Fjárlög 1995

6. fundur
Þriðjudaginn 11. október 1994, kl. 18:28:37 (219)


[18:28]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er út af fyrir sig rétt að kostnaður á nemanda í Háskóla Íslands segir ekki allt. En það er auðvitað ein talan sem hægt er að miða við. Það liggur hins vegar fyrir hver er skoðun Háskóla Íslands sjálfs á því hvað hann þurfi í minnsta lagi til að halda uppi þó þeim gæðum í háskólakennslunni sem um var að ræða á síðasta námsári og það eru 75 millj. kr. til viðbótar við það sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrv. Og ég fagna því að hæstv. menntmrh. opnar í raun og veru fyrir það í sínu svari hér áðan að fjárln. taki myndarlega á því máli og reyndi að bæta þarna nokkru við. Því það er alveg ljóst að Háskóli Íslands þolir ekki áframhaldandi niðurskurð með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrv.