Fjárlög 1995

6. fundur
Þriðjudaginn 11. október 1994, kl. 18:01:14 (213)


[18:01]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Það eru nokkrar fyrirspurnir sem hefur verið beint til mín sem ég skal reyna að svara. Hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir ræddi nokkur atriði sem varða menntmrn., kom fyrst að málefnum Háskóla Íslands og spurði hvort ég ætlaði að standa þannig að málum að háskólinn yrði nánast óstarfhæfur. Því er fljótsvarað að ég hef ekki hugsað mér að standa þannig að málum og tel ekki að það sé hægt að lesa það út úr fjárlagafrv. að framlög til háskólans séu þannig að hann verði óstarfhæfur. Framlögin til Háskóla Íslands eru má segja óbreytt frá gildandi fjárlögum yfirstandandi árs. Þess vegna er það rangt sem hv. þm. Guðrún Helgadóttir sagði að framlög til Háskóla Íslands lækkuðu í raun um 66,4 millj. kr., held ég að hún hafi sagt. Það þarf að taka tillit til þess að það er breytt uppsetning vegna sameiningar Landsbókasafns Íslands og Háskólabókasafns í eitt safn þannig að þar er tilfærsla á milli liða. Það færist frá háskólanum sem þýðir í raun að framlögin til Háskóla Íslands eru óbreytt frá gildandi lögum.
    Mér er alveg ljóst að það hefur orðið fjölgun nemenda í Háskóla Íslands sem undir öllum venjulegum kringumstæðum hefði átt að kalla á aukin framlög en Háskóli Íslands verður að búa við það sem aðrir að hagræða í rekstri vegna þess ástands sem enn ríkir í okkar efnahagsmálum. Ég hef minnst á það stundum áður í þessari umræðu þegar fækkun hefur orðið á nemendum á milli ára í Háskóla Íslands sem hefur orðið á þessu kjörtímabili að þá hefur aldrei verið talað um lækkun til Háskóla Íslands þess vegna. Það hefur ekki verið gert.
    Hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir nefndi einnig Lánasjóð ísl. námsmanna, að það væri gert ráð fyrir skerðingu á ríkisframlaginu um 50 millj. sem er rétt og spurði hvort ég mundi beita mér fyrir auknu fjármagni til lánasjóðsins. Á þessu stigi málsins get ég ekki svarað því öðruvísi en svo að ég reikna með að framlagið verði eins og gert er ráð fyrir í fjárlagafrv. Það stendur hins vegar yfir athugun á sjóðnum, það er Hagfræðistofnun háskólans sem annast þá úttekt og það hefur verið litið svo á að þetta framlag gæti lækkað án þess að námsaðstoðin verði skert. Það má vel vera að þetta kalli á aukna lántöku og það er nú einu sinni svo að hag sjóðsins er þannig komið núna eftir þær breytingar sem gerðar hafa verið á þessu kjörtímabili að hann mundi þola kannski á einu ári og jafnvel lengri tíma meiri lántökur en gert hefur verið ráð fyrir. Hins vegar er unnið að ýmsum öðrum atriðum í sambandi við sjóðinn, t.d. lækkun lántökukostnaðar sem hefur veruleg áhrif á hag sjóðsins. Lántökukostnaður sjóðsins eru óeðlilega hár vegna þess að hann hefur þurft að borga ábyrgðargjald til ríkisábyrgðasjóðs sem er talið óeðlilegt og sjóðurinn eigi að losna undan. Þannig að þetta er eitt með öðru sem haft er í huga þegar gert er ráð fyrir að ríkisframlög

geti lækkað um 50 millj. til lánasjóðsins.
    Hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir kom einnig að málum grunnskólans og nefndi að það sæist ekki í fjárlagafrv. að flytja ætti grunnskólann til sveitarfélaganna 1. ágúst 1995 eins og gert er ráð fyrir í frv. til nýrra grunnskólalaga sem lagt verður fyrir Alþingi nú á næstu dögum eða vikum.
    Það þarf í sjálfu sér engum að koma á óvart þótt í fjárlagafrv. sé gert ráð fyrir óbreyttri þátttöku ríkisins í rekstri grunnskólans. Það verður hins vegar tekið til endurmats ef ný grunnskólalög verða samþykkt fyrir afgreiðslu fjárlaga. Ef svo verður hins vegar ekki en grunnskólalög yrðu samþykkt fyrir þinghlé í vetur þá sé ég ekki að það þyrfti að hafa svo mikla erfiðleika í för með sér þótt ekki sé búið að breyta skattalögum sem þarf að breyta vegna aukinnar þátttöku sveitarfélaganna í staðgreiðslunni. Þá má hugsa sér að þetta mál yrði leyst á árinu 1995 með hliðstæðum hætti og leyst voru málin þegar aðstöðugjald var fellt niður og ríkissjóður greiddi beint til sveitarfélaganna það sem ætlað var að þau hefðu innheimt í aðstöðugjaldi. Á sama hátt sé ég það fyrir mér að ríkissjóður mundi greiða beint til sveitarfélaganna kostnaðinn við rekstur grunnskólans síðari hluta ársins 1995 þannig að menn mega ekki mikla það fyrir sér að það sé eitthvað óleysanlegt vandamál. Svo er ekki.
    Hv. þm. talaði um að enn væri reiknað með skerðingu á framlögum til skólamála. Það er ekki rétt. Þvert á móti er reiknað með aukningu og sú aukning kemur fyrst og fremst fram í kennsluliðunum. Í grunnskóla aukast framlög um nær 200 millj. kr. og á framhaldsskólastiginu um yfir 70 millj. Að hluta til stafar þetta af auknum nemendafjölda í einstökum árgöngum. Það eru að koma inn stórir árgangar núna, bæði í grunnskóla og framhaldsskóla, og til þess er tekið tillit í fjárlagafrv. En einnig er bætt við kennslustundum í grunnskólanum, það er bætt við sex kennslustundum á þessu hausti, á nýju skólaári var bætt við sex kennslustundum og gert er ráð fyrir að bætt verði sex kennslustundum við á næsta skólaári og þá hefur verið skilað aftur þeim 12 stundum sem kennsla var skert um 1992 í þeim sérstöku aðhaldsaðgerðum sem þá áttu sér stað.
    Hv. þm. minntist einnig á listskreytingasjóð en það er ekki gert ráð fyrir neinu framlagi til hans í fjárlagafrv. Mér er alveg ljóst að þetta veldur vonbrigðum. Það er tekið fram í athugasemdum við fjárlagafrv. að ætlunin sé að endurskoða lög um listskreytingasjóð og ég vona að menn geti verið sammála um það að lögin um listskreytingasjóð þola endurskoðun og eiga hana skilið, m.a. vegna þess að það sem ætlað var með lögunum um listskreytingasjóð hefur aldrei náð að fullu fram að ganga. Hann hefur verið skertur, að vísu ekki mjög mikið, en hann hefur verið skertur á undanförnum árum eins og svo sem margir og jafnvel flestir aðrir sjóðir.
    Ég held að þegar af þessari ástæðu að það hefur ekki náð fram að ganga sem ætlað var með lögunum um listskreytingasjóð sé ástæða til þess að endurskoða hann. Það sem ég vildi sjá í þessari endurskoðun er að hverri opinberri byggingu verði tryggt fjármagn einmitt til listskreytingar. Það er ekki svo í dag. Núna fara umsóknir frá þeim, sem standa fyrir opinberum byggingum, til stjórnar listskreytingasjóðs sem er skipuð þremur mönnum, ef ég man rétt. Ég er ekkert sannfærður um að það sé eina rétta skipulagið. Við höfum reynt það og það má vel vera að menn komist að þeirri niðurstöðu að best sé að hafa þetta miðstýrt frá þriggja manna stjórn. Ég sé fyrir mér annan möguleika: að haldið sé eftir tiltekinni prósentu af byggingarkostnaði hverrar einustu opinberrar byggingar og þannig tryggt að hver einasta opinber bygging verði skreytt með einum eða öðrum hætti listaverkum. Hvort það sé heppilegast að ákvarðanir um listskreytingar verði teknar á hverjum stað, hjá hverjum og einum sem stendur fyrir byggingunni heima í héraði, ef ég má orða það svo, það er leið sem mér finnst sjálfsagt að verði athuguð. Ég get séð fyrir mér að það tryggir enn betur heldur en þetta fyrirkomulag sem við búum við að listskreytingar verði í öllum opinberum byggingum.
    Hv. þm. minntist svo á Landsbókasafn -- Háskólabókasafn, hið nýja sameinaða safn og talaði þar um eignarskattsaukann sem nú er reyndar orðinn fastur í sessi með lögum frá 1989 um endurbótasjóð. Þessi skattur hefur runnið að langmestu leyti óskertur til Þjóðarbókhlöðunnar eins og lögin segja raunar að hann eigi að gera þar til framkvæmdum við Þjóðarbókhlöðu er lokið. Nú sjáum við fyrir endann á þeirri framkvæmd. Þjóðarbókhlaða verður vígð þann 1. desember nk. Það lá hins vegar ljóst fyrir þegar fjárlög voru afgreidd fyrir yfirstandandi ár að endurbótasjóðurinn nægði ekki til þess að greiða þann kostnað sem félli á Þjóðarbókhlöðuna á þessu ári. Það var gert ráð fyrir að það þyrfti að bæta við þar 230 millj. ef ég man rétt, fremur en 250, ég held það hafi verið 230 millj. Sú upphæð verður að renna til Þjóðarbókhlöðu af endurbótasjóðnum á árinu 1995. En eftir það verður hægt að beina þessum fjármunum í aðrar menningarbyggingar sem svo sannarlega eru margar og þarfnast verulegra fjármuna. Ég nefni nú bara þær stofnanir sem byrja á þjóð, það er einkum þær sem eru í mestum vandanum, Þjóðleikhús, Þjóðminjasafn, Þjóðskjalasafn og áfram mætti telja. Þarna er um að ræða milljarða króna sem þörf er á að leggja í þessar byggingar. Og ekki bara þessar, þær eru fleiri sem þarna er um að ræða. Þannig að verkefnin fyrir endurbótasjóð eru mörg á komandi árum.
    Auðvitað er gert ráð fyrir að það þurfi að bæta við starfsliði í hinu sameinaða safni því þarna er auðvitað ætlunin að bæta alla þjónustu. Þess vegna var lagt í þetta viðfangsefni fyrir að vísu allt of mörgum árum. Það hefur auðvitað verið ljóst frá fyrstu tíð að það mundi kosta meira að flytja inn í byggingu sem er rúmlega 11 þús. fermetrar úr byggingum sem voru rúmir 3 þús. fermetrar ef ég man rétt, sameinuð Landsbókasafn og Háskólabókasafn. Það liggur í augum uppi að þetta mun kosta aukna fjármuni og

meiri þegar þetta er allt komið í fullan rekstur en gert er ráð fyrir í þessu fjárlagafrv., það er alveg ljóst. En þarna verðum við, sem víða annars staðar að taka mið af getu okkar núna, og þetta verður að eiga sér stað á einhverjum árum þessar auknu fjárveitingar sem þarf að veita til hins nýja Landsbókasafns -- Háskólabókasafns.
    Hv. þm. Guðrún Helgadóttir minntist á að hið nýja Rannsóknarráð Íslands það fengi sömu upphæð og áður. Það er rétt að sjóðirnir sem nú eru vistaðir hjá hinu nýja Rannsóknarráði voru áður hjá Rannsóknaráði ríkisins og Vísindaráði. Það er gert ráð fyrir að þeir sjóðir fái sömu upphæð og áður. En ég minni bara á það, fyrst verið er að gagnrýna það núna, að ekki sé um aukningu að ræða frá árinu 1994--1995, að frá árinu 1992 á þessu kjörtímabili þá nær tvöfaldaðist rannsóknasjóður Rannsóknaráðs ríkisins úr 110 millj. í 200 millj. á yfirstandandi ári. Það er gert ráð fyrir að hann fái, sjóður sem nú heitir að vísu Tækja- og byggingasjóður ef ég man rétt, en er gamli rannsóknasjóðurinn, hann fái sömu upphæð, 200 millj. kr. Það er unnið að áætlunum um að efla hinn gamla Vísindasjóð sem hefur tekjur sínar fyrst og fremst úr arðsjóði Seðlabankans, aðeins 25 millj. af fjárlögum, sú upphæð er óbreytt.
    Ég sé það fyrir mér að það mætti sjá meira fé renna úr arðsjóði Seðlabankans til rannsókna- og vísindastarfa. Og ég mun beita mér fyrir því í samvinnu við hæstv. viðskrh. ( GHelg: Ég legg til að dalurinn verði seldur.) Já, það er sjónarmið. Það er Holtsdalurinn, er það ekki? Ekki veit ég hvað fengist fyrir hann.
    Hv. þm. nefndi einnig Þjóðminjasafnið og ég held ég hafi skilið hv. þm. þannig að það væri gagnrýnivert að ekki væri varið meiru fé til viðhalds safnhússins við Suðurgötu en nú væri gert. Ég minni líka á í því samhengi að aldrei fyrr hefur verið varið jafnmiklum fjármunum til viðhaldsframkvæmda við Þjóðminjasafnshúsið við Suðurgötu en á undangengnum árum. En það er rétt að það er ekki varið jafnmiklu samkvæmt frv. núna eins og á þessu og síðasta ári. En það er unnið þarna af meira afli en áður hefur verið gert og þörfin er mikil. Því fer víðs fjarri að þetta hús hafi verið þannig úr garði gert að það réttlæti það að þar séu geymdir mestu dýrgripir okkar. Þess vegna er það sem núverandi ríkisstjórn hefur brugðist við og varið verulegum fjármunum til þessa húss.
    Þá minntist hv. þm. á niðurskurðinn á Kvikmyndasjóði sem hefur valdið mikilli ókyrrð og ég er svo sem ekkert hissa á því. Það er vissulega slæmt, ég viðurkenni það fúslega, það er vissulega slæmt að þurfa að skerða framlögin til Kvikmyndasjóðs vegna þess að þarna er verulegur vaxtarbroddur í okkar menningarlífi. Það er rétt sem hefur verið dregið fram í þessari umræðu að hin mikla gróska sem hefur verið í kvikmyndagerð á undanförnum árum hún hefur dregið inn verulegt fjármagn erlendis frá, einkum frá tveimur kvikmyndasjóðum, Eurimages og Norræna kvikmyndasjóðnum, og svo frá öðrum sem hafa fjármagnað kvikmyndir sem gerðar hafa verið af Íslendingum og hér heima að mestu leyti. Þetta er alveg rétt. Menn mega hins vegar ekki mála þetta svona dökkum litum eins og allt sé að hrynja vegna þess að Kvikmyndasjóður sé skertur á árinu 1995. Skerðingin er þó ekki meiri en svo að þetta framlag ríkisins er lítið eitt lægra heldur en var á árinu 1991, það er lítið eitt lægra. Það er ekki eins og þetta sé að gerast í fyrsta sinn, að það sé verið að skerða Kvikmyndasjóð. Ég er ekki að segja að það sé einhver sérstök málsvörn. En í guðs bænum ekki tala um þetta eins og þetta sé að gerast í fyrsta sinn. Ég athugaði framlögin nokkur undanfarin ár. Ég tók þau þrjú ár sem ég hef haft afskipti af fjárlagagerðinni og hvað rennur í Kvikmyndasjóð. Á síðustu þremur árum, þau ár sem ég hef haft afskipti af þessu, hefur Kvikmyndasjóður fengið yfir 302 millj. en skerðingin er liðlega 30 millj. á þessum þremur síðustu árum, 1992--1994. Skerðingin er liðlega 30 millj. kr. en framlögin 302 millj. Á þremur árum þar á undan, sem ég réði nú engu um, voru framlögin 229 millj. en skerðingin 80 millj. Ég man nú eftir að --- jú það var fundið að þessu --- en ekki með þeim látum sem nú hafa verið. Ég man ekki eftir því að menn hafi talið þá að allt væri að hrynja þótt skerðingin væri margfalt meiri. Meira að segja þó það yrði bætt við fjórða árinu sem ég hef afskipti af þessu ef þetta verður eins og frv. gerir ráð fyrir þá næ ég ekki skerðingunni sem var á síðustu árum forvera míns, ég næ henni ekki. Það tosast kannski upp í 75 millj. kr. skerðingu á fjórum árum á móti 80 millj. á þremur árum. Þetta bið ég menn að hafa í huga.
    Ég er ekkert að setja þetta fram sem einhverjar sérstakar málsbætur fyrir skerðingunni núna, hún er vond, ég viðurkenni það. Ég hefði gjarnan viljað sjá að sjóðurinn gæti orðið óskertur sem hann hefur aðeins einu sinni verið. Aðeins einu sinni hafa framlög til Kvikmyndasjóðs verið óskert á fjárlögum og það var árið 1993, 111 millj. kr. átti framlagið að vera og það varð 111 millj. kr. Það er eina skiptið í sögu sjóðsins sem hann hefur ekki verið skertur.
    Þá að lokum listi yfir ráðstöfunarfé ráðherra sem ég er búinn víst alveg óvart að gera að einhverju óskaplega spennandi máli í þjóðfélaginu. Það er nú ekki aldeilis. Ég býst við að menn verði fyrir óskaplega miklum vonbrigðum þegar listinn verður birtur, því ég ætla auðvitað að birta hann. En mér fannst á hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur, sem á sæti í fjárln., eins og fjárln. hefði bara aldrei séð hvernig þessum lið í fjárlögunum er varið. Fjárln. hefur á hverju ári beðið mig um yfirlit og að sjálfsögðu hefur fjárln. fengið þetta yfirlit. Og núna hins vegar er þetta fréttamatur að fjárln. biður ráðherrana um greinargerð um þetta ráðstöfunarfé. Það er ekki nýtt, það hefur alltaf verið gert. Ég taldi mig hafa svarað þessu nægilega vel í fréttatilkynningu frá ráðuneytinu að af þessum 18 millj. hef ég ráðstafað 12 millj. núna þann 1. okt. og dreift því á aðra safnliði ráðuneytisins. Það er það sem er öðruvísi í menntmrn. en hjá öðrum ráðuneytum að það eru margir safnliðir í menntmrn. sem eru allt of naumt skammtaðir og þetta ráðstöfunarfé ráðherra fer til þess að bæta upp þessar naumu fjárveitingar. Þannig hefur þessu verið varið og það er hrein tilviljun hverjir lenda á þessum lista yfir styrki af ráðstöfunarfé ráðherra. Það eru þeir sem hafa ekki verið afgreiddir meðan hinir safnliðirnir voru enn þá til. Þetta er ástæðan. Ég býst við að menn séu að bíða eftir einhverjum hneykslismálum frá menntmrn., að ég sé að verja ráðstöfunarfé ráðherra í menntmrn. til einhverra alls óskyldra verkefna heldur en heyra undir menntmrn., en það er ekki svo. Það mun koma í ljós því ég ætla að svipta hulunni af þessum mikla leyndardómi og ég vona að ég geti gert það á morgun.