerða á undanförnum árum. Fyrirtæki búa við lægri skatta heldur en verið hefur og fyrirtæki og almenningur búa við lægri vexti. Virðisaukaskattur hefur verið lækkaður á matvæli og aðstöðugjöld numin brott. Auk þess hafa verið sérstök framlög til atvinnuskapandi verkefna og ýmissa verklegra framkvæmda og sumt af því hefur verið jafnframt í samráði og samvinnu við sveitarfélögin í landinu. Þannig mætti nokkuð áfram telja.
    Vissulega hefur halli ríkissjóðs aukist með þessum aðgerðum umfram það sem ráð var fyrir gert. Ríkisstjórnarmeirihlutinn taldi hins vegar nauðsyn að bregðast við með þessum hætti til að koma í veg fyrir enn meiri vanda. Það er rétt, sem hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir sagði hér áðan, að nokkru, að það er hlutverk ríkisvaldsins að halda uppi atvinnu. Síðan er það aftur spurning, sem við eflaust erum ekki öll sammála um, á hvern hátt ríkisstjórnin og ríkisvaldið eigi að halda uppi atvinnu. Það er mín skoðun að ríkisvaldið eigi fyrst og fremst að halda uppi atvinnu með þeim hætti að skapa skilyrði til þess að atvinnulífið fái viðgengist með heiðarlegum hætti.
    Það hefur tekist með efnahagsaðgerðum ríkisstjórnarinnar að skapa þessar aðstæður. Það kom fram í fréttum í gær að verðbólgan er einmitt í núlli á meðan verðbólga á OECD-ríkjunum er um 3%. Þetta hefur vissulega bætt stöðu útflutningsgreinanna verulega í samkeppni við vörur annars staðar frá. Þannig hefur til að mynda útflutningur iðnvarnings aukist til muna á þessu ári, má þar t.d. nefna veiðarfæri og tölvuvogir, vegna þess að tekist hefur verið á við efnahagsvandann og það með heilbrigðum aðferðum. Allt þetta hefur auðvitað í för með sér aukna atvinnu.
    Við 3. umr. fjárlaga í desember í fyrra ræddi ég mikið um verkefni sem biði okkar stjórnmálamanna, þ.e. að vinna trúverðuga áætlun um að eyða halla ríkissjóðs. Að þessum málum hefur hæstv. fjmrh. vikið hér á undan og glögg greinargerð er um þessi efni í fjárlagafrv. sem hér er til umræðu. Ég hvet þingheim og reyndar alla þá sem hafa tök á að kynna sér þessa greinargerð og vega hana og meta. Það er fullljóst að þeir sem koma til með að fara með stjórnartauma að afloknum næstu kosningum verða að ganga út á þær brautir og marka stefnu til þess að ná hallanum niður á tilteknu árabili, hugsanlega á kjörtímabili eða rúmlega það. Það verður skylda þeirra sem við stjórnartaumunum taka. Það verða öll tækifæri til þess ef tekst að afgreiða það fjárlagafrv. sem hér er til umræðu með skynsamlegum og ábyrgum hætti. Þessi ríkisstjórn mun skila góðu búi. Sú ríkisstjórn sem við tekur þarf ekki að takast á við vanda fortíðar. Ég ætla einnig að vona að þjóðin verði ekki fyrir þeim búsifjum á næstunni sem við höfum þurft að þola undanfarin ár.
    Ég ætla ekki að eyða löngu máli í framvinduhorfur efnahagsmála. Hæstv. fjmrh. hefur farið yfir það hér á undan. Ég átti þess hins vegar kost á dögunum að fylgjast með umræðum í Evrópuráðinu um áætlun og horfur í efnahagsmálum í OECD-ríkjunum. Eftir samdráttarskeið sem þar hefur ríkt þá ríkti þar nokkur bjartsýni um framgang mála á næstu árum. Efnahagsbati væri í nánd, menn horfðu fram á hagvöxt. Efnahagsbati í þessum helstu viðskiptaríkjum okkar mun auðvitað skila sér til okkar með ýmsum hætti. Það fór þó ekki hjá því að stórum hluta af tíma sínum eyddu forustumenn OECD og aðrir þeir sem þátt tóku í umræðunni í umræður um atvinnuleysið og áhyggjur vegna þess.
    Það sem þeir aðilar sem þar ræddu bundu hins vegar mestar vonir við í baráttunni gegn auknu atvinnuleysi og til þess að reyna að draga úr atvinnuleysi voru efling rannsókna- og vísindastarfsemi og nýsköpun. Það eru einmitt þættir sem lögð er nokkur áhersla á í því fjárlagafrv. sem hér er til umræðu og e.t.v. hefur mikið skort á að við höfum á undanförnum árum varið jafnmiklum fjármunum og æskilegt hefði verið til eflingar rannsókna- og vísindastarfsemi.
    Eins og fram kemur í greinargerð með frv. eru horfur á að tekjur verði ívið minni á næsta ári, sem hlutfall af landsframleiðslu, þrátt fyrir bjartari horfur um framvindu efnahagsmála. Þannig hafa ýmsar skattalagabreytingar neikvæð áhrif á tekjuhliðina og valda því að tekjur dragast saman.
    Á undanförnum árum höfum við hér í hinu háa Alþingi gengið fram í því að auka tekjutengingu ýmissa bóta og annarra slíkra liða. Það er e.t.v. að verða og má kannski verða okkur nokkurt áhyggjuefni hvort ekki hafi verið of langt gengið. Stundum á handahófskenndan hátt höfum við tekjutengt ýmsar bætur og ýmsa slíka liði án þess jafnvel að hafa yfirsýn yfir sviðið. Þetta hefur ekki einungis verið að gerast hér á Íslandi. Það sama hefur verið að gerast í öðrum ríkjum Vestur-Evrópu. Þetta er eitt af þeim atriðum sem mikið voru til umræðu varðandi OECD-umræðuna sem ég vitnaði til hér. Þannig voru menn með dæmi um það að þegar tekjuaukning varð upp á einn dollara væri það sem fólk bæri í raun og veru úr býtum 5 cent eða 5%. Ég hygg að það hljóti að verða verkefni okkar á næstu missirum að reyna að nálgast heildarsýn yfir þá tekjutengingu sem við höfum komið á á undanförnum árum. Það er nefnilega svo að ef gengið er of langt í tekjutengingu þá er það hvati til skattsvika og það er jafnvel mjög letjandi til vinnu.
    Nokkrar umræður hafa orðið við þessa umræðu á síðustu dögum um hátekjuskatt. Það hefur komið fram áður að ég er því fylgjandi að hátekjuskattur verði lagður á og honum verði viðhaldið. Menn vita að í þeim lögum sem samþykkt voru fyrir tveimur árum var sólarlagsákvæði, eins og sagt er, þannig að hátekjuskattur skyldi falla niður um áramót. Þó svo að í prinsippinu sé ég fylgjandi hátekjuskatti þá er óþarft að vera ósveigjanlegur í þeim efnum. Það kann að vera að við þurfum að breyta álagningu hátekjuskattsins á einhvern veg þannig að við hækkum mörkin og lítum jafnvel til fleiri þátta í þeim efnum, en ég tel að hátekjuskattur eigi að vera við lýði, en e.t.v. ekki endilega í þeirri mynd sem verið hefur undanfarin tvö ár.
    Í hvítbók ríkisstjórnarinnar var frá því sagt að ríkisstjórnin mundi á kjörtímabilinu vinna að samræmingu á skattlagningu eigna og eignatekna. Þetta er stundum nefnt fjármagnstekjuskattur öðrum orðum. Auðvitað ber ríkisstjórninni að ljúka þeirri vinnu sem unnið hefur verið að á undanförnum missirum. Það er sannfæring mín að það sé mikið réttlætismál að unnið sé að skattlagningu í þessa veru. Það er jafnljóst að tekjuhliðin hefur ekki verið að fullu rædd fremur en gjaldahliðin, þó svo að gjaldahliðin hafi verið mun meira rædd, í það minnsta í þingflokki Alþfl. Ég minni og á að hér er um frv. að ræða og við vitum það öll að frumvörp taka ávallt breytingum í meðferð nefnda.
    Nú sem aldrei fyrr ríður á að sett séu trúverðug fjárlög. Fyrir dyrum eru kjarasamningar aðila vinnumarkaðar. Ein meginforsenda þess að á þeim vettvangi megi vel til takast er að traust fjárlög verði sett, að verðbólga fái haldist á þeim lágu nótum sem hún sannanlega er, að möguleikar skapist fyrir enn

lækkandi vöxtum. Einungis þannig skapast svigrúm fyrir frekari viðgang atvinnufyrirtækjanna í landinu og þar með möguleikar til að auka kaupmátt launafólks og halda atvinnustiginu uppi. Mál eru ekki flóknari en það að ef skilyrði eru ekki sköpuð fyrir fyrirtækin í landinu til samkeppni við fyrirtæki annarra landa verður enginn hagvöxtur í landinu. Þá náum við ekki að draga úr skuldum, þá náum við ekki að auka kaupmátt, þá náum við ekki að koma böndum á vexti.
    Öllum er einnig ljóst að þrengt hefur að íslenskri þjóð á undanförnum árum. Þjóðin á heiður skilinn fyrir baráttuna gegn hruni efnahagslífsins. Vissulega hefur það ekki verið þrautalaus barátta. Í mótlætinu höfum við snúið bökum saman og tekist á við vandann. Nú erum við að uppskera í samræmi við það. Sá tími er liðinn og þau vinnubrögð heyra fortíðinni til að vandanum sé ýtt til hliðar og komandi kynslóðir séu látnar um lausnir.