Fjárlög 1995

7. fundur
Miðvikudaginn 12. október 1994, kl. 14:39:46 (269)


[14:39]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég skal gera tilraun til þess að skýra þetta út fyrir hv. þm.
    Í fyrsta lagi er verið að gefa út bréf með ECU-viðmiðun til þess að auka fjölbreytni og til þess að koma til móts við þarfir þeirra sem vilja festa fé um stundarsakir í mynt sem er tengd erlendum gjaldeyri vegna þess að ýmsir þurfa að borga niður samninga síðar og við töldum heppilegra að bjóða upp á það hérlendis en að viðkomandi aðilar þyrftu að fara til útlanda til að festa fé þar.
    Það er misskilningur að 8% vextir séu eitthvað mjög háir vextir hvað þetta snertir. Það eru lægri vextir en t.d. í Danmörku og Portúgal, svo að ég nefni dæmi. Svo má hv. þm. ekki rugla saman nafnvöxtum annars vegar og ávöxtunarkröfu hins vegar. Nafnvextir eru þeir vextir sem settir eru í viðkomandi bréf en það er hins vegar markaðurinn sem ræður því hver ávöxtunarkrafan er á hverjum tíma, hún getur verið lægri og hún getur verið hærri eftir atvikum því um er að ræða tilboð og útboðsstarfsemi og gildir engu hvaða nafnvextir eru í bréfunum. Þetta veit auðvitað hv. þm. Ég ætla að nefna dæmi um þetta. Þegar hann bar ábyrgð á ríkisstjórn síðast þá voru nafnvextir á spariskírteinum ríkissjóðs 6%. Það seldist ekki eitt einasta bréf því ríkisstjórnin þá vildi ekki hækka vextina. Markaðurinn sagði að vextirnir ættu að vera yfir 8% og ávöxtunarkrafan á húsbréfum var 8,4%. Það varð auðvitað að hækka vextina til samræmis við það sem markaðurinn gerði en nafnvöxtunum var ekkert breytt að sjálfsögðu. Það voru bara markaðsvextirnir sem réðu í þessu sambandi.
    Þetta vildi ég að kæmi fram og það er kannski til umhugsunar fyrir nokkra sem hér eru að bankavextir hafa ekki lækkað eins mikið og vextir á verðbréfamarkaði, þar á meðal á bréfum sem ríkið gefur út og það skiptir auðvitað miklu máli í allri þessari umræðu og gefur okkur vonir um frekari vaxtalækkanir í bankakerfinu.