Fjárlög 1995

6. fundur
Þriðjudaginn 11. október 1994, kl. 19:27:17 (238)


[19:27]
     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Mér er ekkert að vanbúnaði að flytja mína ræðu nú fyrir matarhlé en ég heyri að það hefur verið gert samkomulag um að fresta fundi klukkan hálfátta og ég er dálítið hissa á tímaskyni forseta. Mín klukka verður fyrr hálfátta en hans klukka en að öðru leyti ætla ég ekki að gera neinar athugasemdir við fundarstjórn hans.
    Mig langar aðeins að beina til fjmrh. spurningum í framhaldi af lestri þessa frv. Ég hef hlýtt á hans ræðu og tekið eftir því að ekki komu fram svör við nokkrum atriðum sem eru afar athyglisverð og fyllsta ástæða til þess að vekja athygli á.
    En áður en ég kem að því þá langar mig til að ítreka það sem fram kom í máli hv. þm. Svavars Gestssonar þar sem hann vakti rækilega athygli á áformum ríkisstjórnarinnar að ná niður sparnaði um nokkur hundruð milljónir með því að taka út ákvæðið um eingreiðslur sem tengdust kjarasamningum og kauphækkunum. Það eru greinilega áform ríkisstjórnarinnar að aftengja þessa hluti þannig að þótt samið verði um kauphækkanir í komandi kjarasamningum, sem er augljóst að verður því hæstv. forsrh. hefur beinlínis boðið kauphækkanir strax í forgjöf, eiga þær ekki að ganga til þeirra sem njóta bóta eins og atvinnuleysistryggingabóta og lífeyrisbóta. Það kemur skýrt fram í athugasemdum í fjárlagafrv. á bls. 323 og 326 að þessi eru áform ríkisstjórnarinnar, að ná niður töluverðum fjármunum í útgjöldum með því að aftengja þennan bótalið við kjarasamninga.
    Það kemur t.d. fram á bls. 323, sem hv. þm. Svavar Gestsson gat ekki um en hann vakti athygli á sams konar ákvæði varðandi lífeyrisbætur, í athugasemdum um Atvinnuleysistryggingasjóð að það sé stefna ríkisstjórnarinnar að afnema sjálfvirka verðlagstengingu á atvinnuleysisbótum. Gert er ráð fyrir því að spara um 130 millj. kr. í atvinnuleysisbótum vegna þessa og auk þess að spara 200 millj. kr. sem er ekki skýrt að fullu hvernig eigi að nást fram en má skilja af textanum að eigi að einhverju leyti að nást með aftengingu bóta við kauphækkanir.
    Þetta verður að sumu leyti skiljanlegt þegar við skoðum fjáraukalagafrv. sem liggur fyrir og verður síðar rætt en þar kemur fram í því að þessir liðir hafa farið verulega fram úr áætlun fjárlaga 1994. T.d. kemur fram á bls. 38 í því frv. að útgjöld til lífeyristrygginga verða um 700 millj. kr. hærri á þessu ári en áætlað var í fjárlögunum vegna einmitt eingreiðslna til lífeyrisþega. Það gefur okkur nokkra hugmynd um þær tölur sem ríkisstjórnin er að seilast í að þurfa ekki að borga á þessu ári og greinilegt að hér er um að ræða allstórt mál fyrir þá sem þurfa á þessum bótum að halda.
    En mig langar að varpa fyrirspurn til hæstv. fjmrh. um sértekjur Fiskistofu Íslands. Í frv. undir kaflanum um sjávarútvegsráðuneyti á bls. 316 í skýringum með Fiskistofu stendur eftirfarandi, með leyfi forseta:
    ,,Sértekjur eru áætlaðar 112,1 millj. kr. Gert er ráð fyrir að lögum um stjórn fiskveiða verði breytt þannig að innheimt verði sérstakt gjald af afla báta er veiðar stunda með línu og handfærum með dagatakmörkunum.``
    Þetta er ekki skýrt frekar nema þess er getið í yfirliti aftast með fjárlagafrv. þar sem listuð eru upp þau lög sem þarf að breyta til að ná fram forsendum fjárlagafrv. en þar eru talin með lögin um stjórn fiskveiða.
    Ég hlýt að spyrja: Hvaða breytingar er nákvæmlega gert ráð fyrir að gera á þessum lögum? Hvaða gjald á að taka upp á krókaleyfisbáta sem ekki eru í dag?
    Það er hins vegar athyglisvert að á lista um væntanleg stjfrv. á þessu þingi sem fylgdi með stefnuræðu forsrh. var ekki getið um þessa lagabreytingu. Ég spyr hæstv. ráðherra að því líka hvort ríkisstjórnin hafi hætt við að flytja þessa breytingu.
    Það sem mig langar til að eyða tíma mínum í að þessu sinni er að fara yfir framlög til vegamála og áform ríkisstjórnarinnar hvað það varðar á næsta ári.
    Ef við lítum á athugasemdir með frv. um vegamál þá er dálítið sérstakur kafli og athyglisverður í ljósi fyrri skýringa á framkvæmdaátaki vegna atvinnumála. Það kemur fram á bls. 342 í frv. að þar er um að ræða sérstaka skerðingu á mörkuðum tekjustofnum til vegamála og í stað þess að renna til vegagerðar þá á að taka fé í ríkissjóð. Það er útskýrt með því að segja að þessari skerðingu sé ætlað að standa undir útgjaldaaukningunni á þessu og síðasta ári vegna hins sérstaka framkvæmdaátaks vegna atvinnumála.
    Þetta gefur tilefni til þess að spyrja hvort ríkisstjórnin hafi gefist upp á þessu þriggja ára framkvæmdaátaki í atvinnumálum og það verði aldrei nema tveggja ára átak. Þegar við skoðum fjárlagafrv. þá sjáum við að það vantar alveg þessa átakstölu fyrir árið 1994 sem á samkvæmt vegáætlun að vera 463 millj. Eftir stendur því að það er aðeins árin 1993 og 1994 sem er sérstök fjárveiting til þess að mæta framkvæmdaátaki vegna atvinnumála, þ.e. átaki í vegamálum.
    Ég vil spyrja hæstv. ráðherra að því hvort það hafi verið hætt við þetta sérstaka átak þannig að það verði bara tvö ár en ekki þrjú ár eins og áður hefur verið lýst yfir að verði. Það er reyndar staðfest í vegáætlun að það eigi að standa yfir í þrjú ár, 1993--1995.
    Þegar við skoðum tölurnar um fjármagn til vegamála á árinu 1995 þá er skerðingin svo mikil að hún er meiri en sem nemur þessu sérstaka framkvæmdaátaki á næsta ári. Það er því ljóst að fjárveitingin

er þannig að á næsta ári verður enginn peningur til að standa undir þeim átaksverkefnum. Það hlýtur að kalla fram þá spurningu hvort það séu áform ríkisstjórnarinnar að breyta vegáætlun þannig að taka út úr henni allar þær framkvæmdir sem komu inn í hana við það að bæta við því fjármagni sem hét framkvæmdaátak í atvinnumálum. Eða ef framkvæmdirnar eiga að standa áfram og eiga að verða unnar á næsta ári er þá meiningin að Vegasjóður taki lán sem nemur mismuninum? Á að auka lántökur Vegasjóðs á næsta ári frá því sem áformað er?
    En það er rétt af þessu tilefni að fara aðeins yfir vegamálin því ríkisstjórnin hefur nokkuð hælt sér af þessu átaki í vegamálum og það er nauðsynlegt svo að menn vaði ekki í neinni villu um staðreyndir í þessu máli að draga fram meginatriðin í því sem hún hefur gert í vegamálum á þessum rúmlega þremur árum sem hún hefur setið.
    Þar er fyrst til að taka að rifja upp að eftir að ríkisstjórnin tók við byrjaði hún á því að skera niður framlög til vegamála á þágildandi vegáætlun. Hún byrjaði á því að draga saman seglin á árunum 1991 og 1992 um samtals 1.115 millj. kr. Það var fyrsta skerðingin. Næst er það að ríkisstjórnin auglýsir að hún muni grípa til sérstaks átaks til þess að draga úr atvinnuleysi í framhaldi af kjarasamningum árið 1992 og um 3.000 millj. kr. muni verða varið til vegagerðar umfram það sem áður var áætlað til þess að draga úr atvinnuleysi. Þetta er sett inn í vegáætlun á sínum tíma og dreifist á þrjú ár, 1993, 1994 og 1995. En það merkilega er að eins og kom fram í nál. meiri hluta efh.- og viðskn. 1992 þá er þetta framkvæmdaátak notað sem rökstuðningur fyrir því að taka upp sérstakan skatt, að taka upp sérstakt bensíngjald, frá og með 1993 sem átti að skila um 750 millj. kr. á ári. Það þýðir að á gildistíma vegáætlunar mun þessi skattur skila um 3.000 millj. kr. eða liðlega þeirri fjárhæð sem ætluð var í þetta framkvæmdaátak. Það er því búið að skattleggja bifreiðaeigendur fyrir þessu sérstaka framkvæmdaátaki. En gallinn er bara sá að skatturinn rennur í ríkissjóð en framkvæmdirnar eru kostaðar úr Vegasjóði. Þannig að ríkissjóður hirðir tekjurnar en lætur Vegasjóð standa uppi með skuldirnar. ( Gripið fram í: Það er sami sjóðurinn, Vegasjóður og ríkissjóður.) Það virðist ekki vera miðað við þessa áherslu meiri hlutans á því að aðgreina þessa sjóði og láta annan borga en hinn hafa tekjurnar.
    Til þess að mæta þessu sérstaka átaki er þessi 3.000 millj. kr. skattur lagður á en hann rennur á annað stað en þann sem kostar átakið. Þetta er atriði númer tvö.
    Atriði númer þrjú er að af mörkuðum tekjustofnum Vegagerðarinnar er tekin fjárhæð á hverju ári í ríkissjóð þannig að framkvæmdagetan verður minni sem því nemur öll ár gildistíma vegáætlunarinnar. Samtals er um að ræða á þessum fjórum árum skerðingu um 781 millj. kr. Auk þess er í fjárlögum 1994 skerðingin meiri en áformað hafði verið í vegáætlun. Það hafði verið gert ráð fyrir að ríkissjóður tæki 143 millj. en varð 227 millj. meira.
    Í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir því að taka 150 millj. kr. meira í ríkissjóð af tekjum Vegasjóðs en vegáætlun gerir ráð fyrir. Þarna er því um að ræða samtals um 377 millj. í skerðingu á tveimur árum umfram það sem áður hafði verið samþykkt.
    Síðan kemur þar að auki í fjárlagafrv. skerðing upp á 556 millj. á framkvæmdafé. Þarna erum við því komin með 2.829 millj. kr. sem Vegasjóður hefur verið skertur á þessum fjórum árum, 1993--1996, að viðbættum skerðingunum 1991 og 1992.
    Nýr kostnaður hefur verið settur á Vegasjóð um 2.000 millj. kr. sem eru ferjur og flóabátar þannig að það eru 4,8 milljarðar sem er ýmis fært af vegafé yfir í ríkissjóð eða kostnaður færður af ríkissjóði yfir á Vegasjóð.
    Það er ekki nóg með það að fara svona illa með framkvæmdaféð heldur er til þess að fela skerðinguna tekið lán upp á 3.000 millj. til að halda uppi framkvæmdum og þær lántökur á eftir að borga með tekjum Vegasjóðs samkvæmt upplýsingum fjmrh. á sínum tíma sem yrði einhvern tímann eftir að þessu framkvæmdaátaki lýkur þannig að á næstu árum eftir að þessi ríkisstjórn hefur farið frá á að borga skuldirnar sem þessi ríkisstjórn hefur stofnað til.
    Niðurstaðan er sú að það er búið að draga saman getu Vegasjóðs um tæpa 5 milljarða og það er búið að skuldbinda hann um 3 milljarða þar að auki sem gerir það að verkum að framkvæmdir minnka sem því nemur á næstu árum.
    Þetta er ekki góð staða, hæstv. fjmrh. Það má vel vera að menn geti búið til fjárlagafrv. sem sýnir skaplegar tölur með svona aðferðum, að færa tölur af einum sjóði yfir á annan, út úr fjárlagafrv. og yfir í aðra sjóði. En það breytir ekki þeirri staðreynd að þessari ríkisstjórn hefur tekist að skattleggja meira en þeim sem á undan fóru og henni hefur tekist að eyða meira en fyrri ríkisstjórnum. Það er svo sem í takt við afrekaskrá Sjálfstfl. að skilja eftir sig skuldir, eyða meira en aflað er á hverjum tíma. Það er merkileg staðreynd að bæði í ríkisstjórn og reyndar í sveitarstjórnarmálum eins og hjá Reykjavíkurborg hefur Sjálfstfl. haldið uppi þeirri stefnu að safna skuldum. Það hefur verið rakið rækilega hér hversu mjög skuldir ríkissjóðs hafa aukist. Samanlagður halli þessarar ríkisstjórnar stefnir í það að vera 40 millj. kr. og það er ekki bara að ríkissjóður hafi safnað skuldum heldur hefur hæstv. fjmrh. tekist að láta Vegasjóð safna miklum skuldum sem þeir sem á eftir koma eiga að sjá um að borga.