Fjárlög 1995

6. fundur
Þriðjudaginn 11. október 1994, kl. 16:58:21 (201)


[16:58]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Í upphafi máls míns vil ég ítreka það að ég tel mjög miður að sá misskilningur hafi orðið milli mín og forseta þingsins að ekki er hægt að ræða fjárlagafrv. hér með þeim hætti að þingmenn hafi nauðsynlegan ræðutíma til að fara yfir þessa stöðu. Nauðsynin er sérstaklega brýn nú vegna þess að fjmrh. og forsrh. hafa að undanförnu verið að gefa svo falska mynd af stöðu efnahagsmálanna, stöðu ríkisfjármála og skuldastöðu þjóðarbúsins og ríkisins sérstaklega að það er alveg nauðsynlegt að fara rækilega yfir þessa stöðu svo að bæði þingheimur og reyndar þjóðin öll og kannski ráðherrarnir sjálfir átti sig á þeim óskapnaði sem felst í heildaruppgjöri á valdaferli þessarar ríkisstjórnar.
    Hvað væri sagt um ríkisstjórn sem í upphafi ferils síns mundi lýsa því yfir að við lok kjörtímabilsins ætlaði hún að tvöfalda skuldir hins opinbera? Í lok kjörtímabilsins ætlaði hún að setja lýðveldismet í hallasöfnun? Í lok kjörtímabilsins ætlaði hún að stórauka erlendar skuldir ríkisins? Í lok kjörtímabilsins ætlaði hún ekki að ná neinum árangri í sparnaði á rekstrargjöldum ríkisins? Í lok kjörtímabilsins mundi hún ekki ná neinum árangri í lækkun tilfærslna nema þeim sem fyrri ríkisstjórn hefði ákveðið? Hvað hefði verið sagt um prógramm slíkrar ríkisstjórnar? Hún hefði auðvitað verið hrópuð út af borðinu, ég tala nú ekki um ef svo hefði verið bætt við að í lok valdaferils síns yrði skattbyrði einstaklinga í landinu meiri en nokkru sinni fyrr.
    Allt þetta sem ég hef hér lýst eru staðreyndir um niðurstöðurnar á valdaferli ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar og fjármálastjórn Friðriks Sophussonar, hæstv. ráðherra. Og það þarf satt að segja alveg ótrúlega óskammfeilni til þess að koma hér í ræðustól og lýsa ástandinu sem gífurlegum bata, góðu jafnvægi, traustum grunni fyrir framtíðina og annað af því tagi sem ráðherrarnir hafa notað.
    Ég hef tekið eftir því að þegar einstökum þingmönnum hefur verið sagt það að hreinar skuldir hins opinbera hafi tvöfaldast á þessu kjörtímabili þá verða menn undrandi. Þetta á við hvort heldur eru teknar heildarupphæðirnar eða hlutfall af vergri landsframleiðslu. Það er mjög athyglisvert að á árunum 1989, 1990 og 1991 var hlutfall hreinna skulda hins opinbera af vergri landsframleiðslu stöðugt. Á bilinu 16,4--17,4% öll þrjú árin í tíð síðustu ríkisstjórnar. En á árinu 1993 er það komið upp í 30,8% og verður samkvæmt fjárlagafrv. í ár 34,1% og 35,2% á næsta ári, þ.e. um tvöföldun á hlutfalli hreinna skulda hins opinberra af vergri landsframleiðslu hjá þessari ríkisstjórn. Og heildarskuldir hins opinbera, eins og ég rakti hér fyrr í dag, hafa aukist úr 177 milljörðum 1991 í 247 milljarða á næsta ári og hreinar skuldir hins opinbera úr 85 milljörðum 1991 í 156 milljarða á næsta ári. Þetta eru hrikalegar tölur. Þær sýna að fjmrh., sem kemur fram með sitt síðasta fjárlagafrv. á kjörtímabilinu, getur ekki með nokkrum hætti haldið því fram að hann hafi verið að leggja hér traustan grunn fyrir næstu ríkisstjórnir til að byggja á. Það verður satt að segja risavaxið verkefni fyrir næstu ríkisstjórn að snúa við þeirri stórfelldu skuldasöfnun hjá hinu opinbera sem viðgengist hefur í tíð þessarar ríkisstjórnar og hefur satt að segja verið helsta stjórntæki ríkisstjórnarinnar. Að því leyti eiga bæjarstjórinn fyrrv. í Hafnarfirði á síðasta kjörtímabili og öll núv. hæstv. ríkisstjórn það sameiginlegt að beita fyrst og fremst stórfelldri skuldasöfnun sem hagstjórnartæki.
    Og forsrh. og fjmrh. og reyndar umhvrh. líka hafa í umræðum verið að hæla sér af því að erlend skuldastaða hafi batnað. Það á ekki við um skuldastöðu ríkisins því það kemur greinilega fram í fjárlagafrv. að á árunum 1989--1991 er hlutfall erlendra lána hins opinbera af vergri landsframleiðslu, þ.e. ríkissjóðs, á bilinu 17,1--17,9% þessi þrjú ár. En það hefur vaxið þannig að á árinu 1993 er það komið upp í tæp 25% og er örugglega orðið rúm 26% á þessu ári. Þannig að þessi ríkisstjórn hefur haldið áfram að beita erlendum lántökum ríkisins sem hagstjórnartæki.
    Og halda menn virkilega að þjóðin og þingheimur sé svo einföld að það dugi að telja inn gjaldeyristekjurnar af Smuguveiðunum, loðnuveiðum og öðru slíku og halda fram þessari frægu 23 milljarða tölu hér í umræðu? Þar með er verið að slá hulu yfir hina stórkostlegu erlendu skuldasöfnun ríkisins á þessu tímabili. Það er alveg sama á hvaða mælikvarða er litið, samanlagðan halla, hreinar skuldir ríkisins, heildarskuldir ríkisins, hlutfall skulda ríkisins af vergri landsframleiðslu eða erlendar lántökur og erlendar skuldir ríkissjóðs, bæði í heildartölum og hlutfalli af vergri landsframleiðslu, alls staðar hefur á kjörtímabilinu orðið risavaxin aukning. Það er þess vegna alveg ljóst, því miður, að það verður, eins og ég sagði áðan, risavaxið verkefni fyrir nýja ríkisstjórn að glíma við þessa arfleifð. Og það er ekkert fagnaðarefni að þjóðin skuli við lok þessa kjörtímabils fá þetta í arf. En það eru staðreyndirnar, hæstv. fjmrh. og hv. stuðningsmenn þessarar ríkisstjórnar, sem blasa við úr þessu fjárlagafrv. Það væri hægt að rekja hér miklu fleiri tölur um þessa skuldaþætti til þess að sýna fram á þennan veruleika.
    En hefur þá tekist að ná árangri í rekstri ríkissjóðs í einhverjum umtalsverðum sparnaði, sem hæstv. fjmrh. hefur nokkuð oft gert að umræðuefni? Því miður blasir það sama við þar. Á verðlagi ársins 1994 voru rekstrargjöld ríkisins á árunum 1989--1990 44 milljarðar. Þeir verða á þessu ári og á næsta ári 45 milljarðar, voru á árinu 1991 47 milljarðar. Þannig að ef skoðuð eru árin 1988, 1989 og 1990 þá hefur enginn árangur náðst í að minnka ríkisútgjöldin hjá þessari hæstv. ríkisstjórn. Það er aðeins með því að taka þetta eina ár, 1991, sem þau geta fundið einhverja smávægilega breytingu. Þannig að ef borin eru saman heilu árin hjá þessari ríkisstjórn og síðustu ríkisstjórn þá hefur ekki orðið sparnaður í ríkisútgjöldum. Og ef skoðaðar eru tilfærslurnar, jú, þá hefur þar orðið sparnaður. En í hverju felst hann? Hann felst í því að á þessu kjörtímabili hefur komið til framkvæmda þriggja milljarða sparnaður á útgjöldum til landbúnaðarmála sem byggður var á búvörusamningnum sem gerður var í tíð síðustu ríkisstjórnar. Þessi ríkisstjórn hefur þess vegna ekki náð neinni umtalsverðri aðgerð til sparnaðar í ríkisútgjöldum á öllu kjörtímabilinu sem samsvarar þeim sparnaði af útgjöldum til landbúnaðarmála sem lagður var grundvöllurinn að í tíð síðustu ríkisstjórnar.
    Það er staðreyndin ef horft er yfir kjörtímabilið að það er ekki hægt að finna eitt einasta umtalsvert tilvik um eðlisbreytingar í ríkiskerfinu samanborið við búvörusamninginn sem gerður var í tíð síðustu ríkisstjórnar. Ég skora á stuðningsmenn þessarar ríkisstjórnar að benda á eitt einasta atriði sem ákveðið hefur verið á þessu kjörtímabili sem felur í sér umtalsverðan kerfisbundinn sparnað hjá hinu opinbera sem sé varanlegur samkvæmt fráganginum sjálfum.
    Á sama tíma gerist það svo að fjmrh. Sjálfstfl., ríkisstjórn undir forsæti Sjálfstfl., flokks sem lofaði landsmönnum umtalsverðri skattalækkun einstaklinga fyrir síðustu kosningar, kemur hér við lok kjörtímabilsins og skilur eftir sig nánast lýðveldismet í skattlagningu einstaklinga. Það er alveg rétt að skattar á fyrirtækjum hafa verið minnkaðir. En loforð Sjálfstfl. og Alþfl. fyrir síðustu kosningar var fyrst og fremst að lækka skattana á einstaklingum.
    Þegar allar þessar staðreyndir eru reiddar fram um skuldirnar, um rekstrarútgjöldin, um tilfærslurnar, um erlendu lántökurnar, um metin í skattlagningu einstaklinga, þá er reynt að tala um þorskinn og að það hafi ekki orðið álver. Hæstv. fjmrh. var varaður við, m.a. af þeim sem hér stendur, þegar hann lagði fram sitt fyrsta fjárlagafrv., að hann væri að byggja það á fölskum forsendum þegar hann reiknaði með álveri. Það var okkur öllum orðið ljóst fyrir síðustu alþingiskosningar að það væri í meira lagi hæpið að einhverjar líkur væru á því að hin erlendu fyrirtæki mundu reisa hér álver. Það sögðum við í okkar kjördæmum fyrir síðustu þingkosningar, bæði ég og þáv. hæstv. forsrh. Steingrímur Hermannsson, hlutum ekki vinsældir fyrir í okkar kjördæmum, en það var raunsætt mat. Fjmrh. sem fór síðan að byggja sitt fjárlagafrv. á slíkum falsvonum reyndist ekki byggja það á traustum grunni og þess vegna þýðir ekkert að koma hér og skjóta því fyrir sig sem afsökun, vegna þess að hann var varaður við, honum var sagt að það væri falskur grundvöllur að byggja fjárlagafrv. á því.
    Hin vörnin er þorskurinn, en þá ber að geta þess að það hefur ekki orðið nein umtalsverð lækkun í tekjum þjóðarbúsins af verðmæti sjávarafurða á þeim árum sem hér eru til umræðu vegna þess að sem betur fer hefur loðnan, Smuguveiðarnar, rækjan og úthafskarfinn komið þar á móti, ásamt traustari framleiðsluháttum og meiri arðsemi í rekstri sjávarútvegsfyrirtækja.
    Síðan eru það vextirnir. Í sporum hæstv. fjmrh. hefði ég ekki talað um vextina hér í dag, því hvað segir þetta fjárlagafrv. um vextina? Það segir, að vísu í ekki löngu máli en engu að síður mjög skýrt: Hæstv. fjmrh. og ríkisstjórn hefur mistekist að selja verðbréf ríkisins á frjálsum markaði. Hæstv. fjmrh. hælir sér af því að það sé ekki lengur yfirdráttarlán hjá ríkissjóði í Seðlabankanum. En ég spyr hæstv. fjmrh.: Er einhver eðlismunur á því að taka yfirdráttarlán í Seðlabankanum upp á 9 milljarða og Steingrímur Hermannsson og Birgir Ísl. Gunnarsson séu síðan aðalkaupendurnir að ríkisbréfunum sem ráðherrann er að reyna að selja? Vegna þess að Seðlabankinn hefur á þessu ári keypt 9 milljarða, 9 milljarða sem Seðlabankinn hefur keypt á þessu ári af ríkisvíxlum og ríkisbréfum af fjmrn. Og þessi sami hæstv. fjmrh., sem kemur hér og reynir að tala um stöðugleika og markaðsárangur í sölu ríkisbréfa, mætir þeirri staðreynd að þetta er nákvæmlega sama tala og hann fordæmdi mig hér úr þessum ræðustól með stórum orðum mánuð eftir mánuð á fyrsta þingi þessa kjörtímabils fyrir að vera með 9 milljarða yfirdrátt í Seðlabankanum þegar núv. fjmrh. tók við. ( Fjmrh.: Það eru rúmir 10.) Já, þó að það séu rúmir 10 hæstv. ráðherra. En ráðherra, sem hefur orðið að láta Seðlabankann hinum megin við götuna kaupa af sér nánast obbann af öllum bréfunum sem hann hefur verið að gefa út, er í raun og veru að segja það að markaðurinn neitar að skipta við hann.
    Og það er meira en þetta. Seðlabankinn hefur líka orðið að kaupa 4 milljarða af húsbréfunum vegna þess að það hefur enginn annar keypt húsbréfin eða með öðrum orðum Seðlabankinn hefur á þessu ári keypt fyrir 13 milljarða þá ríkispappíra sem fjmrn. sjálft eða Húsnæðismálastofnun hafa verið að reyna að koma út.
    Þannig að vaxtastefna og markaðsstefna ríkisstjórnarinnar varðandi vextina er auðvitað gersamlega sprungin. Ef þetta hefðu verið hinir frjálsu kaupendur á hinum frjálsa markaði sem hefðu keypt fyrir þessa 9 milljarða, þá hefði maður sagt: Gratulera, hæstv. fjmrh. En að fara bara yfir götuna með ríkisbréfin í hjólbörum til Steingríms Hermannssonar og Birgis Ísl. Gunnarssonar, það er ekki mikill árangur. Það er einfaldlega yfirlýsing um að það er ekki nokkur maður sem ber traust til þessarar efnahagsstefnu á markaðnum sjálfum. Þannig að 9 milljarðarnir og 4 milljarðarnir sem hafa verið að hlaðast upp í Seðlabankanum eru vantraustsyfirlýsing markaðarins á vaxtastefnu og fjármálastefnu þessarar ríkisstjórnar.
    Það vantraust birtist líka í öðru. Það birtist í því, ef ég man rétt, að 5--6 milljarðar hafa streymt hér út úr landinu í fjármagni sem menn hafa varið á erlendum mörkuðum til þess að kaupa erlend verðbréf, mun stærri upphæð en nokkurn óraði fyrir. Og hvað gerist svo um áramótin þegar algerlega verður opnað fyrir? Þá heldur auðvitað fjármagnið áfram að streyma út, enda er svo komið núna að Sigurður B. Stefánsson, einn helsti kunnáttumaðurinn á peningamarkaðnum, spáði í fyrradag verulegri vaxtahækkun, að vísu á skammtímamarkaði, en það breytir satt að segja, því miður, mjög litlu. Það er þess vegna alveg ljóst að þessi skuldasöfnun ríkisstjórnarinnar, mistökin í framkvæmd vaxtastefnunnar, getuleysið í að selja markaðsbréf ríkisins hafa leitt til þess að vextirnir munu hækka á næstunni. (Gripið fram í.) Hvað mikið, það skulum við ekki fullyrða hér í þessum sal. En ég ráðlegg hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh. að tala varlega um vextina, tala varlega um árangurinn af markaðssölu ríkisbréfanna. Það getur vel verið að það sé hægt

að berja hér einhverja þingmenn Sjálfstfl. og Alþfl. til þess að greiða atkvæði gegn vantrausti á þessa ríkisstjórn, en markaðurinn hefur nú þegar greitt atkvæði með vantrausti á hana.
    Nú er fjmrh. að bjóða ECU-bréf og auglýsir þau sérstaklega með því að birta mynd af erlendri belju í Morgunblaðinu dag eftir dag. Ég vil spyrja hæstv. fjmrh.: Þegar farið er að selja ríkispappírana í ECU-mynt, er það ekki bara erlend lántaka alveg eins og þegar verið er að taka lán í dollurum eða pundum? Auðvitað vegna þess að slík bréf lúta sömu lögmálum og erlendar lántökur. Þegar gengið fellur, þá aukast skuldirnar, en ef lánin eru í íslenskri mynt, þá aukast þær ekki þó að gengið falli. Og þegar gjaldbreytingar verða á frankanum og markinu og öðrum slíkum evrópskum myntum þá breytist líka hlutfallið innan ECU. Þannig að fjmrh. sem ætlar að nota ECU-bréfin til þess að greiða til baka hluta af 9 milljörðunum sem Seðlabankinn er búinn að kaupa fyrir fram á þessu ári er bara einfaldlega að fara bakdyrnar og auka erlendu skuldirnar með þessum hætti.
    Hæstv. fjmrh. Friðrik Sophusson ætti satt að segja að temja sér meiri hógværð í umræðu um efnahagsstefnu þessarar ríkisstjórnar og vaxtaviðskilnaðinn.
    Virðulegi forseti. Því miður er það þannig að þau tímamörk sem hér eru sett leyfa ekki fleiri atriði af þessu tagi. Ég vil þó aðeins nefna það að lokum að alls staðar þar sem menn eru að skoða efnahagslegar framfarir, alls staðar þar sem menn eru að greina hagvöxt, og að því leyti er þessi skýrsla Alþjóðabankans um efnahagsárangurinn í Asíu mjög merkileg og reyndar einnig tillögugerð Alþb. sem er sprottin af sama toga, er niðurstaðan sú að fjárfesting í menntun og almenn fjárfesting sé meginforsenda þess að menn geti bætt lífskjörin og aukið hagvöxt. Hvort tveggja er skorið niður í þessu fjárlagafrv. og samkvæmt efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar. Í þessu fjárlagafrv. er því verið að vega að þeim tveimur meginundirstöðum sem helstu sérfræðingar á alþjóðavettvangi eru sammála um að eru meginforsenda framfara. Svo kemur hæstv. fjmrh. og talar um það sem staðreynd að hallinn á næsta ári verði 6 milljarðar og segir að þetta séu ekki kosningafjárlög.
    Ég var á fundi Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sl. laugardag, hæstv. fjmrh. Þar reis upp hver forustumaðurinn frá Sjálfstfl. á fætur öðrum og fordæmdi ákvæðið um sveitarfélögin í þessu fjárlagafrv. Þar eru nú 700 millj. í viðbót eða 600.
    Síðan er reiknaður í þessu fjárlagafrv. 2% sparnaður í öllum ráðuneytum, svokallaður flatur niðurskurður. Það er nú einfaldasta trikkið í bókinni að gefa sér einhver 2% og reikna þau svo inn í allt fjárlagafrv. eins og það sé í hendi. Það eru engin rök færð fyrir því í þessu frv. að slíkur niðurskurður sé í hendi.
    Ef horft er á óraunhæfni þessara 2%, á framgönguna við sveitarfélögin, loforðið gagnvart verkalýðshreyfingunni, að ógleymdu heilbrrn., þá má þakka fyrir ef hallinn á næsta ári verður undir 9--10 milljörðum.