Fjárlög 1995

6. fundur
Þriðjudaginn 11. október 1994, kl. 20:31:46 (239)

[20:31]
     Ólafur Ragnar Grímsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Þessi umræða um frv. til fjárlaga hefur staðið hér í allan dag frá því kl. hálftvö. Eitt helsta atriðið í málflutningi hæstv. fjmrh. var að þetta fjárlagafrv. væri forsendan fyrir lægri vöxtum. Það er meginstefið bæði í framsöguræðu hæstv. ráðherra og í greinargerð fjárlagafrv. Umræðan í dag hefur öll byggst á þeirri fullyrðingu hæstv. ráðherra í þingsalnum í dag að fjárlagafrv. tryggi lægri vexti. Nú gerist það hins vegar í stuttu fundarhléi að hæstv. fjmrh. birtist á sjónvarpsskerminum og boðar vaxtahækkun. Ég hugsa að það sé einsdæmi að fjmrh. í stuttu fundarhléi frá fjárlagaumræðu á Alþingi ávarpar þjóðina og boðar vaxtahækkun þvert ofan í allt það sem hann hefur sagt hér í dag og það sem sagt er í fjárlagafrv. Þessi tíðindi, vaxtahækkunarboðskapur hæstv. fjmrh., er með þeim hætti að það er nánast ógerlegt að halda umræðum . . .
    ( Forseti (VS) : Forseta finnst þetta ekki alveg vera varðandi fundarstjórn forseta.)
    Ég er nú að koma að því, virðulegur forseti, eins og ég greindi starfandi forseta frá fyrir fundinn og bið þann forseta sem nú er í stólnum að sýna bara biðlund.
    ( Forseti (VS) : Það væri ágætt að það færi að koma að því.)
    Ég hef greint forsetaembættinu frá því hvað ég muni segja hér. Ef samskiptahættir forsetaembættisins eru með þeim hætti að þau skilaboð komast ekki áleiðis þá verða forsetarnir að eiga um það innbyrðis en mér finnst óréttlátt að skerða ræðutíma minn vegna samskiptaörðugleika forsetanna.
    Það er þess vegna alveg ljóst, virðulegur forseti, að fjmrh. hefur í fundarhléinu gjörbreytt allri þessari umræðu. Hann hefur nú tilkynnt vaxtahækkun sem gerir það að verkum að öll umræðan hér í dag hlýtur að beinast inn á aðrar brautir. Þetta er fyrsta ástæðan fyrir því að ég óska eftir því að umræðunni verði frestað og hún haldi ekki áfram fyrr en á morgun svo menn fái tíma til að átta sig á þessari tilkynningu fjmrh. um vaxtahækkun.
    Önnur ástæðan er sú, virðulegur forseti, að hér hefur ítrekað í dag verið óskað eftir því að viðkomandi fagráðherrar, sem bera ábyrgð á þeim köflum í fjárlagafrv. sem fjalla um samgöngumál, menntamál, heilbrigðismál og félagsmál, verði mættir til umræðunnar þannig að þeir geti svarað þeim spurningum sem til þeirra hefur verið beint. Aðeins hæstv. menntmrh. gerði það í dag en fór síðan af fundi strax á eftir. Það er nánast ógerlegt að ætla þingmönnum að taka fyrir þessa götóttu þætti í fjárlagafrv. án þess að viðkomandi fagráðherrar sem fjmrh. segir að beri ábyrgð á skiptingunni í sínu ráðuneyti . . .   (Forseti hringir.)
    Virðulegi forseti. Ég þurfti að verja 30 sekúndum vegna frammíkalla forseta áðan og ætla mér að fá 30 sekúndur í viðbót til að ljúka máli mínu.
    ( Forseti (VS) : Það er mjög ríflegt.)
    Önnur röksemdin er þess vegna sú að umræðan haldi ekki áfram fyrr en þeir alvörufagráðherrar sem bera ábyrgð á málaflokkunum komi til umræðunnar.
    Í þriðja lagi er það líka orðið ljóst, (Forseti hringir.) virðulegur forseti, að fjmrh. einum er gjörsamlega fyrirmunað á þeim stutta ræðutíma sem hann hefur hér í kvöld að svara öllum þeim fyrirspurnum (Forseti hringir.) um einstaka málaflokka í frv. sem fjallað hefur verið um.
    Ég fer þess vegna formlega fram á það fyrir hönd Alþb., virðulegur forseti, með sérstöku tilliti (Forseti hringir.) til vaxtahækkunaryfirlýsingar fjmrh., að þessari umræðu verði frestað til morguns.