Fjárlög 1995

6. fundur
Þriðjudaginn 11. október 1994, kl. 19:23:08 (236)


[19:23]
     Ingi Björn Albertsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Tók þingheimur eftir því að hv. þm. minntist ekki einu orði á matarskattinn, hann minntist ekki einu orði á virðisaukaskattinn, hann minntist ekki einu orði á þá yfirlýsingu sem formaður flokksins gaf fyrr í dag. Hann gerði ekki tilraun til að svara spurningu minni um það hvort Framsfl. væri klofinn í þessu máli heldur fór hann með almennar hugleiðingar út frá ræðu minni um skattsvik í þjóðfélaginu. Það er athyglisvert að þingmenn Framsfl. eru á hröðum flótta. Þeir eru ekki bara á hröðum flótta frá yfirlýsingum sínum gagnvart matarskattinum. Nú eru þeir á hröðum flótta hver frá öðrum. Hinn nýi formaður Framsfl. fær ekki stuðning hv. þm. í andsvari rétt áðan heldur fór hann svona fram hjá því á penan hátt. Ég hlýt að spyrja aftur: Er Framsfl. klofinn í afstöðu sinni til virðisaukaskatts? Ég hlýt að túlka málið þannig. Það er alveg ljóst og það vita allir hvaða tillögu Framsfl. var með á síðasta þingi. Þeir ætluðu að fara með virðisaukaskattinn niður í 23% og síðan átti að auka greiðslur vegna barnabóta og slíkra hluta. Þetta var uppistaðan í þeirra máli. Hvað halda menn að 1,5% lækkun á matarverði hefði skilað sér? Því hefði hvergi fundið stað og hvað ætla menn að gera við einyrkja, aldraða og aðra þá sem ekki eiga börn? Hvað hefði að komið þeim að notum? Ég spyr Framsfl. hvaða jöfnuður væri í því að fara þá leið sem þeir boðuðu enda benti skýrsla Ríkisendurskoðunar á það að þetta var alversta leiðin.