Fjárlög 1995

6. fundur
Þriðjudaginn 11. október 1994, kl. 16:01:56 (190)


[16:01]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm., formaður fjárln., sem nú var að ljúka máli sínu, gaf fjárlagafrv. og efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar þá einkunn að nú væri sá tími liðinn að menn veltu vandanum yfir á komandi kynslóðir. Hann sagði fyrr í ræðu sinni að ríkisstjórnin skildi ekki eftir sig fortíðarvanda fyrir aðra til að glíma við. Hv. þm. kinkar kolli til staðfestingar því að rétt er eftir haft. Ég vil spyrja formann fjárln.: Er ekki vandi fyrir komandi kynslóðir að hreinar skuldir hins opinbera, sem yfir 90% eru til ríkisins, hafa aukist á þessu kjörtímabili samkvæmt frv. úr 177 milljörðum í 247 milljarða? Nærri því 80 milljarðar hafa bæst við skuldir hins opinbera á kjörtímabilinu. Er það ekki framtíðin sem á að glíma við þær skuldir sem ríkisstjórnin hefur aukið? Hefur formaður fjárln. ekki tekið eftir því að samkvæmt fjárlagafrv. hafa hreinar skuldir hins opinbera, sem hlutfall af vergri landsframleiðslu, aukist frá því að vera 16--17% á árunum 1989--1991 yfir í að vera 34--35% í ár og á næsta ári? Hreinar skuldir hins opinbera sem hlutfall af vergri landsframleiðslu hafa því tvöfaldast frá árunum 1989--1991 til 1994--1995. Erlendar skuldir hins opinbera hafa líka stórvaxið á kjörtímabilinu þannig að næsta kjörtímabil og komandi kynslóðir verða að greiða mun meira af erlendum lánum ríkisstjórnarinnar en áður. Hlutfall erlendra skulda af vergri landsframleiðslu var 1990 og 1991 16 og 17%, var komin 1993 í 25% og hefur vaxið síðan. Ég spyr því formann fjárln.: Er það ekki að velta vanda yfir á framtíðina, er það að skilja ekki eftir sig neinn fortíðarvanda að auka skuldir hins opinbera um 80 milljarða, að tvöfalda skuldir hins opinbera vergri landsframleiðslu, að stórauka erlendar skuldir ríkisins?