Fjárlög 1995

7. fundur
Miðvikudaginn 12. október 1994, kl. 15:39:15 (285)



[15:39]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir svarið, fyrir að viðurkenna það, eins og kom glögglega fram í máli hans, að enn megi lækka vexti í bankakerfinu og eins fyrir að skýra okkur frá því hvernig bankakerfið heldur uppi háum vöxtum til þess að koma í veg fyrir gjaldþrot fólks í landinu. Það er að vísu sumum kannski torskiljanlegra.
    En aðalatriði þessa máls er að umræðurnar um vexti hafa verið á þann veg að vextir á Íslandi á skammtímamarkaði, á verðbréfaþinginu, eru þeir lægstu sem um getur á Norðurlöndum og þótt víðar sé leitað en bankarnir sitja eftir. Nú hefur einn af bankaráðsmönnum Búnaðarbankans, hv. þm. Guðni Ágústsson, tekið af skarið, komið hér í ræðustól og lýst því yfir, sem ég hef sagt í mínum ræðum, að bankakerfið muni lækka vexti á næstunni. Vona ég að það gangi eftir.