Fjárlög 1995

6. fundur
Þriðjudaginn 11. október 1994, kl. 19:21:01 (235)


[19:21]
     Jón Kristjánsson (andsvar) :
    Herra forseti. Hv. 5. þm. Reykv. virðist vera algerlega fastur í þeirri kenningu að ekki sé hægt að lækka matarverð í landinu nema í gegnum skattkerfið, nema flækja skattkerfið og gera það illframkvæmanlegt. Hitt getum við svo verið sammála um að kjörin í landinu eru bágborin. Hv. 5. þm. Reykv. hefur stutt þá ríkisstjórn, sem lækkaði skattleysismörk. Ætli það hafi ekki orðið til þess að rýra kjörin og að hrinda einhverjum til skattsvika eins og mér skilst að hv. 5. þm. Reykv. haldi fram? Þannig er nú komið í tíð hæstv. ríkisstjórnar að ég er ekki hissa þó að hv. 5. þm. Reykv. ætli ekki að fara fram aftur ef ástandið er orðið slíkt að búið sé að hækka skattbyrðina það mikið í þjóðfélaginu í tíð Sjálfstfl. að fólk neyðist til skattsvika til þess að brauðfæða börnin sín. Þetta er ekki falleg mynd og þetta eru ekki góð eftirmæli eftir þetta kjörtímabil af kjörum fólks í landinu. Því miður eru kjörin bágborin, bilið hefur breikkað milli manna, heimili komin í vanskil en þetta fjárlagafrv. tekur ekki með neinum hætti á þessum vandamálum.