Fjárlög 1995

6. fundur
Þriðjudaginn 11. október 1994, kl. 20:48:01 (249)


[20:48]
     Kristín Ástgeirsdóttir (um fundarstjórn) :
    Virðulegur forseti. Ég vil taka undir þau ummæli sem hér hafa fallið við þessa umræðu. Það er mjög óeðlilegt að halda umræðunni áfram með þessum hætti þegar ráðherrar eru fjarverandi. Að vísu er maður orðinn svo vanur því að þeir láti ekki sjá sig að það er varla að maður hafi geð í sér til að spyrja um þá. Ég vil samt leita eftir upplýsingum um það hvar hæstv. félmrh. er að finna. Er von á honum hingað í hús? Svo vill til að það eru líka mál sem varða ráðuneyti hans eins og húsaleigubæturnar og eins og niðurskurðurinn á Atvinnuleysistryggingasjóði sem vert væri að ræða við hann og ég gat ekki komið að í ræðu minni í dag. Því spyr ég hæstv. forseta hvort félmrh. er að vænta hingað. Mér finnst rétt að við fáum upplýst hvaða ráðherrar eru á leiðinni í hús og hvort hægt verði að halda þessari umræðu eðlilega áfram. Ef svo er ekki þá tek ég undir þá ósk að umræðunni verði einfaldlega frestað.