Fjárlög 1995

6. fundur
Þriðjudaginn 11. október 1994, kl. 16:04:30 (191)


[16:04]
     Sigbjörn Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er hárrétt hjá hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni að skuldir hafa aukist. Ég sagði það í máli mínu áðan að við hefðum búið við mun lakari aðstæður í samfélaginu, við samdrátt í tekjum. Þrátt fyrir það hefur mönnum tekist að koma böndum á efnahagslífið í landinu. Hluti af þeim vanda sem hefur verið við að glíma á kjörtímabilinu, sem nú er senn liðið, er auðvitað afleiðing til að mynda kosningafjárlaga sem síðast voru gerð fyrir fjórum árum sem stendur ekki til að gera að þessu sinni. Það er áhyggjuefni okkar hvernig þessi kynslóð sem við erum af hefur einmitt ýtt vandanum á undan sér til skamms tíma en fyrst nú á allra síðustu árum hafa menn orðið sammála um að taka á vandanum en við snúum ekki í einu vetfangi við blaðinu þótt við fegnir vildum og sérstaklega ekki við þær aðstæður sem við höfum búið við á undanförnum þremur árum.