Fjárlög 1995

7. fundur
Miðvikudaginn 12. október 1994, kl. 15:34:59 (283)



[15:34]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er ljóst að þegar fráfarandi ríkisstjórn fór frá völdum árið 1991 þá var vaxtastig á markaði þannig að ávöxtunarkrafa húsbréfa var 8,4% eða þar um bil og spariskírteini seldust ekki. Það var gífurleg innlausn spariskírteina þrátt fyrir nafnvexti upp á 6% og markaðurinn taldi að vextirnir ættu að vera, þ.e. ávöxtunarkrafan var yfir 8%, 8,1%.
    Af því að hv. þm. er helsti sérfræðingur þeirra framsóknarmanna í vöxtum og fulltrúi framsóknarmanna í bankaráði þá langar mig til að leggja fyrir hann eina spurningu: Á bls. 367 í fjárlagafrv. er sýnd mynd af skammtímavaxtaþróun hér á landi. Þar er sýnt hvernig verðbréfavextir, þriggja mánaða víxlar sem ríkið gefur út, hafa snarlækkað en bankakerfið lætur sitt eftir liggja. Ef við lítum á árin 1989, 1990, 1991, 1992 og 1993 þá er vaxtamunurinn svona 2--3% á forvöxtum víxla í bankakerfinu og á skammtímabréfum. En upp á síðkastið er munurinn upp undir 6--7%. Nú spyr ég helsta sérfræðing Framsfl., fyrrv. bankaráðsformann Búnaðarbankans, hvernig á því stendur að bankakerfið hefur ekki lækkað vexti með samsvarandi hætti og gerðist á verðbréfamarkaðinum.
    Ég væri mjög feginn ef hv. þm. mundi svara þessu í skýru máli af því að ég veit að hann er skýr eins og hann á kyn til.