Fjárlög 1995

6. fundur
Þriðjudaginn 11. október 1994, kl. 18:31:42 (222)


[18:31]
     Finnur Ingólfsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það kann vel að vera að ég hafi ekki haft alveg nákvæmlega rétt orðalag eftir hæstv. menntmrh. en það gildir nú einu af þeirri ástæðu að hann er í raun og veru að segja það hér enn í sinni annarri ræðu við þessu andsvari að það standi til að láta Lánasjóð ísl. námsmanna taka lán til þess að standa undir framfærslu námsmanna á næsta ári. Það er nú hins vegar svo að ríkisframlagið sem hefur farið til þessa sjóðs á undanförnum árum hefur verið einmitt til þess að lánasjóður þyrfti ekki að taka lán undangengin síðustu tvö ár. Það hefur enginn afgangur verið og þá eru menn að fara í sama farið og hæstv. menntmrh. sagði að aldrei yrði farið. Ég er því miður ekki með ræðu hans hér alla sem hann hélt í þessu máli á sínum tíma fyrir framan mig, en það má fletta upp í þeim í þingtíðindum frá þeim tíma, þar sem hæstv. menntmrh. sagði að það yrði aldrei farið í þann farveg sem fyrri ríkisstjórnir hafa farið í að láta Lánasjóð ísl. námsmanna taka lán til að standa undir framfærslunni og af því erum við nú að breyta.
    Ekki ætla ég að deila um það hvort hæstv. menntmrh. hafi á sínum tíma sagt að lánasjóðurinn stefndi í að verða gjaldþrota eða hann væri gjaldþrota. En það lá hér fyrir skýrsla sem benti til þess að sjóðurinn væri gjaldþrota á þeim tíma sem hún kom fram.