Fjárlög 1995

6. fundur
Þriðjudaginn 11. október 1994, kl. 18:34:21 (224)


[18:34]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég hafði satt að segja hugsað mér að víkja hér aðeins að örfáum atriðum í fjárlagafrv. og ég verð að taka undir það sem komið hefur fram fyrr í dag að ég harma það að ræðutími skuli hafa verið skorinn niður eins og við stöndum nú frammi fyrir. Í raun og veru hefðum við þurft lengri tíma til að fjalla um þetta frv. heldur en kostur er á miðað við þau þingsköp sem við störfum nú eftir.
    Það sem ég vil kannski leggja aðaláherslu á í máli mínu og tel mig munu sýna fram á í ræðu minni er það að fjárlagafrv. er gatasigti, það heldur engu. Það er bersýnilegt að það vantar að gera ráð fyrir ýmsum þáttum og það er líka bersýnilegt að sparnaðaráform sem gerð er grein fyrir í fjárlagafrv. standast ekki. Ég mun koma að því síðar ræðu minni að áformin um niðurskurðinn í heilbrrn. upp á 1.910 millj. kr. eru illa undirbyggð og á bak við þau er ekki pólitískur vilji sem mun duga til þess að koma þeim málum fram í þinginu. Ég fullyrði reyndar, hæstv. forseti, að í sumum tilvikum sé það þannig að einstakir þingmenn stjórnarflokkanna eða jafnvel þingflokkar stjórnarflokkanna hafi ekki samþykkt þær lagabreytingar sem óhjákvæmilegar eru til þess að koma fram þeim breytingum sem gert er ráð fyrir í heilbrrn. Það sem ég á sérstaklega við þar, hæstv. forseti, eru hugmyndir í frv. um að aftengja elli- og örorkulífeyri hinum almennu breytingum sem verða á launakjörum í landinu.
    Eins og kunnugt er var það eitt meginverkefni og eitt megináhersluatriði viðreisnarstjórnarinnar á sínum tíma þegar lögin um almannatryggingar voru sett árið 1971 undir forustu Eggerts G. Þorsteinssonar, að þar væru inni ákvæði um það að elli- og örorkulífeyrir breyttist um leið og launakjör í landinu, hvort sem þar væri um að ræða breytingar vegna verðlagsþróunar, verðbólgu eða aðrar kjarabreytingar sem um yrði samið á hverjum tíma. Og í þessum lögum eins og þau voru í upphafi var gert ráð fyrir því að þessar breytingar á elli- og örorkulífeyri taki gildi ekki seinna en þremur mánuðum eftir breytingarnar eins og þetta var, að mig minnir. Síðan hygg ég að þessu hafi verið breytt, a.m.k. í verki þannig að þær breytingar sem urðu á launamarkaði komu strax á ellilaunin, jafnvel um leið eða stundum mánuði seinna eða svo. Nú er hins vegar gert ráð fyrr því að höggva á þessi tengsl milli ellilaunanna annars vegar og almennra launa á vinnumarkaðinum hins vegar. Ég vil sérstaklega spyrja hæstv. fjmrh. að því hvort það er svo að stjórnarflokkarnir hafi samþykkt þá lagabreytingu sem óhjákvæmileg er í þessu efni og ég vil einnig leyfa mér að spyrja hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur, formann þingflokks Alþfl., hvort Alþfl. hefur samþykkt þessa breytingu því að hún er í raun og veru bylting í kjörum aldraðra og öryrkja í landinu. Auðvitað er það svo að í tíð núv. ríkisstjórnar hefur maður séð eitt og annað sérkennilegt að því er varðar velferðarkerfið og sem betur fer hefur tekist að verja velferðarkerfið að talsverðu leyti, m.a. fyrir öflugan málflutning stjórnarandstöðunnar og verkalýðshreyfingarinnar á þessu kjörtímabili. En hér væri um að ræða atlögu að kjörum aldraðra sem er auðvitað með þeim hætti að það er alveg óhjákvæmilegt að fá það skýrt fram. Hefur Sjálfstfl. samþykkt þessa atlögu og hefur Alþfl., Jafnaðarmannaflokkur Íslands, ofan á allt það sem hann hefur þurft að ganga í gegnum í seinni tíð lagt það á sig að samþykkja þessi ósköp?
    Ég held að þetta atriði sé í raun og veru eitt það ljótasta af þeim fjölmörgu atriðum sem ástæða er til að spyrja um að því er varðar fjárlagafrv. og heilbrrn. Áður en ég hins vegar kem nánar að því þá ætla ég að segja það hér, virðulegi forseti, að mér finnst að uppsetning fjárlagafrv. og umræðurnar um fjárlagafrv. beri öll þess merki að á bak við hana sé lítill metnaður. Menn eru tiltölulega duglegir að grafa í fortíð. Menn eru tiltölulega duglegir við að setja á sig eitt og annað að því er varðar tölur frá hinum liðna tíma. En ef við skoðum fjárlagafrv. og veltum fyrir okkur framtíðinni og því sem við tekur þá er í raun og veru ekki gert ráð fyrir neinni framtíð í þessu fjárlagafrv. eins og það lítur út. Hér eru menn að bora í fortíðina. Og það kemur auðvitað átakanlegast fram í fjárveitingum til menntmrn. Það er satt að segja ömurlegt að horfa upp á það einu sinni enn að þannig sé á þeim hlutum haldið í menntmrn. að ráðherrann tekur ekki einu sinni mark á sínum eigin frumvörpum um grunnskóla og framhaldsskóla sem þó munu vera tilbúin einhvers staðar í kerfinu. Hann gerir ekki ráð fyrir þeim frumvörpum í fjárlagafrv. fyrir árið 1995. Og auðvitað er það svo, hæstv. forseti, að það er ekki hægt að flytja grunnskólann á næsta ári. Það kemur málinu ekkert við hvort menn eru með því eða á móti því. Staðreyndin er bara sú að það er eftir að ganga frá samningum við kennara um lífeyrismál og guð veit hvað og það tekur allt sinn tíma og auðvitað eiga allir sanngjarnir menn að sameinast um að leyfa þessu að taka þann tíma sem nauðsynlegur er þannig að þetta verði þá verkefni næstu ríkisstjórnar eins og fleira á sviði skólamála.
    Fyrir utan það sem hér væri auðvitað ástæða til að fara yfir varðandi menntmrn. ætlaði ég síðan að drepa einkum á heilbrrn. og af því að tíminn er skammur þá verð ég að fara mjög hratt yfir sögu því miður. Ég gæti svo sem bætt því við að það er búið að skera niður framlög til menntamála á Íslandi á föstu

verðlagi um 2 milljarða í tíð núv. ríkisstjórnar, 2 milljarða. Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson gat þess hér fyrr í dag að í þeim löndum sem náð hafa mestum árangri í efnahagsmálum á undanförnum árum er lögð veruleg áhersla á það að stórauka framlög til menntamála, rannsókna og menningarmála. Hér á landi búum við við þann fornaldarhugsunarhátt að megi skera niður skóla, menntamál og rannsóknir í raun og veru bara eins og hvern annan almennan rekstrarkostnað í þjóðfélaginu þó að staðreyndin sé auðvitað sú að framlög til menntamála og rannsókna eru framlög til þess að tryggja að þjóðin geti búið hér við sæmileg lífskjör á komandi árum og áratugum.
    Fyrir utan þennan framtíðarskort í fjárlagafrv. ætlaði ég að víkja að einu umbótamáli áður en ég kem aðeins að heilbrrn. og það eru húsaleigubætur. Mikið óskaplega eru menn nú búnir að hæla sér margir af húsaleigubótum. ( Fjmrh.: Ekki ég.) Ekki ég, segir hæstv. fjmrh. dapur og niðurkýldur og verður stöðugt lægra á honum risið eftir því sem líður lengra á þessa umræðu. Það er út af fyrir sig rétt að hann hefur ekkert verið að glenna sig mikið með þessar húsaleigubætur. En í frv. hans er þó gert ráð fyrir því og í ræðunni nefnir hann húsaleigubæturnar að það séu 400 millj. kr. sem þetta kostar. En hvaðan á að taka þessar 400 millj. kr., það stendur nefnilega líka í fjárlagafrv. fyrir árið 1995 hvaðan á að taka þær. Í fyrsta lagi ætlar hann að skera niður Byggingarsjóð verkamanna um 200 millj. kr., reyndar alls um 310 millj. kr. og það á að fækka íbúðum sem byggðar verða í félagslega íbúðakerfinu á næsta ári um 100. Það er fyrsta skrefið til að framkvæma þessi fyrirheit um húsaleigubætur, eins og fram kemur í fjárlagafrv. og greinargerð þess á bls. 320. En ekki er nóg að gert vegna þess að til þess að taka nú tekjubótina, réttarbótina örugglega alla aftur þá koma húsaleigubæturnar við sögu í fjárlagafrumvarpsgreinargerðinni á bls. 326 og þar stendur með leyfi forseta:
    ,,Áformað er að lækka útgjöld lífeyristrygginga um 250 millj. kr. Þar af eru 200 millj. kr. vegna endurskoðunar á svokölluðum heimildarbótum [almannatrygginga vel að merkja] í kjölfar upptöku húsaleigubóta . . .  `` Með öðrum orðum, það er meiningin að lækka bætur almannatrygginga, heimildarbæturnar, sem eru sérstaklega til þeirra sem búa við afar krappan kost, það á að skera þetta niður um 200 millj. kr. og þannig að fjármagna húsaleigubæturnar. Þetta er auðvitað ótrúlegt og ég ætla líka að spyrja um þetta. Það er enginn krati lengur hér í salnum. Það er kannski ekki nema von, það er kannski fyrirboði þess sem koma skal. (Gripið fram í.) Já, formaður þingflokks Alþfl. reynist hafa kjark til að vera hér. Er það svo að Alþfl. hafi líka samþykkt að skera niður heimildarbætur almannatrygginga á móti húsaleigubótunum upp á 200 millj. kr.? Er það svo? Það er auðvitað alveg óhjákvæmilegt að fá það skýrt fram hér við þessa umræðu hvort stjórnarflokkarnir standa á bak við þessa aðferð við að láta fjármagna húsaleigubæturnar. ( KÁ: Hvar er heilbrrh.?) Það er spurt hér um heilbrrh., ég segi virðulegi forseti, ég er hættur að nenna að spyrja um þessa ráðherra Alþfl. Það tekur því varla, það eru bráðum kosningar. En það er ágætt að hafa hérna formann þingflokksins til að svara fyrir þessa hluti.
    En er það virkilega þannig að Jafnaðarmannaflokkur Íslands ætli að fjármagna húsaleigubæturnar, ekki með hátekjuskatti, nei. Hann hefur öðlast djúpa sannfæringu fyrir því að það verði að leggja á hátekjuskattinn. Ekki með því, heldur með því að skera niður bætur hjá öldruðum, öryrkjum og fötluðum í landinu. Hvílík jafnaðarstefna er þetta hér, hæstv. forseti, hvílík jafnaðarstefna. Og það væri fróðlegt reyndar að vita á hvaða stigi málsins við afgreiðslu fjárlaganna þessi ósköp komu upp að menn leyfðu sér að láta sér detta það í hug, hvað þá heldur að framkvæma það að skera niður bætur til fatlaðra til þess að fjármagna húsaleigubæturnar, sem menn hafa verið að monta sig af hér í ótal ræðum og greinum, í Alþýðublaðinu og m.a. hérna við útvarpsumræðurnar. Hvernig stendur á þessu? Ég skora á hv. formann þingflokks Alþfl. að svara þessu.
    Ég sagði það hér áðan, virðulegi forseti, að fyrir utan þessi atriði sem ég hef nefnt þá mundi ég aðeins víkja að málefnum heilbrrn. Því miður er enginn kostur á því að fara almennilega yfir þau en ég ætla að rekja þetta aðeins. Hæstv. heilbrrh., Sighvatur Björgvinsson, hefur einu sinni enn selt fjmrh. það að hann ætli að skera niður tiltekna þætti í útgjöldum heilbrigðismála og það er makalaust hvað fjmrh. lætur plata sig oft, það er alveg ótrúlegt. Látum nú vera þó að hæstv. ráðherra Sighvati Björgvinssyni tækist að plata fjmrh. einu sinni en þrisvar og í þessu frv. eru ósannindin sem hæstv. heilbrrh. hefur selt fjmrh. hvorki meira né minna en 2 þús. millj. kr. sem hæstv. heilbrrh. fullyrðir að hann muni skera niður en á bak við það er enginn pólitískur vilji að því er best verður séð. Í fyrsta lagi á að skera niður rekstrarútgjöld í heilbrrn. upp á 600 millj. kr. Og hvernig á að taka það? M.a. með því, með leyfi forseta, að Framkvæmdasjóði aldraðra er ætlað að fjármagna 175 millj. kr. af rekstri hjúkrunarheimila, sértekjur sjúkrahúsa eru auknar um 100 millj. kr. og endurskoðun á hlutverki og skipulagi sjúkrahúsaþjónustu í Reykjavík og á landsbyggðinni á að skila 100 millj. kr. Þá eru rekstrarútgjöld og til heilsugæslu og sjúkraflutninga lækkuð um 100 millj. kr. Loks er gengið út frá 80 millj. kr. almennri hagræðingu hjá stofnunum ráðuneytisins annarra en sjúkrahúsanna í Reykjavík. Það liggja engar upplýsingar fyrir um það, nákvæmlega engar, hvernig á að fara að þessu, ekki nokkrar. Og ég endurtek það sem ég sagði áðan. Ég hef ekki fyrir því að auglýsa eftir heilbrrh. svo hann geti komið hér og gert grein fyrir því hvernig hann ætlar að skera þetta niður.
    Í öðru lagi segir hér að það er gert ráð fyrir því að skera niður útgjöldin til lífeyristrygginga um hvorki meira né minna en 850 millj. kr. Og ég spurði: Er einhver pólitískur vilji á bak við það? Eru menn tilbúnir til þess að aftengja ellilífeyrinn annars vegar og launaþróunina í landinu hins vegar eða hvað, eins

og gert er ráð fyrir í þessari greinargerð?
    Í þriðja lagi er gert ráð fyrir því að skera niður sjúkratryggingarnar, ef ég man rétt, um 420 millj. kr. og engar upplýsingar liggja fyrir um það með hvaða hætti það á að gerast heldur. En hér stendur, með leyfi forseta:
    ,,Þá er áformað að lækka útgjöld sjúkratrygginga um 420 millj. kr. Þar af eru 200 millj. kr. í lyfjakostnaði, 100 millj. kr. í sérfræðikostnaði og svo kemur setning aldarinnar, þegar fjármálaráðuneytismenn hafa verið komnir í algera kastþröng við að koma frá sér þessari stílsnilld sem greinargerðin er. Svo stendur hér ofan á allt annað, þegar búið er að telja upp 200 millj. hér og 100 þar og þá eru 120 eftir og þá er sagt: Já, og svo afgangurinn í meinaefnarannsóknum og kostnaði við sjúkraþjálfun. Það er augljóst, hæstv. forseti, að höfundar greinargerðarinnar hafa ekki hugmynd um hvað þeir eru í raun og veru að segja í þessum texta. Þannig að ég fullyrði það, hæstv. forseti, og tel mig hafa fært full rök fyrir því, að á bak við sparnaðaráform heilbrrn. er mjög óljós pólitískur vilji og ber í raun og veru að líta þannig á að með því móti sé hægt að halda því fram að það séu 2.000 millj. í viðbót sem vanti inn í fjárlagafrumvarpsdæmið til þess að menn geti í raun og veru horft á það nákvæmlega eins og það er.
    Ég held hins vegar að með hliðsjón af því hvernig háttar hér til þá sé óhjákvæmilegt að ég ljúki máli mínu nú með því að bera fram og endurtaka þessar spurningar til hæstv. fjmrh. og hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur. Ég vil líka leyfa mér að spyrja hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur, af því að ég sé að hún hefur beðið um orðið í andsvari: Hvaða niðurskurður á atvinnuleysisbótum er það sem Alþfl. hefur samþykkt? En frv. gerir ráð fyrir því að lækka atvinnuleysisbætur í raun um 200 millj. kr. Hvernig á að skerða kjör hinna atvinnulausu til þess að uppfylla þessa yfirlýsingu í greinargerð fjárlagafrv.?