Fjárlög 1995

6. fundur
Þriðjudaginn 11. október 1994, kl. 19:08:24 (233)


[19:08]
     Jón Kristjánsson :

    Herra forseti. Ég vil grípa upp orðið í upphafi í þessum seinni ræðutíma mínum þar sem frá var horfið. Hvað hefur gerst með bætur almannatrygginga? Það sem átt er við með því að farið verði eftir forsendum fjárlaga er að sjálfsögðu það að tryggingarnar hækka ekki meira en launaforsendur fjárlaga gera ráð fyrir. Ef verður samið á almennum vinnumarkaði um hærra þá er ríkisstjórnin og Alþfl. þar með búin að ganga frá því að þessir aðilar fá ekki hærri bætur. Það er einfaldlega það sem er að gerast.
    Hins vegar er það svo að umræðurnar hafa leitt það í ljós að fjárlagafrv. er kannski enn þá minna marktækt plagg en ég átti þó von á í upphafi. M.a. hæstv. menntmrh. hefur lýst því yfir að illa sé farið með ráðuneyti hans í frv. og fjárln. eigi eftir að skoða málið. Það rennir kannski stoðum undir það að lokafrágangur frv. í sumar hafi verið saminn í einhvers konar timburmönnum eftir það kosningafyllerí sem Sjálfstfl. og ríkisstjórnin fór á á miðju sumri og það hafi verið bakslag eftir þau áform sem gerði það að verkum að Alþfl. hefur haft lítinn tíma til að líta á þetta frv.
    Á Stöð 2 var viðtal við hæstv. utanrrh. 2. október um fjárlagafrv., formann annars stjórnarflokksins og þar segir hann, með leyfi forseta:
    ,,Ég tek undir það með fjmrh. þar sem hann segist gera sér vonir um að fjárlagafrv. verði samþykkt á Alþingi óbreytt. Ég geri mér vonir um það en engu að síður er það nú svo að við megum búast við einhverjum breytingum í meðförum þings. Ég minni líka á að ríkisstjórnin út af fyrir sig hefur ekki rætt til hlítar hugmyndir um tekjuhliðina þannig að það kann að vera eitthvert svigrúm til breytinga.``
    Síðan segir hann svo: ,,En kjarni málsins er að viðhalda stöðugleikanum.`` Hvað er hér á ferðinni? Svo vill til að hæstv. ráðherrar aðrir en hæstv. fjmrh. og menntmrh. hæstv. sjá ekki ástæðu til að vera við umræðuna og er það náttúrlega algerlega ófært vegna þess að hæstv. fjmrh. hefur lagt á það mikla áherslu í sinni tíð að einstök ráðuneyti eins og hann segir beri ábyrgð á málaflokkum sínum. Hann hefur hælt sér mjög af því að hafa lagt ábyrgðina á útgjöldum í einstaka málaflokkum yfir á herðar fagráðherranna og fagráðuneytanna. Þess vegna er það furðulegt að hæstv. ráðherrar skulu ekki sjá ástæðu til þess að standa fyrir máli sínu ef ábyrgðin er öll komin á herðar þeim til þess að við vitum hvort hér er um eitthvert marktækt plagg að ræða eða sem mér skilst vera að boltinn hafi verið gefinn upp með það í umræðunni að fjárln. eigi að breyta frv. meira og minna og sníða af þá agnúa sem eru á því. Ég fagna því ef svo er og er tilbúinn að taka þátt í þeirri vinnu að laga þetta.
    Fleiri atriði eru óljós varðandi tekjuhliðina. Það hefur verið komið lítillega inn á skattsvikin í umræðunni. Frv. tekur engan veginn á því máli. Hér er talað hátt um skattsvik og hv. 5. þm. Reykv. talaði um það í ræðu sinni að menn yrðu auðvitað að bjarga sér og afgreiddi umræðuna um skattsvik og skattkerfið þannig að Framsfl. vildi hækka matarverð til fátæks fólks í landinu. Þetta er náttúrlega máflutningur sem er ekki mikið mark takandi á og þarf í rauninni ekki að hafa mörg orð um hann. Hins vegar er auðvitað algerlega ófært að líða það að skattsvik í þjóðfélaginu séu orðin um 15 milljarðar kr. eins og skýrslur gefa til kynna og það eina sem er gert í því sambandi sé að flækja skattkerfið og ráða fleiri menn til að líta eftir að þær aðgerðir gangi eftir sem þingið samþykkir.
    Eins og ég kom inn á í upphafsræðu minni hefur Alþýðusamband Íslands ályktað um fjárlagafrv. og sent frá sér greinargerð um efni þess. Þar telja þeir upp nokkur atriði og lista þau upp sem eru afnám tenginga bótafjárhæðar við kjarasamninga, afnám eingreiðslna hjá atvinnulausum og elli- og örorkulífeyrisþegum, bein lækkun atvinnuleysisbóta, hækkun vaxta í húsbréfakerfinu um 0,1% sem eykur greiðslubyrði lána, fækkun félagslegra íbúða sem hér hefur verið komið inn á, Framkvæmdasjóður aldraðra á að leggja 175 millj. til reksturs hjúkrunarheimila og aukin gjaldtaka á sjúkrahúsum og í heilbrigðiskerfinu. Þetta er talið upp, þetta er ekki áróður stjórnarandstöðunnar á Alþingi. Þetta er skoðun Alþýðusambands Íslands á frv. einmitt þegar á að fara í samninga um kaup og kjör núna á næstu vikum.
    Hæstv. fjmrh. hefur ekki svarað enn þá spurningum mínum um hvernig atvinnulífið eigi að taka við ef ríkið kippir að sér hendinni í fjárfestingum. Því má velta því fyrir sér hvort sveitarfélögin geti tekið við þessu hlutverki, geti tekið á í atvinnumálum. Ég hygg að sveitarfélögin séu fús til þess ef þau halda tekjustofnum sínum að taka á eins og þau hafa efni til. Hins vegar er það svo að staða sveitarfélaga hefur stórversnað á síðustu árum og þær 600 millj. sem þau greiddu í Atvinnuleysistryggingasjóð hafa ekki runnið til sveitarfélaganna aftur. Hluti af því er skattur í ríkissjóð þannig að ljóst er að ekki verður svo að sveitarfélögin taki við hlutverki ríkisins í því að halda uppi atvinnu frekar en ég stórefast um að atvinnulífið sé í stakk búið til þess að gera það.
    En tíma mínum er að ljúka. Ég hygg að fjárln. þurfi að leggja mikla vinnu í frv. til þess að koma í það einhverju viti og væri fróðlegt að heyra það frá fulltrúum Alþfl. hvort þeir hafi í raun samþykkt tekjuhliðina í frv. miðað við ummæli formanns flokksins í sjónvarpsviðtali 2. október sl.