Fjárlög 1995

6. fundur
Þriðjudaginn 11. október 1994, kl. 17:45:57 (210)


[17:45]
     Halldór Ásgrímsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég kannast nú ekki við þessar græjur sem menn geta keypt á kontórum íhaldsins hér í bænum. En mér heyrist nú að hv. þm. hafi a.m.k. hætt að nota þessi tæki, ef hann hefur einhvern tíma fengið þau ókeypis hjá flokknum. En trúlega hefur það verið tekið af honum eins og margt annað í þessum íhaldsflokki.
    Hv. þm. segir: Auðvitað aukast möguleikarnir á skattsvikum. En er það þannig, hv. þm., að ef að möguleikarnir aukast, þá sé það nokkurn veginn víst að enginn muni notfæra sér þá? Hefur hv. þm. ekkert kynnt sér skýrslu skattsvikanefndar? Hefur hann ekkert reynt að fara ofan í það sem þar stendur og hvernig skattvik eru tilkomin í þessu landi? Auðvitað er það m.a. vegna þess að það er alltaf verið að hringla í skattkerfinu og það er alltaf verið að breyta skattalögum. Heldurðu að það hafi ekki haft mikil áhrif að skattkerfið var allt upptekið af þessari breytingu það sem af er árinu? Ég reikna með því að hæstv. fjmrh. geti staðfest það að skattsvik hafa aukist. Auðvitað notfæra menn sér þessa möguleika ef þeir eru til staðar. Þannig að mig undrar það að hv. þm. virðist álíta svo að það sé bara allt í lagi að auka möguleikana á skattsvikum í kerfinu almennt vegna þess að það megi ganga út frá því að allir séu svo heiðarlegir að þeir muni að sjálfsögðu ekki notfæra sér þessa glufu. Ég hélt að hv. þm. vissi betur um ýmsa aðra möguleika á skattsvikum líka sem við ættum öll að þekkja.