Fjárlög 1995

6. fundur
Þriðjudaginn 11. október 1994, kl. 17:41:13 (208)


[17:41]
     Halldór Ásgrímsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það var mjög athyglisvert sem hv. þm., Ingi Björn Albertsson, sagði hér áðan. Hann sagði: Við vissum að sjálfsögðu að þetta mundi auka skattsvikin. Við vissum að skilvirknin mundi minnka. Ætlar þessi hv. þm. að gerast fulltrúi skattsvikaranna í landinu? Ef það er sannað að skattsvik aukast með flóknara kerfi, vill hann viðhalda því? Vill hann viðhalda því fólki í störfum sem er að fylgjast með þessum tveimur þrepum? Það er staðfest í skýrslu Ríkisendurskoðunar að það hafa verið ráðnir í það 14 menn bara til að fylgjast með því. En það var sagt hér í annarri skýrslu að það þyrfti 23--26. Það er vitað mál að þetta fólk gæti fylgst með öðru. Það gæti verið með í því að uppræta skattsvikin, þessa 11 milljarða. Það þýðir ekkert fyrir hv. þm. að koma hér ár eftir ár, berja sér á brjóst og segja: Við viljum uppræta skattsvik, en vilja síðan gera skattkerfið flóknara og flóknara.
    Ég vil aðeins benda hv. þm. á eitt. Það stendur í fjárlagafrv., sem mér skilst að hann styðji, af því að hann styður núv. ríkisstjórn:
    ,,Þyngst vegur að undanþágurnar eru fleiri en að var stefnt í upphafi og horfið hefur verið frá því grundvallarmarkmiði að hafa aðeins eitt skattþrep, a.m.k. um sinn. Þessar breytingar hafa óneitanlega dregið úr skilvirkni kerfisins og gert framkvæmdina erfiðari en ella. Það er óumdeit að í skattalegu tilliti er eitt þrep og sem fæstar undanþágur æskilegasti kosturinn.``
    Þetta er fjárlagafrv., hv. þm., sem hér er borið fram. Og ég segi það fyrir mig að auðvitað eigum við að taka upp það kerfi sem gefur mesta jöfnun, mesta skilvirkni og mest réttlæti og það er alveg vitað að það er eitt þrep, hvað svo sem hv. þm. segir.